Greinarflokkur Tómasar Inga um Ísland og Evrópusambandið

Greinar þær, sem hér eru vistaðar á vefsíðu Heimssýnar, voru birtar í Morgunblaðinu á tímabilinu frá 25. júní til 20. ágúst 2011. Þeim var ætlað að koma umræðum um samband Íslands við Evrópusambandið á breiðari grunn og freista þess að tengja þær hræringar innan ESB, sem nú eiga sér stað, við upphafleg markmið með stofnun sambandsins og helstu áfanga í þróun þess.

 – Tómas I. Olrich 

 

 

1. Hugleiðingar um stöðu Íslands og hagsmuni í utanríkismálum

Þegar Evrópusamstarfið hófst með formlegum hætti um miðja síðustu öld, lágu til þess langtímasjónarmið, sem voru sannfærandi, hvort sem menn stóðu til vinstri eða hægri í litrófi stjórnmálanna. Heimsstyrjöldin, sem hafði lagt Evrópu í rúst, var ein út af fyrir sig nægileg ástæða til að leita leiða til að byggja varanlegar forsendur fyrir frið og öryggi í álfunni.

 Frá lokum stríðsins og fram til 1949 hafði fjarað nokkuð undan þeim sem sáu framtíðaröryggi og frið í faðmi Stalíns. Uppbygging Evrópu litaðist strax af kalda stríðinu. Margar helstu stofnanir samstarfsins urðu til á þeim tíma sem járntjaldið setti sinn drungalega svip á Evrópu og áður en múrinn féll. Frá upphafi var ljóst að samstarfið yrði á kostnað fullveldis ríkjanna. Það var sú hugsun, sem lögð var til grundvallar verkefninu. Hversu langt menn voru tilbúnir að ganga, fór eftir aðstæðum.

Mjög sérkennilegur atburður varð á þeirri ögurstundu, þegar Frakkland var að hruni komið 1940. Winston Churchill freistaði þess að blása lífi í síðustu glæður ríkisstjórnar Paul Reynaud og koma í veg fyrir að Frakkar gæfust upp fyrir Þjóðverjum. Lögð var fram tillaga bresku ríkisstjórnarinnar um að Stóra-Bretland og Frakkland sameinuðust í eina ríkisheild, eins konar bandaríki, með eigin stjórnarskrá, sameiginlega ríkisstjórn, eitt þing og sameiginleg borgararéttindi. Tillagan var studd ötullega af nýskipuðum ráðherra í stjórn Reynaud, Charles de Gaulle. Þegar á hólminn kom hafði Paul Reynaud ekki styrk til að styðja hugmyndina og sagði af sér. Við tók Pétain marskálkur sem lét það verða sitt fyrsta verk að leita eftir vopnahlésskilmálum við Hitler. Það verk var svo upphafið að niðurlægingu Frakklands á tímum Vichy-stjórnarinnar.

Þetta mál er rifjað upp af nokkrum ástæðum. Annars vegar varpar það nokkru ljósi á örvæntingu Frakka og Breta á ögurstundinni 1940, að þeir tveir menn, sem einna mest hafa verið orðaðir við þjóðlegan metnað og sjálfstæði, hvor á sínum vettvangi, lögðu nafn sitt við hugsanlegan samruna Bretlands og Frakklands. Fullkomnara afsal sjálfstæðis, í þeim tilgangi að verja sjálfstæði, er varla hægt að hugsa sér.  

Báðir urðu þeir Churchill og de Gaulle síðar meir fráhverfir hugmyndinni um samruna þjóðríkja, þegar Evrópusamvinnan hófst á 6. áratugnum. En örvæntingin, sem blés þeim í brjóst neyðarúrræðið fræga í júní 1940, er einn af hornsteinum Evrópusambandsins. Kynslóðirnar, sem unnið hafa að uppbyggingu Evrópusambandsins síðast liðina hálfa öld, eru allar markaðar af þeim óhugnanlegu átökum, sem í tvígang skóku undirstöður Evrópuríkja á síðustu öld og þeim skugga sem Kalda stríðið varpaði á lýðræðis- og öryggismál álfunnar. Í hvert skipti sem Evrópusambandið hefur staðið frammi fyrir því hvort stíga ætti enn eitt skrefið í samrunaátt, hefur verið blásið sterklega í lúðra örvæntingarinnar málinu til stuðnings. Þessi örvæntingartónn var ekki síst áberandi í frönskum fjölmiðlum í aðdraganda Maastricht samningsins. Eins og menn muna, lá þá við að Frakkar felldu samninginn.

 Hitt er þó ekki síður athyglisvert, að höfundur samrunaplaggsins, sem þeir Churchill og de Gaulle vildu að samþykkt yrði 1940, var Jean Monnet. Sá merkismaður hefur réttilega verið talinn höfuðsmiður Evrópusamstarfsins. Fyrir utan það að Monnet naut mikillar virðingar og fulls trúnaðar helstu forystumanna Bretlands og Bandaríkjanna á stríðsárunum, þá lagði hann – að tilhlutan de Gaulle – grunninn að endurreisn efnahagslífs Frakka með sérstakri áætlun þegar árið 1945.  Þegar Marshall aðstoðin hófst var Frakkland reiðubúið. Jean Monnet var arkitekt Kola- og stálsambandsins, sem var fyrsta formlega skref Evrópusamstarfsins.

Auðlindir áttu verulegan hlut að máli í heimsstyrjöldunum tveimur, ekki síst orkumál. Fyrsta bygging Evrópusamstarfsins var reist utan um auðlindir, kol og stál. Stjórn þessara auðlinda varð sameiginleg, og fyrsti forseti sameiginlegrar valdastofnunar varð Jean Monnet.

 Það er ástæða til að leggja sérstaka áherslu á að með Jean Monnet berast inn í evrópsk stjórnmál sterkur andi alþjóðlegra viðskipta. Þótt Monnet væri af sterkefnuðum athafna- og peningamönnum kominn, var formleg menntun hans takmörkuð. Hugmyndir hans og ævistarf endurspegla á hinn boginn gríðarlega mikla þekkingu á efnahags- og  stjórnmálum. Þótt hann hafi haft öðrum mönnum meiri áhrif á mótun Evrópusamstarfsins, var hann aldrei þjóðkjörinn til nokkurra starfa. Jean Monnet hefur verið lýst sem einum mesta skipuleggjanda tuttugustu aldarinnar. Mikilvægur þáttur í hugmyndaheimi hans var stofnun evrópsks markaðssvæðis, sem grundvallar viðskipta og öryggis í álfunni.    Monnet virðist hafa verið sannfærður um að samstarf Evrópuþjóða ætti ekki mikla möguleika nema ríkin rynnu saman í Bandaríki Evrópu. Það var hins vegar hvorki sýn Charles de Gaulle né Churchills, eftir að hin sérkennilega hugmynd um samruna Bretlands og Frakklands frá júnímánuði 1940 gufaði upp. Alla tíð síðan hefur samstarf Evrópuríkjanna, hvaða nafni sem það hefur nefnst og hverjir sem tekið hafa þátt í því, sveiflast milli tveggja ósamræmanlegra langtímamarkmiða. Þeir sem trúa á samstarf sjálfstæðra ríkja, eins og de Gaulle kallaði það, hafa smátt og smátt orðið undir í baráttunni við þá, sem trúa því eins og Jean Monnet, að Evrópa eigi ekki framtíð nema ríkin sameinist. Flestöll meginskref í þróun Evrópusambandsins hafa verið í þessa átt, þótt enn sé leiðin að samruna ríkjanna löng og  nokkurri óvissu háð.

Það, sem veldur togstreitunni, er að mestu leyti byggt á sterkum  og býsna varanlegum straumum, sem marka samskipti þjóða almennt og skapa þeim örlög. Þótt ekki sé til gott hugtak á íslensku um þessa strauma, er þar um að ræða flókið samspil landafræði, mannfjölda, auðlinda og menningar sem gengur stundum alþjóðlega undir nafninu „geostrategia”. Þegar Íslendingar sækja um aðild að Evrópusambandinu, þurfa þeir að átta sig vel á því hvort þeir vilja láta sér nægja að standa nærri þeirri iðu, sem Evrópusamstarfið er, eða hvort þeir vilja frekar berast með straumnum. Svarið við því hlýtur að byggjast á því hvernig samspil landafræði, mannfjölda, auðlinda og menningar markar Íslendingum leið fram á við og veitir leiðsögn um hvernig æskilegast er fyrir þá að haga samskiptum við Evrópusambandið. Það er ekki auðveld sigling, því talsmenn skersins og bárunnar eru fastir fyrir í trú sinni á frelsun.

Ríkisstjórnin sótti um aðild að ESB án þess að nokkur eðlileg og lýðræðisleg forsenda væri fyrir henni. Það á væntanlega eftir að koma okkur í koll. Eðlilegast og heiðarlegast gagnvart þjóðinni sjálfri og viðsemjandanum, Evrópusambandinu, væri að draga umsóknina til baka og hætta aðlögunarferlinu.

Á meðan ferlinu er haldið áfram, og hver sem örlög þess verða, er nauðsynlegt að skoða sem flestar hliðar utanríkismála. Stefnan í þeim málum er einn af grunnþáttum í stjórnmálalífi Íslendinga.     

 

2. Þeim lærist sem líður

Í fyrstu grein um stöðu Íslands og hagsmuni í utanríkismálum, var það reifað, að flókið samspil landafræði, mannfjölda, auðlinda og menningar hefði almennt mikil áhrif á samskipti þjóð og skapaði þeim örlög. Þótt finna megi í slíku samspili ýmsar aðstæður, sem höfðu áhrif á stofnun Efnahagsbandalagsins og síðar á stofnun Evrópusambandsins, er grundvallar samstarfsins að leita á tiltölulega takmörkuðu sviði. Þar er einn þáttur yfirgnæfandi, og hefur haft tilhneigingu til að víkja til hliðar ýmsum staðreyndum, sem draga úr líkum á því að samruni Evrópuríkja í eina stjórnunarheild sé skynsamleg lausn til framtíðar.

Nýlega velti einn af höfuðsmiðum Evrópusambandsins því fyrir sér hvort Evrópubúar kærðu sig nokkuð lengur um hið sögulega verkefni um Evrópusambandið. Það er vissulega rétt hjá Jacques Delors, að sú forsenda Evrópusamstarfsins, sem gnæfir yfir allar aðrar, er sagan.  Þyngstu rökin fyrir Evrópusamstarfinu tengjast síendurteknum og eyðileggjandi styrjöldum, þar sem tekist hefur verið á um auðlindir, stjórnmálakerfi og trúmál nánast sleitulaust öldum saman. Hörmungarnar, sem þessum átökum hafa fylgt, eru ótrúlegar.

Það er hugsanlega gagnlegt að vitna lauslega í æviferil eins þeirra manna, sem átti umtalsverðan þátt í að því að byggja undirstöður Evrópusambandsins. Robert Schuman var fæddur í Þýskalandi. Faðir hans var frá Lothringen, sem Þjóðverjar höfðu tekið af Frökkum í fransk-þýska stríðinu 1870-1871. Móðir hans var Lúxemborgari, og Schuman talaði lúxemborgarmál sem móðurmál og hlaut undirstöðumenntun í hertogadæminu. Hann lærði bæði frönsku og þýsku, en  sótti síðan háskólanám til Þýskalands og varð sér úti um viðamikla menntun á sviði lögfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, guðfræði og tölfræði. Sem þýskur ríkisborgari náði ungi lögfræðingurinn Robert Schuman því að vera kosinn í borgarráð Metz fyrir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, þegar Elsass-Lothringen varð aftur franskt land undir nafninu Alsace-Lorraine og Robert Schuman franskur ríkisborgari. 

