Meirihlutinn vill draga ESB-umsóknina tilbaka

Meirihluti landsmanna vill draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu tilbaka, samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Heimssýn.

Spurningin var eftirfarandi: ,,Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu?“

51,0 prósent sögðust hlynnt því að umsóknin yrði dregin tilbaka.

10,5 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg

38,5 prósent sögðust andvíg því að umsóknin yrði dregin tilbaka.

Könnunin var gerð 16. til 23 júní. Fjöldi svarenda var 820.

Staðfestan í afstöðunni til aðildar

Niðurstaða Capacent-Gallup könnunar fyrir Heimssýn um afstöðu þjóðarinnar til aðildar að Evrópusambandinu var send út í fréttabréfi Heimssýnar miðjan júní. Fréttin er eftirfarandi:

Í könnun sem Capacent-Gallup sögðust 57,3 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 42,7 prósent fylgjandi, séu aðeins tekin svör þeirra sem tóku afstöðu með eða á móti.
Könnunin byggir á 589 svörum við spurningunni ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?
Heildarskipting á svörum er eftirfarandi:
Alfarið, mjög eða frekar andvíg aðild: 50,1 prósent
Hvorki hlynnt né andvíg aðild: 12,6 prósent
Alfarið, mjög eða frekar hlynnt aðild: 37,3 prósent
Könnunin mældi viðhorf til aðildar á tímabilinu mars til júní.

Aðildarsinnar telja sig á grundvelli könnunarinnar vera í stórsókn: segir Eyjan, fullyrðir Össur, kætist Já Ísland og Evrópusamtökin eru við að missa sig enda langeygir eftir jákvæðum fréttum. Þeir finna prósentutölur í öðrum könnunum, og leita helst að lægstu tölu fylgjenda til að sýna sjálfa sig í sem bestu ljósi. Aðferðafræðilega halda slík vinnubrögð ekki vatni, en hvað um það, það má alltaf setja spunavélina af stað.

Hér að neðan er tafla úr sömu könnun. Taflan sýnir staðfestuna í afstöðu fólks til Evrópusambandsaðildar. Vel innan við þriðjungur þeirra sem segjast hlynntir aðild fylla flokk ákveðnustu stuðningsmanna. Aftur er helmingur andstæðinga aðildar alfarið andvígur.

Stærsti hluti aðildarsinna samkvæmt könnuninni er hálfvolgur í trúnni, velur að auðkenna sína afstöðu með því að segjast ,,frekar hlynnt(ur)”.

Alfarið hlynnt(ur)

10,3%

Mjög hlynnt(ur)

10,8%

Frekar hlynnt(ur)

16,3%

Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)

12,6%

Frekar andvíg(ur)

15,4%

Mjög andvíg(ur)

10,0%

Alfarið andvíg(ur)

24,7%

Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?

Alfarið hlynnt(ur)

10,3%

Mjög hlynnt(ur)

10,8%

Frekar hlynnt(ur)

16,3%

Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)

12,6%

Frekar andvíg(ur)

15,4%

Mjög andvíg(ur)

10,0%

Alfarið andvíg(ur)

24,7%

 

Ásmundur Einar til liðs við Framsóknarflokkinn

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður og formaður Heimssýnar er genginn til liðs við Framsóknarflokkinn. Fréttatilkynning frá Ásmuni Einari er svohljóðand:

Undirritaður hefur ákveðið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn. Framsókn hefur á undanförnum tveimur árum tekið mjög jákvæðum breytingum. Undir formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur átt sér stað mikil endurnýjun og flokkurinn hefur haldið uppi skynsamlegum málflutningi á mörgum sviðum.

Sem dæmi má nefna að:

· Framsókn hefur staðið með skuldsettum heimilum og barist fyrir almennri leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja. Tillögur Framsóknar til lausnar á skuldavandanum hafa verið raunhæfar og skynsamlegar. Almenn leiðrétting skulda hefði haft mikil áhrif þegar kæmi að hagvexti og myndi hindra fólksflótta frá landinu.

· Framsókn hefur sýnt öflugan málflutning þegar kemur að málefnum landsbyggðarinnar og nýsamþykktar tillögur flokksþings Framsóknarmanna byggja auðsjáanlega á þeim grunni.

· Framsókn hefur kynnt ítarlega stefnu í atvinnumálum. Þar er að finna framsæknar  lausnir sem byggja á fjölbreytileika og öflugri byggð allt í kringum landið.

· Framsókn hefur barist hart gegn löglausum kröfum Breta, Hollendinga og ESB í  Icesave málinu. Með því sýndi flokkurinn mikla stefnufestu og stóð með meirihluta þjóðarinnar frá fyrsta degi.

· Framsókn breytti á síðasta flokksþingi stefnu sinni í Evrópumálum og leggst nú  alfarið gegn aðild Íslands að ESB og því aðlögunarferli sem þar er í gangi. Með þessu steig flokkurinn mikilvægt skref. Í ljósi stefnufestu í öðrum málum er ljóst að Framsókn mun á næstunni gegna forystuhlutverki í baráttunni gegn ESB aðild Íslands.

Þær áherslur sem nefndar eru hér að ofan eru í fullu samræmi við yfirlýsingar og loforð sem undirritaður gaf kjósendum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Í ljósi ofanritaðs og fleiri þátta hefur undirritaður ákveðið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn.

Ásmundur Einar Daðason