Við fasistarnir

eftir Svavar Alfreð Jónsson 

Þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu var það gert með tilstyrk stjórnmálaflokks sem er á móti aðildinni.

Nýlega ítrekaði flokkurinn þá andstöðu sína.

Það athæfi, að sækja um aðild að samtökum sem maður vill alls ekki í vera, var réttlætt með því að skoða ætti í pakkann, sjá hvaða samning hægt væri að fá og síðan ætti þjóðin að fá að ákveða hvort hún vildi aðild eða ekki.

Síðan hefur verið að koma í ljós að umsóknin var ekki send til að skoða í pakkann. Nú síðast lýsti Þorsteinn Pálsson því yfir í viðtali á Eyjunni, að sú ákvörðun Alþingis, að sækja um aðild að ESB feli í sér að Ísland stefni að aðild.

Viðræðurnar séu ferli sem miði að aðild.

Hafi einhver efast um að meiningin með aðildarumsókn Íslands hafi verið sú að fá að skoða í pakkann, hafa nú verið tekin af öll tvímæli um það, af manni sem situr í samninganefndinni sjálfri.

Þegar Ísland sótti um aðild að ESB var það yfirlýsing um að Ísland ætlaði sér þangað inn.

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um trúverðugleika Íslands. Það er ekki trúverðugt að sækja um aðild að alþjóðlegum samtökum en vera um leið á móti aðild að samtökunum.

Illa var staðið að ESB-umsókn Íslands. Sótt var um með hangandi hendi og ferlið hefur einkennst af spuna og blekkingum.  

 

Aðildarsinnar staðhæfðu að umsóknin myndi hafa í för með sér „upplýsta” umræðu um Evrópusambandið.

Sú umræða hefur einkennst af öfgum. Hún er í sama anda spuna og blekkinga og umsóknin.

Í herbúðum heitustu andstæðinga aðildar er rætt um landsölu og föðurlandssvik.

Aðildarsinnar hafa síst verið skárri. Þeir sem leyfa sér að efast um aðild Íslands að ESB eru sagðir þjóðrembur, einangrunarsinnar sem hafi andúð á útlendingum og óvinir alþjóðlegrar samvinnu.

Nýjasti stimpillinn á okkur er sá að við séum öfgafólk og á móti lýðræði. Við viljum ekki að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum. Við erum fasistar.

Einn samningamanna Íslands hefur nú áréttað hvað umsókn Íslands að ESB þýddi.

Ákvörðun Alþingis felur í sér að Ísland stefnir að aðild,

segir hann orðrétt í áminnstu viðtali.

Þess vegna átti að spyrja þjóðina áður en sótt var um. Það hefði verið lýðræðislegast.

Við sem erum andsnúin aðild Íslands að ESB hefðum glaðst ef þjóðin hefði fellt umsóknina. Málið hefði þá verið úr sögunni, í bili alla vega, og tómt mál að tala um „tvöfalda atkvæðagreiðslu” eins og einu sinni var í tísku að kalla það.

Já hefði á hinn bóginn styrkt ferlið. Með því hefði samninganefndin umboð þjóðarinnar á bak við sig og vilji hennar væri skýr:

Hún vildi í ESB og væri þess vegna að óska eftir aðild.

Þetta heitir víst að vera trúverðugur og heiðarlegur sem eitt sinn þóttu dyggðir á Íslandi.

En það er orðið nokkuð langt síðan.

(Tekið af bloggi Svavars Alfreðs, sjá hér.)

Enn um aðild að ESB og fleiri mál


Eftir Guðbjörgu Snót Jónsdóttur.

Ólíkt hafast bræðraþjóðirnar, Finnar og Íslendingar, að um þessar mundir. Fréttir hafa borist af því, að Finnar séu að reyna að komast út úr Evrópusambandinu, þar sem þeim finnst á margan hátt óhagkvæmt að vera þar reynslunni ríkari eftir nokkurra ára veru í því. Á sama tíma er unnið að því hörðum höndum hér á Íslandi að geysast sem fyrst inn í ESB og aðlaga ýmislegt að sambandinu, lögum þess og lofum. Á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar ættum við nú að rifja upp sjálfstæðisbaráttuna, ef ske kynni, að við vildum og þyrftum að fara að dæmi Finna. Við ættum að hafa reynsluna af að berjast fyrir sjálfstæði okkar! Þó vona ég og fleiri andstæðingar ESB-aðildar, að til þess komi ekki, þar sem þessi svokallaði samningur verði kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem andstaðan gegn aðild hefur aukist ef eitthvað er.