Schuman varð fljótt mjög virkur í frönskum stjórnmálum. Hann tók sæti í ríkisstjórn Paul Reynaud 1940, lenti í fangabúðum Þjóðverja, flýði og gekk til liðs við neðanjarðarhreyfinguna. Það verður að teljast mjög sérstakt að Robert Schuman varð þegar á stríðsárunum, og innan neðanjarðarhreyfingarinnar, öflugur talsmaður sögulegra sátta Þjóðverja og Frakka. Þeir voru ekki margir sem slógu á þá strengi í hildarleiknum miðjum.

Eftir stríðið varð Schuman mjög áhrifamikill í stjórnmálalífi Frakka og Evrópu, ekki síst sem utanríkisráðherra Frakklands frá 1948 til 1953, þar sem hann var eins konar klettur í rótleysi franskra stjórnmála á þessum árum. Schuman átti verulegan þátt í stofnun Evrópuráðsins 1949. Hann er með fullum rétti titlaður einn af stofnendum Stál- og kolabandalags Evrópu, sem síðar varð að Efnahagsbandalagi Evrópu, forvera Evrópusambandsins. 

Ég kynntist konu frá Elsass sem sagði mér að amma hennar, sem náði níræðisaldri, hefði skipt fimm sinnum um ríkisfang. Úr sömu fjölskyldu voru ungir menn kvaddir í herinn af keisara Þýsk-austurríska keisaradæmisins, synir þeirra gegndu herþjónustu í þriðja lýðveldi  Frakka, en sonarsynir í Þriðja ríki Hitlers. Þeir sem gengu öðrum framar í hildarleiknum báru ýmist Járnkross eða Croix de guerre eftir atvikum.

Þegar ríkin sex tóku höndum saman um að byggja frið í Evrópu á yfirþjóðlegri stofnun, voru það stórþjóðirnar þrjár og stríðshrjáðu, Frakkland,  Þýskaland og Ítalía, ásamt smáþjóðunum, sem herir þeirra höfðu þrammað yfir öldum saman, sem bundust samtökum. Þau ákváðu að efla með sér efnahagssamvinnu, og fórna í áföngum hluta af sjálfstæði sínu til þess að tryggja öryggi landa sinna. Því fer hins vegar  víðs fjarri að þessar þjóðir hafi mótað samstarfið á jafnræðisgrundvelli. Það voru tveir aðilar sem héldu um stýrið. Verður að því vikið síðar.

 Stofnun Evrópusamstarfsins var þannig stórpólitískt mál. Hún lagði grunn að friðsamlegri samvinnu þjóða, sem borist höfðu á banaspjót öldum saman. Þjáningar liðinna alda, sá beiski bikar, var drukkinn í botn. Karlamagnús hefði getað orðað það svo: Þeim lærist sem líður (“Mult ad apris ki bien conuist ahan”).  

Eftir því sem Evrópusambandið stígur fleiri skref í átt til ríkisheildar, með hverjum viðbótarsamningi, sem stjórnmálamenn ESB samþykkja án aðkomu kjósenda, koma fram efasemdir um samrunaferlið, en jafnframt krafan um að halda áfram, því ella verði gömlu sundrungaröflin leyst úr læðingi.

 Vaxandi ESB rúmar æ ólíkari hagsmuni og fjarlægist þær ríku sagnfræðilegu ástæður, sem lágu til grundvallar verkinu sem menn eins og Robert Schuman stóðu að á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Hagsmunir stofnþjóða, sem og nýrra aðildarríkja verða ólíkari eftir því sem landfræðilegar og menningarlegar staðreyndir verða flóknari. Tekist er á um nauðsyn samræmingar á löggjöf í samræmi við hagsmuni, sem torvelt getur verið að skilgreina sem sameiginlega.    

3. Stórveldið og smáríkið

Frakkar deila með íbúum hertogadæmisins Lúxemborgar ákveðnum ástæðum, sem leiddu til þess að báðar þjóðir eru stofnaðilar að Evrópusambandinu. Hins vegar hafa Frakkar margar gildar ástæður fyrir aðild að sambandinu, sem íbúar hertogadæmisins hafa ekki. 

Íbúar Frakklands eru tæplega 66 milljónir. Efnahagslögsaga  Frakka er 11.035.000 km2, og skipar þeim í annað sæti meðal þjóða heimsins, rétt á eftir  Bandaríkjum Norður-Ameríku. 66 miljónir Frakka er takmarkaður mannafli miðað við stærð efnahagslögsögunnar..

Frakkar eru gamalt stórveldi og nýlenduveldi, sem á enn hagsmuna að gæta um allan heim, eins og efnahagslögsaga landsins bendir til. Frakkar eru með fjórðu mestu útgjöld til hermála og eiga þriðja stærsta kjarnavopnasafn heimsins.  

Frakkland er öflugt ríki og auðugt. Það hefur hins vegar ekki lengur áhrif, sem samræmast sögu þjóðarinnar, efnahagslögsögu og hagsmunum, en þessir þættir hafa ofið þann vef stjórnmálalegs metnaðar, sem flestir stjórnmálamenn Frakklands hrærst í. Frá upphafi áttunda áratugarins hafa Frakkar stefnt nokkuð ótrauðir að því að efla samrunaferli Evrópusamvinnunnar. Tilgangurinn er að efla áhrif Frakklands á heimsmál og veita þjóðinni meiri vigt í hagsmunagæslu á sínu stóra áhrifasvæði.

Í stórhertogadæminu Lúxemborg búa á hinn bóginn um 400 þúsund manns. Efnahagslögsagan er óveruleg. Í landinu er táknrænn her, sem hefur aldrei tryggt öryggi þess. Lúxemborg öðlast hlutdeild í öryggi ESB og NATO. Landamærum smáríkisins er ekki hætta búin. Á hinn bóginn er sjálfstæði hertogadæmisins léttvægt, ef það er ekki í samræmi við hagsmuni þeirra stærri. Mér eru minnisstæð tvö augljós dæmi slíkra hagsmunaárekstra. Í báðum tilfellum mótmælti hertogadæmið hávært yfirganginum, en sætti sig síðan við hann. 

Í Lúxemborg segjast menn gjarnan hafa meiri áhrif á ESB innan sambandsins en utan þess. Það kann að vera. En áhrifin eru samt hverfandi lítil. Hertogadæmið dæmist til að vera í ESB vegna legu, sögu og menningar. Ágreiningur við stóru ríkin í ESB er hins vegar óhugsandi. Deilan um skattaskjólin varpaði skýru ljósi á þetta. Enda væri það framandlegt og sennilega nokkuð andlýðræðislegt að 400 þúsund manna smáríki gæti haft einhver raunveruleg áhrif á samfélag 500 milljóna manna. Áhrif smærri ríkja innan ráðherraráðsins urðu enn minni eftir samþykkt Lissabon samningsins.

Frakkland hefur verið mikill örlagavaldur innan Evrópusambandsins á hinum ýmsu þróunarstigum þess. Má skipta franska þættinum í þrjá kafla: upphafið, samstarf sjálfstæðra ríkja undir merki de Gaulle, og sókn til samhæfingar allt frá upphafi olíukreppunnar til þess tíma er sameiginlegu myntinni var hleypt af stokkunum. Á öllum þessum stigum hefur marktæki viðmælandinn (sem Frakkar kalla ljóðrænt “interlocuteur valable”) verið Þýskaland.  

Umræðan um Evrópusambandið hér á landi hneigist stundum í þá átt að þetta stórpólitíska samband sé eins konar góðgerðarstofnun til þess sett á laggirnar að líta yfir öxl smáríkja svo komið verði í veg fyrir að þau hagi sér kjánalega. Nær væri að segja með hæfilegri einföldun að Evrópusambandið sé upprunalega klæðskerasniðið utan um Frakkland og Þýskaland, þar sem hagsmunir ríkjanna á sviði orku og auðlinda voru reyrðir saman í eins konar spennitreyju. Það átti svo eftir að koma í ljós hvernig öðrum Evrópuþjóðum gengi að vaxa inn í treyjuna.

  

4. Hinar sögulegu sættir

Mikilfengleiki Frakklands var Charles de Gaulle ofarlega í huga. Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar mun Jean Monnet hafa sagt við hershöfðingjann: “Þú talar um mikilfengleika Frakklands, en nú um stundir eru Frakkar dvergar.” Til þess að innistæða væri fyrir hugmyndum herforingjans, taldi Monnet nauðsynlegt að laga Frakka að nútímanum. 

Ég geri ráð fyrir að boðskapur Monnet hafi ekki glatt hershöfðingjann, en hann virðist þó hafa tekið mark á honum. De Gaulle, sem forsætisráðherra 1945, fékk Monnet til að móta langtímastefnu sem miðaði að því að Frakkland, fremur en Þýskaland, yrði ráðandi í evrópskum iðnaði. Langtímastefnan varð til. Áhrif de Gaulle urðu á hinn bóginn skammvinn í þetta skiptið. Hann sagði af sér 1946.

Það var Þýskaland, sem reis undrahratt úr öskustó stríðsins og varð brátt leiðandi í efnahagsuppbyggingu álfunnar. Að sjálfsögðu var eldsneytið Marshall aðstoðin. Árangur Þýskalands byggðist þó fyrst og fremst á þremur grundvallarþáttum. Í fyrsta lagi var iðnaður rótgróin og afar sterk stoð þýsks atvinnulífs og naut þess að menntakerfi Þjóðverja hafði áratugum saman stutt dyggilega við iðnað, vísindi og hátækni. Í öðru lagi hafði andi og skipulag þýska iðnveldisins ekki verið lagður í rúst, þótt varla stæði steinn yfir steini í landinu í lok stríðsins. Að lokum er nauðsynlegt að leggja áherslu á að Þjóðverjar réðust í djúpa endurskoðun á siðferðilegu skipbroti sínu á tímum Þriðja ríkisins og tókst að rótfesta sterka lýðræðishefð og virðingu fyrir mannréttindum á skömmum tíma. 

Svo sterkur var grunnur þýska hagkerfisins, að fyrir 1950 var Frökkum ljóst að þeir myndu ekki standast samkeppni við Þýskaland. Frakkland hafði því ánetjast svipaðri verndarstefnu og  þjóðin var flækt í eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það var úr þeirri sjálfheldu sem  hugsuðir og hugsjónamenn eins og Monnet og Schuman björguðu Frakklandi. Þýskalandsmegin tók Konrad Adenauer undir hugmyndir þeirra um fyrstu skref Evrópusamstarfsins. Það skaðaði ekki að Bandaríkjamenn litu með velþóknun á gerninginn, og töldu hann styrkja stöðuna gegn Sovétríkjunum. 

Sögulegar sættir Þýskalands og Frakklands voru að sjálfsögðu forsenda Evrópusamstarfsins. Óttinn við heimskommúnismann almennt og Jósep Stalín sérstaklega ýtti undir sættirnar. Það var mikið unnið að efnahagslegri undirstöðu þessara sögulegu sátta á árunum frá 1949 til 1957, sem hlutu svo staðfestingu í vináttu og náinni samvinnu Adenauer kanslara og fyrsta forseta fimmta lýðveldis Frakklands, Charles de Gaulle.

Staðfestingin hófst persónulega með einföldum málsverði í Colombay-les-deux-églises 14. september 1958 á heimili þeirra hjóna, Ivonne og Charles de Gaulle. Mun Adenauer hafa verið eini þjóðhöfðinginn sem naut þeirra forréttinda að vera gestur á heimili de Gaulle hjónanna, La Boisserie. Sættirnar voru svo fulltryggðar með formlegum hætti og hákaþólskum árið 1962 í dómkirkjunni í Reims. Tilviljanir voru í litlu uppáhaldi hjá de Gaulle. Reims var krýningarborg Frakklandskonunga. Þar krupu foringjarnir tveir á kné, sá eldri rúmlega hálfníræður, sá yngri á sjötugasta og öðru aldursári. 