Ein af ástæðunum, sem Finnar gefa upp, er of mikill fjáraustur í þá hít, sem ESB er, svo þeim ofbýður. Á sama tíma þykjumst við Íslendingar vera það fésterkir þrátt fyrir bankahrun og kreppu að geta farið inn í þessa peningahít. Á sama tíma og stór hópur fólks hér á landi á ekki málungi matar og stendur í biðröðum eftir mat finnst stjórnvöldum í lagi að henda peningum í aðildarviðræður og aðlögun að ESB. Hvílík blekking!
Ég dvaldist stóran hluta sumars 2009 á Landsspítalanum við Hringbraut og kynntist þar pólskri gangastúlku, sem ég var stundum að æfa í íslensku. Einhverju sinni þegar hún kom inn til mín var ég að horfa á fyrstu ESB-umræðurnar í sjónvarpinu. Hún spurði, hvað ég væri að horfa á. Þegar ég sagði henni það var hún fljót að fussa og sveia og sagðist ekkert vilja með ESB hafa, því að það kallaði á tóm vandræði og vandamál, og því skyldum við Íslendingar ekki fara þangað inn.
Það er líka smátt og smátt að koma í ljós, eftir því sem verið er að aðlaga okkur sambandinu. Nú er það t.d. að koma í ljós, að okkur, sem nýtum okkur gróður jarðarinnar í lækningaskyni, er ákaflega þröngur stakkur skorinn samkvæmt boðum þaðan, a.m.k. ef við störfum opinberlega að því, líkt og Kolbrún Björnsdóttir og fleiri. Gott ef jurtaapótekið hennar fær að starfa áfram, hvað þá annað, eftir að inn í ESB er komið.
Það hefur líka sýnt sig við rannsókn, að aldraðir og öryrkjar verða ekkert of haldnir þar inni heldur.
Þó að ESB sé að taka upp kvótakerfið okkar, þá verður vandamál varðandi sjávarútveginn og sjómennskuna innan þess, hvað sem hver segir. Það er nú verið að vinna að því að afnema sjómannaafsláttinn, sem er ákveðin kjarauppbót fyrir stéttina, hvað sem aðrir halda fram. Það skyldi þó ekki vera, að það sé vegna tilmæla frá almættinu í Brüssel? Það kæmi mér ekki á óvart. Sjómönnum veitti þó ekki af öllum þeim kjarabótum, sem þeir mögulega geta fengið, eins og öðrum hér á landi um þessar mundir. Vera má, að þeim í ESB og fleirum finnist þetta vera einhver sérstök fríðindi þeim til handa, en það er hinn mesti misskilningur. Faðir minn og aðrir forystumenn sjómanna, sem börðust harðri baráttu fyrir þessu á sinni tíð, töluðu aldrei um þetta öðru vísi en sem nauðsynlega kjarauppbót fyrir þá. Það væri svo sem eftir öðru, ef á nú að fara að taka þetta af þeim í harðærinu núna, eins og þeir hafi nóg fyrir sig að leggja. Svo er verið að segja, að það sé engin aðlögun í gangi að ESB? Vaknið þið, sem sofið!
Vita skal formaður minn, háttvirtur forsætisráðherra, það, að Steingrímur Jóhann er ekki einn um að kljást við óróleika í sínum flokki út af ESB-aðildarferlinu. Það er nóg til af fólki í Samfylkingunni, sem eru andstæðingar þess, og er farið að ofbjóða áróðurinn og aðdáunin á ESB, þar á meðal ég, sem segi þvert nei við ESB-aðild, bæði vegna sjávarútvegsins og fiskveiðanna og alls annars. Við höfum einfaldlega ekki efni á þessu á þeim tímum, sem nú eru uppi á Íslandi, og höfum annað þarfara við peningana að gera en fleygja þeim í peningahítina ESB. Mál er að linni.
—————
Höfundur er fræðimaður og félagi í Heimssýn, félagi sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Varnaðarorð Roman Herzog

Roman HertzogRoman Herzog, fyrrum forseti Þýskalands, og Luder Gerken rituðu í sameiningu grein í Welt am Sonntag, 14. janúar 2007 þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum af þróun Evrópusambandsins:

“Sannleikurinn er sá að við erum að upplifa stöðuga og varasama tilfærslu valds frá aðildarríkjunum til ESB. Dómsmálaráðuneyti Þýskalands hefur borið saman lög þau sem sett voru í Þýskalandi á tímabilinu 1998 til 2004 og þau lög sem tekin voru upp í ESB á sama tímabili. Niðurstaðan er sú að 84% nýrra laga í Þýskalandi koma frá Brussel, en aðeins 16% koma frá Berlín. … Þvert á grundvallarregluna um þrískiptingu ríkisvaldsins, er lagasetning nú orðið í höndum framkvæmdavaldsins … Tölur þýska dómsmálaráðuneytisins sýna þetta mjög skýrt. Mestur hluti gildandi laga í Þýskalandi er lögleiddur af ríkisstjórninni, í ráðherraráðinu en ekki af þýska þinginu … Og því má spyrja hvort Þýskaland geti lengur kallast lýðveldi með þingbundinni stjórn, því þrískiptingu valdsins, sem er ein af grunnstoðum stjórnarskrárinnar í Þýskalandi, hefur verið óvirk við setningu meirihlutans af lögum landsins … Drög að nýjum sáttmála Evrópusambandsins gefa aðildarríkjum ekki svigrúm að endurheimta löggjafarvald á einstökum sviðum svo hamla megi vaxandi miðstýringu. Þvert á móti er haldið rakleiðis í átt að enn meiri miðstýringu … Flest fólk er almennt jákvætt gagnvart samþættingu Evrópu. En á sama tíma er fólk líka að fá það sterkara á tilfinninguna að eitthvað sé að fara úrskeiðis, að einhver ógagnsæ, flókin og risavaxin stofnun sé að þróast, sem er úr öllum tengslum við raunveruleg vandamál þjóða og venjur. Stofnun sem tekur til sín sífellt fleiri valdsvið; að þeir varnaglar sem lýðræðið setur valdinu séu ekki að virka: í stuttu máli, að það megi ekki halda áfram á þessari braut.”