Þessir tveir virðulegu höfðingjar áttu ýmislegt sameiginlegt, meðal annars hóflega andúð á Bretum. Með traustum tengslum sínum við Bandaríkjamenn bætti Konrad Adenauer upp stirðleika í samskiptum de Gaulle við Washington. Gagnvart Sovétríkjunum vildi de Gaulle vera fastur fyrir, en opna þó glufu, og mildaði sú afstaða andkommúnisma Adenauers.

Undirstöður Evrópusamvinnunnar bera merki þessara sögulegu sætta. Þungaviktarþjóðirnar tvær hafa mótað stofnunina öðrum fremur: Þjóverjar með sinn annálaða efnahagsaga, stöðugleika, nákvæmni og vinnusemi; Frakkland með alþjóðlegum metnaði sínum, miðstýringarhefð og millifærsluhugsjón.

Öldum saman voru vopnin látin tala þegar tekist var á um hagsmuni hinna stóru í Evrópu. Nú er það liðin tíð, vonum við, og það er að talsverðu leyti samstarfi Evrópuríkja að þakka. Átökin standa enn. En þau eru á tiltölulega friðsömum vettvangi Evrópusambandsins. Þar er enn tekist á um hagsmuni hinna stóru. Hagsmunir hinna litlu víkja, þegar þeir fara ekki saman við hagsmuni hinna stóru. Hvernig getur það öðruvísi verið? Þýskaland og Frakkland, þar sem atvinnuleysi er mikið og hagvöxtur takmarkaður, eins og ástandið var um 2000, hækka ekki vexti vegna þess að hætta er á verðbólgu á Írlandi. Þetta er engum betur ljóst en bankastjóra Seðlabanka Evrópu. 

Hinar sögulegu sættir, afl Frakklands og Þýskalands og þau ólíku stjórnmálalegu viðhorf, sem mótast hafa í hvoru landinu fyrir sig, hafa meitlað Evrópusambandið. Það hefur þróast í átt til miðstýrðs sambandsríkis í anda þýskra og franskra viðhorfa.

  

5. Miðstýringin og sambandsríkið

Þau tvö ríki, sem mest hafa sett svip sinn á þróun Evrópusambandsins, eiga að baki mjög ólíka sögu. Að sama skapi hafa helstu stofnanir og stjórnmálahefðir hvors ríkis fyrir sig mótast við ólíkar aðstæður. 

Frakkland á sér langa sögu sem sjálfstætt ríki. Það var um aldir mjög miðstýrt konungsríki. Þótt franskt lýðræði hafi dafnað, með nokkrum rykkjum þó, í rúm 200 ár, er Frakklandi enn konunglega miðstýrt. Allir þræðir liggja til Parísar og þar halda stjórnvöld fast um stýrið.

Ríkisrekstur og miðstýring Frakka hafa lengi verið skotspónn engilsaxneskra hagspekinga. Í upphafi ferils síns setti Nicolas Sarkozy sér markmið um að draga úr þunga ríkisumsvifa, en fékk ekki mikinn tíma til að hrinda þeim áformum í framkvæmd vegna óróleika á lánsfjármörkuðum og kreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. 

Fyrirferðarmiklum ríkisafskiptum og miðstýringu geta að vísu fylgt kostir, ekki síður en gallar. Langtímastefnumörkun í orkumálum gerði Frakka óháðari innflutningi olíu og gass en aðrar Evrópuþjóðir, en nú er raforkuframleiðsla Frakka að langmestum hluta frá kjarnorkuverum komin. Mikil tækniþekking og vísindastarf Frakka njóta góðs af opinberri vísindastefnu og stuðningi. Kröftugur flugvélaiðnaður Frakka væri ekki það sem hann er án opinberra styrkja, sem reyndar gildir einnig um bandarískan flugvélaiðnað.

Stjórnkerfi Frakka er gagnrýnt, ekki síst af þeim sjálfum,  fyrir stirðleika og ósveigjanleika. Sá sem þetta ritar hefur hins vegar ekki reynt annað en að embættismannakerfi Frakka sé afar nákvæmt og vandvirkt, þótt það geti verið seinvirkt. 

Þýskaland er ekki miðstýrt ríki. Miðstýringarvaldi Sambandsríkisins eru þar mikil takmörk sett með valdi Landanna, sem eru að hluta til sjálfstæð ríki.  Miðstjórnarvaldið á í vök að verjast vegna þess að sambandsvaldinu er endalaust ógnað með kosningum í hverju Landinu á fætur öðru.

Þessi tilhögun á sér djúpar rætur í þýskri sögu. Fáar undantekningar eru á þessari valddreifingu, sem minnkaði þó nokkuð á valdatíma Prússa og var afnumin af gerræðisstjórn Hitlers.  

Valddreifing Þýskalands dregur hlutfallslega úr efnahagslegri þungavikt Þjóðverja innan ESB og þyngir pundið í Frökkum. Þetta finnst Frökkum í flestum skilningi ákjósanlegt. Áður en Þýskaland sameinaðist, þótti Frökkum ekki verra að vita af landinu skiptu. Var það ekki François Mauriac sem lét á sér skiljast að hann væri svo hrifinn af Þýskalandi að honum fyndist frábært að þau væru tvö? Mitterrand Frakklandsforseta stóð ógna af sameiningu Þýskalands, og taldi að efla þyrfti hinn miklu Evrópuáform  – þ.e. samrunaferlið –  til að standast þá raun. Einn helsti forvígismaður þeirrar áherslu var Jacques Delors, fyrrverandi efnahags- og fjármálaráðherra í öndverðri forsetatíð François Mitterrand.

Þróun Evrópusambandsins og stjórnkerfi bera nokkuð sterkan keim af frönskum stjórnunaranda: miðstýring, millifærslur og verndarstefna eiga þar skjól. Á sama tíma hefur ESB þróast, þótt með skrykkjóttum hætti sé, í átt til sambandsríkis. Á þeirri vegferð eru nokkrir mikilvægir áfangar.  

6. „Kemst þótt hægt fari…”

Því fer víðs fjarri að Evrópusambandið hafi þróast jafnt og þétt í átt til sambandsríkis. Þróunin hefur verið mjög sveiflukennd. Skipst hafa á tímabil, þegar samrunaþróuninni, sem Monnet dreymdi um, miðar verulega áfram, og önnur þegar efasemdir og vanmáttur hafa ráðið ferðinni. Í grófum dráttum má segja að efnahagslægðin, sem fylgdi olíukreppunum á áttunda áratug síðustu aldar, hafi dregið úr þróunarmætti Evrópusamvinnunnar langt fram á níunda áratuginn. Gekk það svo langt að talað var um hrörnunarsjúkdóm (Eurosclerosis) sambandins.   

Þá kom til sögunnar kraftmikill maður, franskur sósíalisti og fyrrverandi efnahags- og fjármálaráðherra í forsetatíð François Mitterrand. Hagfræðingurinn Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 1985 til 1994, er almennt talinn hafa verið með öflugri forystumönnum ESB. Hann styrkti verulega samræmingarþróun sambandsins. Segja má að hann hafi átt leiðandi þátt í að fullvinna ramman um hinn innri markað. Hann lagði einnig grunninn að sameiginlegri mynt.  Þótt það skref væri ekki stigið formlega fyrr en 1. janúar 1999, um 5 árum eftir að Delors lét af embætti framkvæmdastjóra, er þáttur hans í þróun evrusvæðisins hafinn yfir allan vafa. Verður fjallað ítarlegar um evruna í öðrum greinum.

Útgáfa sameiginlegrar myntar, evrunnar, er lang mikilvægasta skrefið sem stigið hefur verið í átt til samhæfingar og miðstýringar innan þeirra Evrópuríkja sem kusu að tengjast evrunni. Að þessu leyti þokaði Delors sambandinu verulega í átt til sambandsríkis og jók mjög miðstýringu innan þess.  

Í framkvæmdastjóratíð Delors voru gerðar viðamiklar breytingar á sjóðakerfi ESB, sem drógu úr valdi ríkisstjórna aðildarlandanna. Samhæfingarstefna ESB miðar að því að draga úr félagslegu og efnahagslegu misræmi milli landa og héraða innan ESB. Verkfærin til að koma þessari samhæfingarstefnu í framkvæmd eru eins konar grunngerðarsjóðir. Starfsemi þessara sjóða var breytt í viðamiklum aðalatriðum um 1988. Fram að þeim tíma hafði samræmingarstefnan verið smá í sniðum. Framkvæmdastjórnin veitti styrki, og ríkin ráðstöfuðu þeim. Breytingarnar 1988 leiddu til rækilegrar endurskoðunar á samhæfingarstyrkjum . Sett voru  á laggirnar regluverk og verkferlar, sem stýrðu því hvernig framkvæmdastjórn ESB, ríkisstjórnir aðildarríkja og yfirvöld í héraði ynnu saman að því að móta stefnu og hrinda í framkvæmd verkefnum sem nytu ESB-styrkja.

Markmiðin með þeim breytingum, sem gerðar voru á samræmingarstefnunni og helstu verkfærum hennar í tíð Delors, voru margvísleg. Breytingunum var ætlað að stofna til samræmdar stjórnmálalegrar stefnumörkunar innan þess breytilegra veruleika, sem ríki sambandsins mynda. Þá var enn fremur tilgangur Delors að bæta félagslegri vídd við meginviðfang sameiginlega markaðarins, sem var fyrst og fremst efnahagslegs eðlis. Breytingarnar áttu að leiða til þess að stofnanir Evrópusambandsins gætu með nokkuð eðlilegum hætti hreiðrað um sig í stjórnmálalífi og samfélagsmálum aðildarríkjanna. 

Sem að líkum lætur hefur samræmingarstefnan, sem Jacques Delors mótaði af dugnaði og festu, lengi verið svið þar sem framkvæmdastjórnin hefur blandað sér með mjög áberandi hætti inn í framkvæmdir.

Tilraunir hafa verið gerðar til þess, í fræðiritum um ESB, að meta hve langt hafi gengið að þróa Evrópuvæðingu sambandsins. Með því orðalagi er átt við samrunaþróun og er reynt að meta að hve miklu leyti stjórnmál eru mótuð af ríkjunum sjálfum, sameiginlega af þjóðríkjum og ESB eða einungis af Evrópusambandinu sjálfu. Í þessum akademísku æfingum eru oft notaður skalinn 1 til 5 og táknar þá 1 þau málefni sem heyra eingöngu undir aðildaríkin, en 5 telst vera málefni ESB. Séð hef ég því haldið fram að meiri hluti fræðimanna, sem glímt hafa við þessa skilgreiningu, telji að eftir upphaflega Evrópuvæðingu í nokkrum rykkjum hafi þróunin staðnað einhvers staðar milli einkunnanna 3 og 4. Þessi niðurstaða er þó ekki talin benda til að tilraun til samhæfingar og  samþjöppunar valds hafi mistekist. Þvert á móti er það talið til merkis um að sambandið sé að þroskast. Núverandi stig, 3 – 4 , nálgist það helst að teljast einhvers konar sambandsríki.  

Full ástæða er til að gjalda varhug við útreikningum af þessu tagi. Ljóst er að torvelt er að líkja ESB við sambandsríki eins og málum er nú háttað innan sambandsins, þótt það tímabil sem hér hefur verið tæpt á, hafi vissulega fært sambandið nær sambandsríki.

Hér hefur verið fjallað um Þýskaland og Frakkland sem leiðandi afl í Evrópusambandinu. Það er flókinn vefur landafræði, mannafla, sögu og menningar sem valda því að þessar tvær þjóðir gegna forystuhlutverki í sambandinu. Innan sambandsins eru einnig fjölmennar þjóðir, sem ekki hafa leitt þróun ESB. Til þess liggja einnig ástæður, sem rekja má til legu, sögu og menningar. Það er því rétt að tæpa á takmörkuðu hlutverki þeirra stóru á jaðrinum.  

7. Risarnir á jaðrinum

Evrópusambandið ber ekki merki engilsaxneskrar markaðs- og frjálshyggju. Bretar voru fjarverandi, þegar helstu grunnþættir Evrópusambandsins voru mótaðir. De Gaulle hefur yfirleitt verið talinn bera nokkuð mikla ábyrgð á þeirri fjarveru. Það er þó væntanlega ofmetin ábyrgð. Bretar voru uppteknir af öðrum áherslum en Evrópusamstarfi á árunum eftir stríð. Það voru ekki síst málefni breska samveldisins, sem héldu vöku fyrir Bretum á þeim tíma. Auk þess höfðu þeir lent í lána- og gjaldeyrisfaðmlagi við Bandaríkin, sem dró kraftinn úr þeim eftir stríðið. 

Bretland er ævagömul siglingaþjóð, flotaveldi og fyrrverandi heimsveldi. Þótt Bretland skildi í miklum styttingi við nýlendur sínar vestan hafs 1776, hafa tengslin milli Breta og Bandaríkjamanna haldist og eru nú með traustari pólitískum böndum, sem taka þarf tillit til í alþjóðastjórnmálum. Lega Stóra-Bretlands, saga þjóðarinnar og atvinnulíf beina Bretum til aðþjóðlegra gátta. Þróast hefur engilsaxneskt hugarfar markaðshyggju og frjálsræðis í efnahagsmálum sem á sér höfuðstöðvar í Bandaríkjum Norður-Ameríku og á Stóra-Bretlandi. Bretum hefur því aldrei fundist rúmt um sig innan tollabandalagsins ESB. 

Vegna legu, sögu og menningar eru Bretar jaðarþjóð í Evrópusambandinu. Þar hafa þeir að hluta til skipað sér vísvitandi. Bretar eru utan evrusvæðisins og Schengensamstarfsins. Innan Bretlands eru sterkustu öfl þeirra sem vilja sporna við samrunaþróun Evrópusambandsins. 

Öðru máli gegnir um aðra fjölmenna þjóð, sem öfugt við Breta var stofnaðili að frumgerð Evrópusambandsins. Á Ítalíu búa rúmlega 60 milljónir manna eða aðeins færri en í Stóra-Bretlandi. Landið er svipað að stærð.  Bretland hefur lengi verið sameinað ríki. Því er öðru vísi farið um Ítalíu. Eftir að hafa verið þungamiðja Rómaveldis öldum saman, liðaðist Ítalía í sundur við hrun heimsveldisins. Þar risu upp fjölmörg ríki, konungsríki, hertogadæmi og borgríki. Ítalía var endurreist sem sameinað ríki 1861, en var frá upphafi sundurlaus eining. Þótt Ítalir hafi fetað í fótspor stórþjóða Evrópu á 19. og 20. öld og leitast við að reka útþenslu- og nýlendustefnu, gekk það frekar brösuglega. Ítalía var fyrsta landið þar sem fasistar náðu að rótfesta sig og hrifsa völdin í landinu. Eftir rúmlega 20 ára dapurlegan valdaferil hrundi fasisminn við lok stríðsins. Ítalir hafa ekki fetað í fótspor Þjóðverja, sem hafa lagt mikinn metnað í að gera upp fortíð sína.

Óstöðugleiki í stjórnmálum hefur verið landlægur á Ítalíu. Hann á bæði rætur í víðtækri spillingu og í áhrifum glæpasamtaka á nánast alla stjórnmálaflokka. Eining ríkir ekki milli norðurs og suðurs. Liga Nord, einn af helstu stjórnmálaflokkum landsins hefur haft á stefnuskrá sinni að gera hluta af Norður-Ítalíu að sjálfstæðu ríki og Ítalíu að sambandsríki.

Kristilegir demokratar hafa lengi verið áhrifamiklir í stjórnmálalífi Ítalíu, en urðu illa úti í spillingarmálum vegna tengsla við glæpahringi. Í stjórnartíð sósíalistans Bettino Craxi efldist efnahagur Ítalíu. Hins vegar gróf Craxi undan þeim árangri sem hann hafði náð með gegndarlausri skuldsetningu ríkisins. Minnir mig að fyrir fjármálakreppuna hafi ítalska ríkið skuldað sem nam 104% af vergri þjóðarframleiðslu. Hafði þar lítil breyting orðið á frá stjórnartíð Craxi.

 Þótt Ítalía skipi sér meðal merkustu menningarríkja í heiminum og sé enn stórveldi á sviði iðnaðar, hönnunar og lista, hefur þjóðinni ekki tekist að gera sig gildandi á stjórnmálasviðinu. Ég hef orðið áþreifanlega var við það á þeim alþjóðlega vettvangi sem ég hef unnið á, að gjarnan er gerður fyrirvari um framlag Ítalíu og frumkvæði ítalskra stjórnmálamanna tekið með mikilli tortryggni. 

Af flóknum sögulegum og menningarlegum ástæðum og mjög ólíkum hafa tvær stórþjóðir Evrópu, Ítalía og Stóra-Bretland, lent á jaðrinum við uppbyggingu Evrópusamvinnunnar. Það hefur gefið Þjóðverjum og Frökkum hlutfallslega aukið vægi innan sambandsins.

Íslendingar verða að huga að stöðu einstakra ríkja innan ESB, stórra sem smárra. Þar fer fram valdatafl. Þótt smáríki séu peð á því taflborði, hafa sum þeirra séð sögulegan möguleika á því að efla stöðu sína og öryggi með því að beina sjálfstæði sínu inn á veitusvæði Evrópusambandsins. Lítum næst á tvö þessara smærri ríkja, sem standa okkur nærri.

 8. Af tveimur smáum á jaðrinum 

Bæði Frakkland og Lúxemborg verða að teljast miðsvæðis í ESB. Lengi var landfræðileg miðja evrusvæðisins, minnir mig, í Morvan þjóðgarðinum í Frakklandi. Finnland og Írland eru hins vegar landfræðileg jaðarsvæði í ESB. Hvort þessara landa hafði sínar eigin ástæður fyrir aðild að ESB.

Rússar höfðu lengi veitt Finnum þungar búsifjar, þótt um tíma á 19. öld hafi keisaradæmið losað um tökin. Reynsla Finna í seinni heimsstyrjöldinni var einkar sár. Athyglisvert er hvernig þjóðinni tókst að leysa öll þau gríðarlegu vandamál, sem árásarstríð Sovétríkjanna 1939 leiddi yfir hana.  

Stefna Rússa í utanríkismálum markast jafnan af þröngum aðgangi að siglingaleiðum. Rússar og Svíar tókust á um aðgang að hafi í lok 18. aldar. Sovétríkin tóku Karelíu-eiðið og Viipuri af Finnum í seinni heimsstyrjöldinni, svo og eina vetraraðgang Finna að ófrosnu hafi í Petsamo. Eistar, Litháar og Lettar glötuðu sjálfstæði sínu í fimm áratugi vegna þessarar utanríkisstefnu Rússa.

Sú hefðbundna afstaða Rússa að tryggja aðgang að sjó með góðu eða illu veldur þrýstingi á nágranna þeirra, sem fæstir treysta því að viðbrögð Rússa séu fyrirsjáanleg. Það orkar ekki tvímælis, að nábýlið við stórveldið í austri var ein af meginástæðum fyrir því að Finnar gengu í ESB. Þeir fóru ekki þangað inn sem beiningamenn í efnahagsvanda. Fall Sovétríkjanna olli að vísu miklum erfiðleikum í efnahagsmálum í Finnlandi. Þjóðin hafi einnig fundið fyrir norrænu bankakreppunni um 1990, en hún var norræn og ekki alþjóðleg. Á hinn bóginn höfðu Finnar þá löngu hafið gríðarlega fjárfestingu í vísindum og þróunarvinnu, sem var byrjuð að skila þjóðinni miklum árangri um það leyti sem hún gekk í ESB. Aðild Finna að ESB, sem vakti mikla athygli vegna eindrægni þjóðarinnar og sannfæringar um réttmæti skrefsins, verður ekki skilin til fulls nema með tilliti til skuggans, sem stórveldið í austri hafði varpað á Finnland. Áhyggjurnar tengdust landafræði og mannfjölda. Skrefið stigu Finnar, þegar stórveldið í austri var í upplausn og framtíðin óljósari en nokkru sinni fyrr. 

Yfir Írlandi hvíldi einnig skuggi. Þótt það verki sem fáránleg samlíking fyrir okkur að jafna saman sambúð Finna og Rússa við nábýli Breta og Íra, þarf ekki að ræða lengi við Íra til að gera sér grein fyrir þessu. Sú merka lýðræðisþjóð – sem Bretar eru sannarlega –  á feril á Írlandi, sem lítil ástæða er til að minnast með stolti. Nýleg heimsókn Bretadrottningar, sem tókst með miklum ágætum, varpaði ljósi á þessi viðkvæmu samskipti. Öldum saman ráku Bretar vægðarlausa drottnunarstefnu gagnvart Írum. Um eylandið lá hafsvæði þar sem floti mesta flotaveldis heimsins hafði drottnað allt frá 16. öld.

Með fáum embættis- og stjórnmálamönnum Evrópu hef ég átt betri stundir en með þeim írsku. Allir sögðu þeir mér, með mismunandi áherslum og tilfinningahita, að aðildin að ESB hefði leitt Írland út úr þeim skugga sem Stóra-Bretland hefði öldum saman varpað á þjóðina. 

Írar seildust djúpt í styrkjakerfi ESB og ýtti það undir mikla uppbyggingu og hraða. Þeir voru lengi skólabókardæmi um vel heppnaða efnahagsuppbyggingu styrktarsjóða ESB. Þótt þessi efnahagsuppbygging og skuldir Íra, sem eru að hluta afleiðing hennar, hrun lánsfjármarkaða og viðbrögð írskra stjórnvalda við því, varpi nú um stundir löngum skuggum á velferð Íra, skal ekki lagður dómur á það hér og nú hvernig  niðurstaðan úr því dæmi verðu endanlega. Reynsla Íra gengur alla vega í berhögg við málflutning þeirra, sem hafa séð lausn allra mála í aðild að ESB og aðild að evrusvæðinu.

Hinu má ekki gleyma að lönd, sem eru á jaðarsvæði ESB, eru ekki endilega hornrekur, ef litið er út fyrir endimörk tollabandalagsins ESB. Grannsvæði þróast og taka breytingum ekki síður en ESB. Jaðrinum getur því reynst hollt að stunda ekki Evrópunærsýni og líta í kring um sig.

Íslendingar verða að hafa eigin ástæður til að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fleyta sjálfstæði sínu inn í þann óvissa straum. Rætur þessara raka verður að finna í landafræði, menningu, sögu, auðlindum  og efnahagsforsendum þjóðarinnar. Þær almennu, yfirborðs- og klisjukenndu draumsýnir um samstöðu með Evrópuríkjum, sem svo oft heyrast, eru ekki boðlegar. Við eigum samstöðu með mörgum ríkjum heimsins.

Sú samstaða sveiflast til og frá eftir efnum og ástæðum. Við eigum almennt meiri samstöðu með Kanadamönnum en Búlgörum. Menningar-, efnahags- og landfræðileg samstaða með Norðmönnum er Íslendingum mikilvæg og hefur lengi verið. Í hinum sérkennilega menningarlandslagi Evrópu, sem burðaðist með stéttskipt lénsskipulag langt fram á 19. öld, standa tvö “eylönd”, Sviss og Ísland, sem eiga meira sameiginlegt en margan grunar. Þar á meðal eigin gjaldeyri. 

Víkur sögunni næst að evrunni.

 9. Gjaldmiðill utan og ofan raunveruleikans 

Flestir átta sig á sögulegri nauðsyn þess að leggja grundvöll að varanlegum friði í Evrópu. Evrópusamstarfið naut því frá upphafi víðast hvar skilnings og velvildar. Eftir því sem skýrari línur koma fram um krókótta vegferð sambandsins í átt til sameiginlegrar ríkisheildar, eða Bandaríkja Evrópu, hefur afstaða almennings til ESB orðið flóknari.