ESB vill eins flokks ríki í Grikklandi

Stjórnarandstaðan í Grikklandi ætlar að segja sig frá þeirri blekkingu að aukinn niðurskurður sé rétta meðalið við tröllauknum skuldum ríkissjóðs, eða sem nemur 150 prósentum af þjóðarframleiðslu. Grikkland er gjaldþrota og þarf að afskrifa skuldir. Um það eru allir sammála nema Evrópusambandið.

Skilaboðin frá Brussel eru samkvæmt Telegraph

Cross-party support is vital if Greece is to receive further loan instalments and a second bail-out. Brussels and the IMF have made it clear that “political groups set their disagreements aside”. 

Á Vesturlöndum frá dögum frönsku byltingarinnar fyrir rúmum 200 árum eru stjórnmálaflokkar óaðskiljanlegur hluti fjölræðis og þar með lýðræðis. Tilraunir með eins flokks ríki voru gerðar í Austur-Evrópu á síðustu öld en gáfust ekki vel.

(Tekið héðan.)

Heimssýn Húnavatnssýslum – aðalfundur

Þann 27 apríl sl. var  aðalfundur Heimssýnar í Húnavatnssýslum haldinn í félagsheimilinu  Víðihlíð, mæting var með ágætum.
Dagskrá fundarins var með hefðbundnum hætti:

1.Skýrsla stjórnar
2.Tillaga að lögum fyrir félagsdeildina
3.Kosning stjórnar
4.Kosning skoðunarmanna
5.Erindi fulltrúa framkvstj. Heimssýnar
6.Umræður

Fundarstjóri sem var Björn Magnússon frá Hólabaki flutti skýrslu stjórnar og fjallaði um það starf sem unnið hefur verið á liðnu starfsári.
Kosin var ný stjórn sem situr í stjórn Heimssýnar í Húnavatnssýslum næsta árið og er hún skipuð  eftirfarandi:

Jón Örn Stefánsson formaður
Sigríður Ólafsdóttir varaformaður
Björn Magnússon
Skúli Einarsson
Guðrún Guðmundsdóttir

Varastjórn skipa:

Telma Magnúsdóttir
Ragnar Sigtryggsson
Svava Jóhannsdóttir

Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður mætti á fundinn fyrir hönd framkvæmdastjórn Heimssýnar og flutti skemmtilega ræðu. Í kjölfarið urðu fjörugar umræður sem stóðu fram eftir kveldi.

Því næst tók til máls Ólafur Óskarsson fráfarandi formaður og fjallaði ma. um nauðsyn þess að koma fræðslu um atvinnuvegi á Íslandi inn í fræðslu grunnskólanna. Ólafur þakkaði gott félagsmönnum og stjórn fyrir gott samstarf og óskaði nýrri stjórn velfarnaðar.

Að lokum þakkaði Björn Magnússon fundarstjóri Ólafi fyrir gott og mikið starf sem hann hefur unnið fyrir félagið á sl. árum.
Þar með var gestum færðar þakkir fyrir komuna og fundi slitið.

 

Jón Örn Stefánsson formaður.

Írland og evran – lærdómur fyrir Ísland

Anthony Coughlan hagfræðingur og prófessor emeritus við Trinity College í Dublin flytur fyrirlestur á vegum Heimssýnar og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands miðvikudaginn 25. maí kl. 12:00 í stofu 101 í Odda. Fundarstjóri er Björn Bjarnason fyrrv. dómsmálaráðherra.

Coughlan er sérfræðingur í málefnum sem tengjast Írlandi og Evrópusambandinu. Hann hefur í ræðu og riti fjallað um efnahagslegar, pólitískar og sögulegar hliðar á aðild Írlands að Evrópusambandinu. Coughlan var ábyrgur fyrir Crotty-málinu árið 1987 en hæstiréttur Írlands komst að þeirri niðurstöðu að fullveldisframsal til Evrópusambandsins væri óheimilt án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sáttmálar Evrópusambandsins frá Maastricht( 1992), Amsterdam(1998), Nice( 2001 and 2002) and Lissbon(2008 and 2009) hafa því verið bornir undir írsku þjóðina, stundum tvisvar.