Ein afdrifaríkasta ákvörðunin, sem tekin var í sameiningarátt var upptaka evrunnar. Þeirri ákvörðun var yfirleitt fagnað. Íbúar evrusvæðisins, en einnig þjóðir utan þess, fundu til þæginda af sameiginlegri mynt.  

Stofnun sameiginlegs gjaldmiðils átti langan aðdraganda og var afar flókið viðfangsefni. Margar þjóðir eyddu umtalsverðum tíma og mannafla í að átta sig á hugsanlegum áhrifum nýja gjaldmiðilsins.

Undirritaður fékk um tíma aðgang að vönduðum skýrslum sem Svisslendingar létu semja um þessi álitamál. Óttaðist sú gamalreynda fjármálaþjóð of sterka evru, en þó enn meir of veika evru. Bakland evrunnar var nægilega óstöðugt til að Svisslendingar hefðu af því áhyggjur hve óútreiknanleg þróun þessa gjaldmiðils yrði. Hér lá meira undir en þegar Ítalir voru að fella líruna, eða Spánverjar pesetann. Slíkar athafnir hrófluðu ekki við stöðugleika svissneska frankans að ráði. Með evrunni væru mál kominn í annan farveg. 

Svisslendingar höfðu af því reynslu að meiri háttar óstöðugleiki gæti leitt til spákaupmennsku með svissneska frankann, sem myndi gera þeim erfitt fyrir að stýra gjaldeyrismálum sínum. Á árum áður höfðu utanaðkomandi aðilar gefið út verðbréf í svissneskum frönkum, og var sú útgáfa nánast jafngildi peningaprentunar. Var Svisslendingum með þessum hætti gert erfitt að stunda þá gætni og jafnvægislist í efnahagsmálum sem þeir eru þekktir fyrir. Þeir óttuðust að þeir gætu misst stjórn á jafn mikilvægum verkfærum sem peningaprentun er, þegar aðrar þjóðir voru farnar að stunda fjárhættuspil með svissneska frankann.

Einn af fyrrum forystumönnum í frönskum og alþjóðlegum fjármálum skýrði mér frá því, að fyrir nokkrum áratugum hefðu Svisslendingar lent í því að mikil spákaupmennska með svissneska frankann hefði ógnað efnahagsstjórn þjóðarinnar. Þeir hefðu brugðist við með því að skattleggja útgáfu skuldabréfa í svissneskum frönkum. Þegar ég aflaði mér upplýsinga um árangur þeirrar ráðstöfunar, virtist hann hafa verið takmarkaður. 

Íslendingar kynntust háþróuðu fjárhættuspili í gjaldeyrismálum, þegar erlendar fjármálastofnanir og ríkisstjórnir sáu hag sinn í því að gefa út verðbréf í íslenskum krónum.  Heitir braskið á móðurmáli æðri fjármálagjörninga “Currency Carry Trade”. Á sama tíma átti ríkisstjórn Geirs Haarde erfitt með að glíma við falska styrkingu íslensku krónunnar og illviðráðanlegan viðskiptahalla.

Áður en sameiginleg mynt var tekin upp 1999, hafði ESB búið við mikil átök um gjaldeyrismál. Margar ESB þjóðir stunduðu það að fella gjaldeyri sinn til að bæta samkeppnisstöðu viðkomandi lands. Olli þetta sveiflum og óróleika á markaði, sem átti að vera sameiginlegur. Var slíkt ástand að líkum illa séð af þeim sem við stöðugra gengi bjuggu. 

Að vísu voru gengisfellingar aðeins formleg viðurkenning á veiku efnahagslífi. Viðskiptahalli, erlend skuldasöfnun og verðbólga valda ástandi sem gengisfelling er viðurkenning á en ekki orsök, innan hvaða gjaldeyrissvæðis sem er. Þegar þar við bætist mikið og langvarandi atvinnuleysi, sem er einkenni á Evrópusambandinu, og ekki síst á evrusvæðinu, flokkast það undir kraftaverk, ef gjaldmiðillinn stenst þá áraun til lengdar.

Þetta lögmál átti þó greinilega ekki við um evruna, eftir að sá gjaldmiðill hélt innreið sína í evrópskt efnahagslíf. Evran virtist furðu ónæm fyrir staðreyndum, eins og t.d. þeirri að stór ríki á evrusvæðinu ráku í senn ríkissjóð með innbyggðum halla, bjuggu við langvarandi og að því er virtist ólæknandi viðskiptahalla og fjármögnuðu sukkið með lántökum.  

Samkvæmt hagfræði hinnar hyggnu húsmóður var það ekki góð latína að byggja strykleika evrunnar á ríkissjóðshalla, viðskiptahalla, lágum vöxtum, skuldasöfnun og viðvarandi atvinnuleysi. Aðhalds var þörf og varúðar. Það hlaut að vera tímaspursmál hvenær brestir evrunnar kæmu í ljós.

Þeir voru ekki margir, sem mæltu varnarðarorð. En þeir voru til. Minnir mig að þeir hafi þótt skipa sér á bekk með úrtölumönnum og einangrunarsinnum.   

 

10. Veikar stoðir evrunnar

Allviðamikið samræmingarstarf við stjórn efnahagsmála innan ESB var undanfari þess að sameiginlegi gjaldmiðillinn var innleiddur 1999. Engu að síður var ljóst að þessu aðhaldi voru veruleg takmörk sett. Þótt sameiginleg stjórn peningamála væri í höndum Seðlabanka Evrópu, var sá þáttur efnahagsstjórnunar sem nær til ríkisfjármála og jafnvægis í þjóðarbúskap í höndum hvers ríkis evrusvæðisins. Þessir þættir ráða að sjálfsögðu miklu um hinn raunverulega styrk efnahagssvæðisins og þar með evrunnar. 

Innan evrusvæðisins voru stórþjóðir, eins og Ítalía og Frakkland, sem bjuggu við langvarandi, innbyggðan halla á ríkissjóði. Með öðrum orðum, þar hafði byggst upp víðtæk þjónusta við borgarana, sem tekin var að láni. Þar sem hagvöxtur var mjög lítill innan ESB og atvinnuleysi mikið, var vöxtum haldið í lágmarki. Á alþjóðlegum lánamarkaði voru vextir einnig lágir. Því var ódýrt fyrir ríkisstjórnir að sækja sér lánsfé til að fjármagna umframeyðsluna.

Auk ríkissjóðshallans höfðu þessar stórþjóðir lengi mátt búa við halla á viðskiptum við umheiminn. Bætti það gráu ofan á svart. Tók þessi óheillaþróun til fleiri landa. Þótt gríski vandinn væri fremur á sviði ríkisfjármála, urðu viðskiptaskuldir landsins fljótlega vandamál eftir að þeir fengu aðild að evrusvæðinu. Spánn og einkum Portúgal voru hins vegar með langvarandi viðskiptahalla. 

Þessir veikleikar evrusvæðisins voru ekki viðurkenndir opinberlega. Almennt var talað um styrkleika evrunnar. Náði það vel fram yfir lánsfjárkreppuna miklu sem reið yfir 2008. Er mörgum eflaust í fersku minni þær yfirlýsingar sem komu fram á mánuðunum eftir hrunið um styrk evrunnar og þær þjóðir, sem ættu sér skjól innan evrusvæðisins. Þótt falskt gengi evrunnar væri af öðrum toga en gervihækkun íslensku krónunnar á árunum fyrir lánsfjárkreppuna, nærðust þessir tveir gjaldmiðlar á sömu uppsprettunni: svo til ótakmörkuðum aðgangi að lánsfé á lágum vöxtum. Verður um það aðgengi fjallað í sérstakri grein.

Þann 3. júlí sl. var rætt við Þorstein Pálsson í þættinum “Landið sem rís”. Þorsteinn kvartaði undan almennu aðhaldsleysi hérlendis á árunum fyrir lánsfjárkreppuna. Þáttarstjórnandinn, Jón Ormur Halldórsson bætti þá við athugasemd: “Gjaldmiðillinn veitti okkur ekki aðhald…”. Þessi sakleysislega athugasemd er grein á meiði þess málflutnings að í krónunni eða evrunni sé fólgið einshvers konar innbyggt aðhald eða aðhaldsleysi. Svo er ekki. Það eru þeir, sem stýra helstu hagstærðum þjóða og þjóðasambanda, sem stunda aðhald eða aðhaldsleysi. Það er atvinnulífið, sem sýnir fyrirhyggju eða glannaskap. Það er almenningur sem stundar hófsemi, ef vel er á málum haldið. 

Stjórn þessara hagstærða flækist vegna utanaðkomandi áhrifa, eftir því sem hagkerfi eru opnari. Gerendur eru því ekki einangraðir. Svo kann að vera, að stjórnendur smárra hagkerfa séu berskjaldaðri fyrir utanaðkomandi áhrifum en þeir stærri. Það hefur þó ekki verið sýnt fram á það með sterkum rökum.

Á árunum fyrir lánsfjárkreppuna var ljóst að íslenska krónan var ofmetin á markaði. Réðu því miklar framkvæmdir og þensla á íslenskum vinnumarkaði, sem ekki var fylgt eftir með samdrætti í opinberum framkvæmdum. Við þessi vandamál bættist útgáfa verðbréfa í íslenskum krónum erlendis. Jók hún á ofmat krónunnar og frestaði aðlögun gjaldeyrisins að raunveruleikanum. Seðlabanki Íslands gerði það sem var á hans valdi til að draga úr þenslu með mjög háum stýrivöxtum. Fór hann að því leyti eftir ráðleggingum OECD. Það var hins vegar ljóst að til þess að vextirnir hefðu áhrif, varð að sýna mikið aðhald í ríkisútgjöldum. Skuldir ríkisins voru greiddar niður. En aðhald var ekki í ríkisútgjöldum. Með því háttarlagi var verið að veikja hagstjórnartæki Seðlabanka Íslands og þar með þjóðarinnar. Þeir, sem stýrðu ríkisfjármálum, virtust ekki fyllilega gera sér grein fyrir því. Þetta ósamræmi bentu sérfræðingar OECD einnig á sem alvarlegan meinbug á hagstjórn. 

Það sama gerðist ekki á evrusvæðinu. Þar hélt Seðlabanki Evrópu stýrivöxtum mjög lágum, vegna mikils atvinnuleysis í áhrifamiklum sambandslöndum. Á sama tíma hlóðust upp miklar viðskipta- og ríkisskuldir í mörgum og mikilvægum ríkjum evrusvæðisins, enda var ódýrt að fjármagna umframeyðslu með lánsfé, sem var á svo lágum vöxtum að telja mátti að um útsölu væri að ræða.

 Komið hefur í ljós að evran er ekki kraftaverkagjaldmiðill. Evran er nákvæmlega jafn viðkvæm fyrir óstjórn í efnahagsmálum og aðrir gjaldmiðlar. Þar sem evrusvæðið lýtur hins vegar ekki sameiginlegri efnahagsstjórn, hefur Evrópusambandinu liðist að draga úr í orði eða neita með öllu veikleikum gjaldmiðilsins þar til nú. Augljóslega hefur hagkerfi Þýskalands og nokkurra annarra vel rekinna ESB landa stuðlað að því að deyfa næmleikann fyrir ójafnvæginu innan evru-svæðisins og leitt til ofmats á styrkleika evrunnar. 

Umsókn Íslands um aðild að ESB var lögð fram á þeim tíma, þegar evran var almennt talin sterk. Eflaust má um það deila hvort veikleikar evrunnar hafa verið ráðmönnum sambandsins ljósir og þeir kosið að stinga höfðinu í sandinn.  Hinn kosturinn er að þeir hafi verið ærlegir en óhæfir. Hvorugt er þannig vaxið að það veki traust. En þriðja skýringin og sú sennilegasta er sú að evrusvæðið og ESB séu svo flókinn og ósamstæður efnahagslegur veruleiki að enginn hafi tök á því að hafa sæmilega yfirsýn yfir málin.

11. Draumalandið 

Þegar ríkisstjórn Íslands sótti um aðild að Evrópusambandinu, héldu málsmetandi menn því að þjóðinni að draumurinn um sameinað ríki Evrópusambandsins, eins konar Sambandsríki Evrópu, tilheyrði fortíðinni. Var þessi fullyrðing meðal annars byggð á því, að áformin um að koma á stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið höfðu runnið út í sandinn, þegar Frakkar og Hollendingar höfnuðu henni í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Upp úr drögunum að stjórnarskrá Evrópu var samið plagg, sem hlaut nafnið Endurskoðunarsamningur (Reform Treaty). Sá samningur var samþykktur af aðildaríkjunum ESB í Lissabon og ber síðan nafn borgarinnar. Ekki þótti þó ráðlegt að leggja Lissabon-samninginn undir þjóðaratkvæði meðal aðildarþjóðanna, sem á annað borð áttu þess kost að koma sér undan því.  Var Írland því eina þjóðin sem lét fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-samninginn, þar sem stjórnarskrá landsins mælir svo fyrir um.  

Írska þjóðin hafnaði Lissabon-samningnum 2008. Ári síðar var samningurinn aftur borinn undir þjóðaratkvæði á Írlandi, og þá samþykktur. Írland var þá komið í miklar efnahagskröggur.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt, er þeim mun fróðlegra að fylgjast með umræðum innan Evrópusambandsins um helstu leiðir til að sambandið geti unnið sig út úr skuldastöðu veikustu aðildarlandanna og þar með endurheimt trúverðugleika evrunnar. Er flestum orðið ljóst að hugmyndin um nánari samruna ríkjanna lifir enn góðu lífi.  Í raun er hún forsenda þess að ESB komi fram sem bjargvættur þeirra ríkja, sem við verstu skuldastöðuna glíma. 

Fyrirmæli berast frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins um að hin skuldugu ríki skeri niður ríkisútgjöld sín. Gegn slíkum ráðstöfunum fæst lenging lána og væntanlega greiðari aðgangur að lánsfé, þar sem stöndug ríki sambandsins virðast vera að ganga í ábyrgð fyrir þau skuldugu.

Með sameiginlegan gjaldmiðil að vopni, sem ekki verður gengisfelldur vegna slæmrar stöðu  nokkurra aðildarþjóða, hafa skuldum vafnar þjóðir evrusvæðisins engu að síður nokkra kosti. Þær geta stundað það, sem bandaríski hagfræðingurinn Barry Eichengreen kallar “innri gengisfellingu”. Felst sú ráðstöfun í því að laun, eftirlaunagreiðslur og aðrir kostnaðarliðir eru lækkaðir. Aðgerðir af þessu tagi eru okkur Íslendingum kunnar. Um 1989 gengu þær hér á landi undir heitinu “niðurfærsluleið”. Heitið var gagnsærra en “innri gengisfelling”. Hins vegar er leiðin jafn torsótt í dag og hún var í lok níunda áratugarins.  

Í síðustu ráðstöfunum forystumanna ESB er gert ráð fyrir að fjármálastofnanir og eigendur fjármagns taki þátt í fórnunum. Ekki er ljóst hve mikil sú þátttaka verður. Evrópusambandið, eftir áralangt japl, jaml og fuður, virðist komið skemmra en þeir voru í októberbyrjun 2008, Hank Paulson, Ben Bernanke og Timothy Geitner. Um hálfum mánuði áður en TARP samkomulagið fór í gegn um bandaríska þingið, höfðu bandarísk stjórnvöld tryggt þátttöku allra stærstu bandarísku einkabankanna við lausn Lehman vandans.  Átti fórnarkostnaður einkageirans að nema um 10 milljörðum bandaríkjadala. Til þeirrar björgunar kom þó ekki, eins og kunnugt er, vegna afstöðu Breta.

Svarið við vanda evrusvæðisins blasir við flestum þeim, sem sannfæringu hafa fyrir því, að Evrópusambandið eigi að þróast í átt til sambandsríkis: það verður að auka samrunaferlið. Hinir, sem ekki eru sannfærðir um hugsjónina um Sambandsríki Evrópu, en vilja varðveita Evrópusamstarfið, eru hljóðari um úrlausn vandans. 

Hagfræðingurinn Nouriel Roubini telst hafa mikla hlaupvídd, ekki síst eftir að hann reyndist sannspár um lánsfjárkreppuna 2008. Í nýlegri grein í Financial Times fannst honum líklegt að evrusamstarfið muni leysast upp að öllu óbreyttu. Nú er það svo, að hagfræðingum er almennt sýnna um að lýsa liðnu ástandi en að spá í framtíðina.

Sú fullyrðing, að hugmyndir um samruna aðildarríkja ESB í eitt evrópskt sambandsríki tilheyri fortíðinni, hefur ekki reynst rétt. Hún er enn við lýði. Hún er í raun eina svarið, sem forystumenn Evrópusambandsins virðast hafa við þeim erfiðleikum sem nú steðja að sambandinu og evrunni sérstaklega.  

12. Sækjum við styrk til ESB?

Það er hagur allra, jafnt þeirra sem eru aðilar að evrusvæðinu og hinna, sem standa utan þess, að evran þróist í átt til jafnvægis og geti orðið stöðugri gjaldmiðill í raun, en hún virðist vera nú. Gjaldmiðlar í ójafnvægi, ekki síst hrynjandi gjaldmiðlar, skapa glundroða víðar en á heimaslóðum. “Dalurinn er gjaldmiðill okkar en vandamál ykkar,” sagði fjármálaráðherra Bandaríkjanna John Connally árið 1971 við evrópska sendinefnd. Var athugasemdin eflaust tengd áformum Bandaríkjanna að leggja niður gullfót dalsins. Þegar dalurinn veikist bæta Bandaríkin viðskiptastöðu sína með því að gera vandræði sín að útflutningsvöru rétt eins og aðrar þjóðir, sem hafa vald yfir gjaldeyri sínum (formúlan heitir á ensku: “export one’s way out of trouble”). 

Það er ekki líklegt að Íslendingar muni sækja sér efnahagslegan styrk með aðild að gjaldeyrissvæði evrunnar. Grunnur evrusvæðisins er ótraustur. Þar koma saman þjóðir, sem hafa mjög ólíka afstöðu til grundvallarþátta efnahagsstjórnunar. Sum þeirra setja á oddinn jafnvægi í ríkisrekstri og viðskiptum. Önnur sýna slíkum dyggðum tómlæti og halda uppi viðamikilli samfélagsþjónustu með skuldsetningu. Það væri tómlæti gagnvart íslenskum hagsmunum að hengja þá aftan í svo annarlegt farartæki.

Í nánast öllum stærstu ríkjum evrusvæðisins hefur búið um sig viðvarandi atvinnuleysi stórs hluta vinnufærra manna, einkum ungs fólk. Fyrir lánsfjárkreppuna var atvinnuleysi að meðaltali 8% í Frakklandi en meðal ungs fólks frá 18 til 28 ára nam það um 20%. Fyrir nokkrum árum deildi ég vinnuaðstöðu með ungum og vel menntuðum Spánverja, sem var að ljúka doktorsnámi í hagfræði við Robert Schuman Institute í Flórens. Áður skildist mér að hann hefði lokið tveimur mastersprófum. Hann sagði mér að sín biði ekki starf í Madríd, heldur námskeið fyrir atvinnulausa. Þetta var árið 2004. Þeir sem fylgjast með fréttum vita hvernig ástandið er á Spáni í dag. 

Atvinnuleysi er orðið svo mikið á evrusvæðinu að það grefur undan framtíðarhorfum heilla kynslóða ungs fólks. Ég átti þess kost að ræða nokkuð ítarlega við ítalskan prófessor og sérfræðing í orkumálum við Evrópsku háskólastofnunina í Flórens (Eropean University Institute) um atvinnuleysi á Ítalíu og innan ESB. Það vakti athygli mína að prófessorinn leit á atvinnuleysi sem samfélagslegt viðfangsefni sem hyrfi, ef veittar væru viðunandi atvinnuleysisbætur. “Hvar er þetta vandamál sýnilegt?” spurði hann. “Sérðu betlara á götum Flórens?” Ég varð einnig var við að þetta sjónarmið var útbreitt meðal franskra stjórnmálamanna. Atvinnuleysi er hins vegar umfram allt siðferðilegt vandamál. Þegar atvinnuleysi er farið að snerta fimmta hvert ungmenni, er málið löngu orðið að siðferðilegri meinsemd.

Atvinnuleysið, sem umlykur unga fólkið, eyðileggur sjálfsvirðingu þess og brýtur niður innviði samfélagsins. Vandamálið er viðurkennt innan ESB í orði en ekki á borði. Hagvöxtur Evrópusambandsins er að meðaltali mjög takmarkaður og kreistur fram með ódýru lánsfé. Sambandið er þungt og svifaseint í viðbrögðum við alvarlegasta vanda samtímans og virðist líta á hann sem tæknilegt millifærsluvandamál. 

Nú væri ósanngjarnt að kenna Evrópusambandinu sem stofnun um hátt og landlægt atvinnuleysi hjá mörgum aðildarríkjum. Atvinnusköpun er fyrst og fremst viðfangsefni aðildarríkjanna sjálfra. ESB hefur þó verið að færa sig æ meira inn á svið atvinnumála. Ábyrgð sambandsins hefur því farið vaxandi.

Þótt atvinnumál hafi frá upphafi verið ofarlega á lista yfir áherslur Evrópusamstarfsins, urðu á því breytingar 1997 með Amsterdam-samningnum, sem gerði tilraun til að samræma atvinnustefnu ESB-landanna. Sama ár var kynnt atvinnustefna Evrópu sem kennd var við Lúxemborg. Á leiðtogafundi í Lissabon árið 2000 var sett á laggirnar áætlun um nýmæli í efnahagsmálum, þar sem ESB var falið skapa skilyrði til að vinna bug á atvinnuleysi og styrkja félagslega samræmingu. 

Svo virtist í fyrstu, sem þessi skref hefðu haft í för með sér jákvæð áhrif.  Um 2001 hafði atvinnuleysi mjakast niður á við miðað við árið 1997. En það stóð stutt og um 2004 hafði atvinnuleysi aukist aftur. Lítill hagvöxtur og ósveigjanlegur vinnumarkaður héldu aftur af atvinnusköpuninni.

Sérstaklega var þessi glíma átakanleg í Frakklandi, þar sem þunglamalegt regluverk og ósveigjanlegur vinnumarkaður hafa einkennt atvinnulífið og landið lengi verið þjakað af verkföllum. Tímabundnar tilslakanir í vinnulöggjöf kunna að hafa dregið aðeins úr atvinnuleysi um tíma, en vísbendingar eru um að þessar sömu tilslakanir hafi leitt til minnkandi framleiðni.  

Evrópusambandið verður ekki sakað um að hafa ekki reynt að ráðast gegn atvinnuleysinu. En yfirlýsingar og útblásin markmið hafa ekki sömu þyngd og raunveruleikinn. Evrópusambandið er einnig mjög upptekið af ýmsum málum, sem ekki snerta velferð borgaranna innan sambandsins eins beint og atvinnumál gera. Það sem ESB er einkum upptekið af er það sjálft.  Það er önnum kafið við að laga stofnanakerfið, koma sér upp sterkara framkvæmdavaldi og finna lausn á svokölluðum lýðaræðishalla Evrópubyggingarinnar.

 Andvaraleysið, sem Evrópusambandið sýnir í raun atvinnuleysinu, þessu mikla vandamáli, er hluti af fjarlægð og firringu. Forystumenn og embættismenn sambandsins eru komnir mjög langt frá fólkinu, sem sambandið var stofnað til að veita öryggi, frið og velsæld. Það er megin ástæðan fyrir því að Evrópubúar hafa lítinn áhuga á Evrópusambandinu. Þátttaka í kosningum til Evrópuþingsins fer minnkandi ár frá ári.  

13. Úr hugmyndabanka aðildarsinna

 „Aðild snýst fyrst og fremst um hvort við viljum skipa okkur í sveit með öðrum Evrópuþjóðum og leggja okkar af mörkum til að skapa okkur öllum hagsæld og farsæld…með aðild að ESB fáum við stórkostlegt tækifæri til að taka þátt í að móta framtíð Evrópu og um leið heimsins alls,” segir lögfræðingur og stuðningsmaður „Já Ísland”.  

Það er stórt nafn Hákot. Undirritaður er ekki trúaður á að án aðildar að ESB missi þjóðin af stórkostlegu tækifæri til að móta framtíð Evrópu og heimsins alls. Ef Íslendingar eiga að hafa jákvæð áhrif á aðrar þjóðir, verður það einungis gert með því að þeir taki til heima hjá sér, áður en þeir fara að laga til hjá öðrum. Þeir eiga nokkuð langt í land með þá tiltekt.

Í hugleiðingum um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, sem undirritaður hefur birt hér í blaðinu, hafa verið vegin og metin nokkur þau rök sem færð hafa verið fyrir aðild Íslands að ESB. Er þar einkum um að ræða efnahagslegar forsendur og tengsl stjórnmála við legu landsins, menningarsögu og hugmyndafræði. Þótt ekki gefist tilefni til að fara nákvæmlega yfir afstöðu þeirra sem óska aðildar að sambandinu, verður hér tæpt á nokkrum sjónarmiðum. 

Allmargir þeirra, sem telja Íslandi best borgið innan ESB, bera fyrir sig almennri röksemd um samleið með Evrópuríkjum “..Ég er fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, því ég vil að þjóð mín fylli flokk þeirra þjóða, sem búa við mest og best lýðræði, mannréttindi, velferð, öryggi og hagsæld,” skrifar þjóðkunnur listamaður fyrir nokkru.

Nú er ekki nema gott eitt að segja um yfirlýsingar af þessu tagi. Hvort þær geta flokkast undir sterk rök, er annað mál. Fáum dylst að hagsæld er meiri í Noregi og í Sviss en í löndum ESB. Bæði þessi lönd búa við lýðræði, mannréttindi, velferð, öryggi og hagsæld. Við Íslendingar deilum ekki síður gildum með Kanadamönnum en ESB löndum, þótt við eigum meiri viðskipti við þau síðarnefndu. Stjórnmálalíf Kanadamanna og viðhorf til samfélagsmála standa Íslendingum nær en lýðræðishefð Búlgaríu, svo dæmi sé tekið. 

Hrun fjármálamarkaða, sem kom mjög illa við Ísland, kom í fyrstu allmörgum Íslendingum til að trúa því að þeir ættu ekki annars úrkosti en að sækja um aðild að ESB. Fyrrverandi þingkona Sjálfstæðisflokksins, sem virðist telja okkur betur borgið innan sambandsins, benti á að kreppan, sem dunið hefði yfir Íslendinga og leikið þá grátt, gæfi vísbendingar um að það væri þjóðinni hollt að hafa einhvern sem gætti okkar og liti yfir öxlina á okkur. Af þessu og ýmsu í svipuðum dúr, sem birst hefur opinberlega, er ljóst að nú á 68. aldursári lýðveldisins eru í gangi alvarlegar hugleiðingar um að Íslendingar hafi alls ekki til þess getu og burði að reka sjálfstætt ríki. Hér hefur sem sagt verið reistur gunnfáni getuleysisins. Málsmetandi menn hafa skipað sér undir hann.

 Við þetta viðhorf er ýmislegt að athuga. Fyrir það fyrsta er vegferð okkar, frá því í lok 19. aldar og fram undir fjármálaáfallið, eitthvert mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar. Þótt á ýmsu hafi gengið, er erfitt að neita því að Íslendingar hafa byggt upp sterkt þjóðfélag á eigin forsendum, ef frá er talin Marshallaðstoðin. Á tíu ára tímabili, frá 1991 að telja, leystist úr læðingi mikill sköpunarkraftur í íslensku atvinnulífi, hagvöxtur var mikill og að miklu leyti tókst að greiða niður skuldir ríkisins. Ísland var fram undir 2008 skólabókardæmi innan OECD um vel heppnaða efnahagsstjórn. Þótt sú ágæta stofnun hafi ekki séð fyrir efnahagskreppuna sem skall á heiminum og hún hafi ekki áttað sig á því sem var að gerast innan íslensku einkabankanna, þá er enginn vafi á því að hún mat rétt í aðalatriðum jákvæða efnahagsþróun á Íslandi. 

Það verður einnig að gjalda varhug við þeirri uppgjöf og uppáskrift á hugmyndafræði getuleysisins, að Íslendingar þurfi stóra bróður til að horfa yfir öxlina á sér til að eiga sér framtíð. Hver á að horfa yfir öxlina á okkur? Ljóst er að Evrópusambandið á fullt í fangi með að glíma við þá falsmynd, sem sköpuð hefur verið um styrkleika evrunnar. Eru það Bandaríki Norður-Ameríku sem eiga að horfa yfir öxlina á Íslendingum og kenna þeim þá dyggð að safna ekki ríkisskuldum og stofna ekki til viðskiptaskulda? Hafa yfirleitt einhverjar þjóðir áhuga á því að horfa yfir öxlina á Íslendingum og segja þeim til? Telja einhverjar þjóðir eða ríkjasambönd það vera í verkahring sínum?

Svo gæti virst, að lánsfjárkreppan og erfiðleikar Íslendinga í kjölfar hennar, bæði aðfengnir og heimatilbúnir, hafi verið nokkur hvalreki á fjörur þeirra sem óska aðildar að ESB. Þó rétt sé að bægja þeirri hugsun frá sér, er mikilvægt að gera sér sem skýrasta grein fyrir því hvaða lærdóm er hægt að draga af erfiðleikum okkar. Það gerum við síst af öllu með því að fyllast vanmetakennd.  

14. Samevrópskur menningararfur 

Í umræðum um aðildarumsókn Íslands að ESB hefur borið nokkuð á sérkennilegri gagnrýni í garð þeirra, sem telja það óráð fyrir þjóðina að tengjast sambandinu nánari böndum. Þeir eru sakaðir um andúð á öllu sem evrópskt er og uppnefndir Evrópuandstæðingar.

Virðing og áhugi fyrir sögu Evrópulanda og menningu er flestum Íslendingum eðlileg, enda er íslensk menning hluti af evrópskri menningu. Því getur Evrópusambandið ekki breytt. Hitt er svo annað mál hvort við hrífumst af samevrópskri menningu. Dæmi um sameiginlega framleiðslu stórmynda gefa ekki tilefni til bjartsýni. 

Það sem öllu öðru fremur einkennir evrópska menningu er fjölbreytileikinn. Hann kemur fram á öllum sviðum, jafnvel með mjög skyldum þjóðum eins og Norðurlöndum. Þó kemur þessi fjölbreytileiki einkum fram á því sviði, sem stendur næst manninum af öllu því sem hann nærist af, leitar til og auðgar. Evrópsk tungumál eru mesti menningarlegur fjársjóður álfunnar og uppspretta menningarlegrar sérstöðu hennar.

 Evrópusambandið er ekki á móti fjölbreytileika, í orði. Það virðir tungumál. Raunar er túlkaþjónusta sambandsins mikil stoð og atvinnuveitandi þeirra sem numið hafa tungumál. Hægt er þó að hugsa sér verðugra hlutverk fyrir fólk með slíka menntun en að þýða reglugerðir sambandsins. ESB er hins vegar einkum samræmingarstofnun. Hún staðlar. Hún raðar tungumálum í stéttir í reynd, þótt hún geri það ekki í orði. 

Evrópusambandið er enn opið í hálfa gátt, eins og Íslendingar vita. Nú þegar þokast hurðin þó nær stöfum, eins og Tyrkir vita. Evrópusambandið er fjölþjóðleg valdastofnun byggð á metnaði stærstu og öflugust ríkja álfunnar. Sambandið hefur ytri mörk, þótt fáir vilji draga þá línu. Evrópusambandið er landfræðilegt.

Þrátt fyrir þetta telja margir helstu fulltingismenn og stuðningsmenn sambandsins hérlendis sig vera merkisbera alþjóðahyggju. Þeir, sem aðhyllast aðild að sambandinu, eru mjög meðvitaðir um þetta hlutverk, sem reyndar fyllir þá nokkurri stórmennsku.  

Alþjóðahyggja er að sjálfsögðu ekki evrópskt fyrirbæri. En Evrópa hefur ítrekað verið skekin alþjóðlegri hugmyndafræði, sem hefur jafnvel orðið útflutningsvara til annarra heimshluta. Í grunninn er alþjóðahyggja byggð á þeirri sannfæringu að stjórnmálakerfi eða ákveðin hugmyndafræði sé svo máttug og hafi svo augljósa yfirburði, að rétt sé að sem flestir fái notið hennar. Slíkir straumar verða til bæði á vinstri og hægri væng stjórnmálanna.

Hér gefst ekki rúm til að fjalla um þá alþjóðlegu hugmyndafræði, bæði trúarlega og stjórnmálalega, sem ítrekað hefur valdið ómældum þjáningum í Evrópu. Evrópskar samræmingarstefnur hafa oftast alið af sér innri sundrungu og látið í minni pokann fyrir innbyggðu miðflóttaafli álfunnar. 

Á hinn bóginn er Evrópusambandið einnig handhafi annars sameiginlegs menningararfs Evrópu. Það fyrirbæri sem hér um ræðir er nokkuð flókið. Það er svo flókið að ekki er til orð yfir það á íslensku. Orðið „hierarchia” þýðir einhvers konar stigskipt kerfi, þar sem hverjum og einum er skipað á  ákveðinn bás. Þetta stigskipta kerfi var innleitt sem grundvöllur lénsskipulagsins á nokkrum öldum og náði að lokum til Evrópu allrar. Á þessu voru þó tvær undantekningar: Sviss og Ísland. Í kerfinu stóð páfinn efst í pýramídanum, keisarar og konungar þar fyrir neðan. Síðan kom mikil hersing hertoga, markgreifa, greifa, barúna og riddara. Þar fyrir neðan var almenningur, sem borgaði brúsann.

Þótt fyrirbærið sé ævafornt og eigi rætur í fornum menningarsamfélögum utan Evrópu, fékk það sérstakt inntak og hlutverk í ríki Franka á tímum Karlamagnúsar. Svo vill til að ríki Karlamagnúsar, eftir að hann lagði Ítalíu undir sig,  er í stórum dráttum landsvæði stofnaðila Evrópusambandsins.  

Franska byltingin 1789 setti sér það markmið að kollvarpa þessu kerfi. Á öldinni næstu reið yfir álfuna alda stjórnarbyltinga og umbrota sem beindust gegn arfleifð lénsskipulagsins. Því fer þó víðs fjarri að tekist hafi að uppræta lénsskipulagið. Það er tiltölulega stutt síðan aðalsmenn urðu að láta af hendi erfðarétt sinn til setu í lávarðadeild breska þingsins. Rússar eru enn ekki búnir að losa sig við viðjar aldalangs og óvenju svæsins lénsskipulags, þar sem almenningur var í raun eign aðalsins.

Þegar ég sat þing Evrópuráðsþingsins var þar umtalsverður hópur þingmanna lávarðadeildarinnar bresku. Ekki get ég sagt að virðing mín fyrir menningararfi lénsskipulagsins hafi aukist við þessi kynni, ef undan má skilja einn skoskan jarl. 

Árum saman, á vettvangi þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins og Evrópuráðsins, svo og í samstarfi OECD-ríkjanna , varð ég vitni að því að þingmenn og embættismenn Evrópuríkja töluðu fjálglega um það hve þeir væru orðnir uppteknir af Evrópusambandinu. Danskir þingmenn sögðu mér að þeirra vettvangur, þ.e. sá sem skipti máli, væri allur sniðinn um Evrópusambandið. Á sameiginlegum fundum með vinum okkar frá hinum Norðurlöndunum, snerust umræður æ meira um Evrópusambandið.

Þessar umræður voru sérkennileg samræðupólitík. Þær líktust einna helst einhvers konar „kremlólógíu”, þar sem verið var að spá í túlkun orða leiðtoga og frammámanna, þýða tóntegundir og áherslur, rýna í flókið kerfi, þar sem sumir áttu aðgang að þeim sem máli skiptu en aðrir ekki. Allt var þetta kerfi næsta ógagnsætt, en virtist þeim mun meira heillandi sem það var myrkara. Oft var litið með nokkurri meðaumkun til Íslendingsins svo og til norsku vinanna, sem að sjálfsögðu voru ekki viðræðuhæfir í þessum launhelgum innvígðra. Sá var þó munurinn á okkur frændunum, að norskir embættismenn og þingmenn voru alla jafnan ekki ánægðir með að vera hafðir út undan, en ég prísaði mig sælan fyrir að vera laus við þessi leiðindi.  

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki spurnir af nema einu kerfi, sem jafnast á við andann í hátimbraðri embættisbyggingu Evrópusambandsins. Því var komið á laggirnar í Versölum, glæsihöll Loðvíks fjórtánda, sólkonungsins fræga. Hann óttaðist fátt eins mikið og aðalinn, þar sem hann átti að vera fremstur meðal jafningja. Uppivöðslusamur forréttindaaðallinn hafði næstum komið konungi fyrir kattarnef í borgarastríði mjög snemma á löngum ferli hans.  Loðvík kom á flóknu hirðsiðakerfi og flækti aðalinn í því neti. Utan um þennan gleðileik byggði hann Versali. Það sem eftir lifði af 73 ára valdaskeiði hans stóð honum ekki ógn að aðlinum.

Sumir áttu aðgang að pótintátum og valdsmönnum konungs, aðrir ekki. Mest virðing var að vera viðstaddur þá helgiathöfn þegar kóngur fór á fætur. Það leið ekki á löngu áður en allir helstu valdafíklar franska konungdæmisins hugsuðu ekki um annað en þessar launhelgar sólkonungsins.  

Ég heyrði í útvarpi íslenskan listamann lýsa höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel sem furðuveröld, þar sem uppvakningar liðu um ganga. Þeir hvítpúðruðu aðalsmenn, með varalit og hárkollur, sem börðust um hylli sólkonungsins, eiga margt sameiginlegt með uppvakningunum sem listamaðurinn góði sá líða um ganga hallarinnar í Brussel.

Innan Evrópusambandsins ríkir stéttaskipting. Þar eru þjóðir settar á bás. Þegar Þjóðverjar hafa hátt, skjálfa hinir. Þegar Pólverjar hafa hátt, segir forseti Frakklands þeim að hafa lágt. Þegar Frakkar kjósa rangt, hrynja stjórnarskrárdrög ESB. Þegar Írar kjósa rangt, eru þeir látnir kjósa aftur.  

15. Er skjól í einskis manns landi? 

Undirritaður hefur fjallað í nokkrum greinum um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu og kosti og galla þess að stíga það stóra skref. Í þessari umfjöllun hefur ekki verið minnst á áhrif, sem aðild Íslands hefði á sjávarútveg og landbúnað á Íslandi. Hvor tveggja atvinnugreinin er undirstöðugrein. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið fjallað um þessa málaflokka er einföld. Um landbúnaðarmál hefur verið fjallað ítarlega af bændum sjálfum og samtökum þeirra. Er sú umfjöllun vönduð og nákvæm og verður ekki miklu við hana bætt. Þá er Íslendingum flestum ljóst að aðild að ESB myndi flytja stjórn sjávarauðlindarinnar til sambandsins. Hefur einnig verið um það fjallað ítarlega.

 Tilgangur þessara greinaskrifa er að leiða rök að því, að burtséð frá þeim ríku hagsmunum, sem liggja í fiskveiðum og landbúnaði, sé aðild að Evrópusambandinu óráð. Það stríðir gegn hagsmunum Íslendinga og  vegur að sjálfstæði þjóðarinnar að færa samskipti við umheiminn, sem eru fjöregg þjóðarinnar, undir erlenda valdastofnun, sem Íslendingar hafa ekki og geta ekki haft áhrif á.  

Það er hættulegt fyrir þjóðina að verða aðili að gjaldmiðilssvæði evrunnar. Þótt svæðið lúti stjórn Seðlabanka Evrópu, hefur sambandið ekki getað þróað samræmda stefnu í ríkisfjármálum og alþjóðaviðskiptum, sem tryggir stöðugleika evrunnar. Svar Evrópusambandsins við þeim vanda, sem nú blasir við evrusvæðinu, virðist aðeins vera eitt. Það er að efla stórlega samrunaferil sambandsins. Sameiginlegri stjórn fjármála verður ekki komið á, án þess að fullveldi aðildarlanda ESB á þessu mikilvæga sviði stjórnmálanna verði endanlega vistað í Brussel. Jacques Delors, fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB og einn af áhrifamestu forystumönnum sambandsins, hefur lýst því yfir, að ríki ESB verði að framselja meira af fullveldi sínu til Brussel. Að öðrum kosti falli þau fram af barmi hengiflugsins.

Slík stefna er líkleg til að valda gífurlegum deilum í sambandinu og draga úr  pólitískum trúverðugleika þess. Að stefna sjálfstæði þjóðarinnar inn í það öngstræti stjórnmálaátaka og efnahagslegrar óvissu, sem Evrópusambandið er, ber tvímælalaust vott um alvarlegustu blindu, sem stjórnmálamenn þjóðarinnar hafa nokkru sinni verið slegnir.  

Á þessum vettvangi hefur ekki verið rætt um hinn svokallaða lýðræðislega hallarekstur Evrópusambandsins. Þeim vanda hefur verið allvel lýst af sambandinu sjálfu. Vandinn rekur uppruna sinn til innri mótsagnar í uppbyggingu ESB. Evrópusambandið getur ekki lengur talist samstarfsvettvangur sjálfstæðra ríkja. Þau hafa flutt hluta af sjálfstæði sínu til Brussel. Hins vegar er ESB ekki enn sjálfstætt ríki, sem hefur umboð frá íbúum aðildarríkjanna. Uppruni löggjafar er enn í aðalatriðum hjá framkvæmdavaldinu. Þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að efla lýðræði innan sambandsins, hafa reynst hálfkák eitt.

Í ljósi þeirra erfiðleika sem steðja að sambandinu, er tæplega í augsýn önnur lausn á lýðræðishalla sambandsins, en sú að sameinast í eitt sambandsríki, og breyta hlutverki Evrópuþingsins í grundvallaratriðum. Um þá lausn gildir hið sama og um sameiginlega fjármálastjórn. Það er engin samstaða. 

Lítill áhugi íbúa aðildarlandanna á ESB, sem endurspeglast m.a. í lítilli og minnkandi þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins, er í raun átakanlegur. Ótti ráðamanna í ESB-löndum við að vísa meiri háttar breytingum á stofnsamningum sambandsins til íbúanna er táknrænn fyrir brestina sem komnir eru í sjálfan grundvöll samstarfsins. Ef lýðræðislegt umboð leiðtoga ESB er orðið svo veikt að sambandið sjálft lýsir því sem hallarekstri, þá vaknar grundvallarspurning. Hverjum tilheyrir Evrópusambandið, ef það er ekki fólksins sem þar býr? Frá sjónarmiði lýðræðisins er Evrópusambandið komið mjög nærri því að vera einskis manns land.

Íslendingar þurfa að koma skikk á ýmsa hluti, sem úrskeiðis fóru í lánsfjárkreppunni. Þeir þurfa umfram allt að læra af þeirri sáru reynslu. En þeir þurfa ekki síður að leiðrétta alvarleg mistök og stjórnleysi í efnahags- atvinnu og utanríkismálum, sem núverandi ríkisstjórn hefur leitt yfir þjóðina. 

Við eigum ekkert skjól nema í sjálfum okkur, frumkvæði  þjóðarinnar, menntun og þekkingu og í skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinanna. Við eigum ekki aðra tryggingu fyrir velgengni í framtíðinni en okkar eigin ráðdeild og hagsýni.

Íslenska krónan er hvorki verri né betri en aðrir gjaldmiðlar. Styrkleiki hennar felst í heilbrigðu efnahagslífi, jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og því skilyrði, að við efnum ekki til annarra ríkisútgjalda en tekjur hrökkva fyrir. Jafnvel þótt öll þessi skilyrði séu uppfyllt, eru þau ekki fullkomin trygging gegn áföllum í heimi frjálsra fjármagnsflutninga og opinna markaða. En þau eru það næsta sem við komust því að geta tryggt hag okkar.  

Það er von þess sem þetta ritar, að greinaflokkurinn um ESB, sem hann hefur birt í Morgunblaðinu, geti orðið til gagns fyrir lesendur blaðsins. Stórar ákvarðanir í utanríkismálum þurfa að vera vel grundaðar. Þær þurfa að eiga sér breiðan stuðning meðal Íslendinga. Þær verður að styðja rökum, sem sótt eru til alls þess sem gerir Íslendinga að þjóð meðal þjóða. Það hefur verið gert hingað til. Oft var þörf en nú er nauðsyn að halda áfram á þeirri braut. Við þurfum að leita til landafræði, hugmyndafræði, sögu og stjórnmálahefðar til að byggja traustan grunn undir utanríkisstefnu okkar.

 Endir.

Andstaða við ESB-aðild vex, 64,5 prósent á móti

Normal 0 21 false false false IS X-NONE X-NONE MicrosoftInternetExplorer4 /* Style Definitions */ table.MsoNormalTable {mso-style-name:”Table Normal”; mso-tstyle-rowband-size:0; mso-tstyle-colband-size:0; mso-style-noshow:yes; mso-style-priority:99; mso-style-qformat:yes; mso-style-parent:””; mso-padding-alt:0cm 5.4pt 0cm 5.4pt; mso-para-margin-top:0cm; mso-para-margin-right:0cm; mso-para-margin-bottom:10.0pt; mso-para-margin-left:0cm; line-height:115%; mso-pagination:widow-orphan; font-size:11.0pt; font-family:”Calibri”,”sans-serif”; mso-ascii-font-family:Calibri; mso-ascii-theme-font:minor-latin; mso-fareast-font-family:”Times New Roman”; mso-fareast-theme-font:minor-fareast; mso-hansi-font-family:Calibri; mso-hansi-theme-font:minor-latin;}

Í könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Heimssýn sögðust 64,5 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 35,5 prósent fylgjandi, séu aðeins tekin svör þeirra sem tóku afstöðu með eða á móti.
Könnunin byggir á 868 svörum sem aflað var mánuðina maí, júní og júlí. Spurningin var svohljóðandi: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?
Í sambærilegri könnun sem Gallup gerði fyrir Heimssýn og birt var í júní sögðust 57,3 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 42,7 prósent fylgjandi.

Andstaða við ESB-aðild vex, 64,5 prósent á móti

Í könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Heimssýn sögðust 64,5 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 35,5 prósent fylgjandi, séu aðeins tekin svör þeirra sem tóku afstöðu með eða á móti.

Könnunin byggir á 868 svörum sem aflað var mánuðina maí, júní og júlí. Spurningin var svohljóðandi: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?
Í sambærilegri könnun sem Gallup gerði fyrir Heimssýn og birt var í júní sögðust 57,3 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 42,7 prósent fylgjandi.