Opin fundur á Akureyri

Sunnudaginn þann 27. nóvember klukkan 14:00 mun Heimssýn – félag sjálfstæðissinna í Evrópumálum,  halda opinn fund um Ísland og Evrópumálin. Fundurinn verður haldinn í Zonta-húsinu, Aðalstræti 54 A á Akureyri.

Frummælendur verða:

Ragnar Arnalds – fyrrverandi ráðherra

Tómas I. Olrich – fyrrverandi ráðherra

Allir velkomnir

Ályktun vegna ávirðinga utanríkisráðherra í garð Heimssýnar

Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, lét þau ummæli falla í utandagskráumræðu á alþingi þriðjudaginn 8. nóvember s.l. að félagasamtökin Heimssýn væru á móti lýðræði.    

Orðrétt sagði utanríkisráðherra:

“Þeir sem eru á móti þessari framtíðarsýn [þ.e. að ganga í Evrópusambandið] hafa eina skyldu, þeir verða að leggja fram sína eigin framtíðarsýn. Það hafa þeir ekki gert, það eina sem þeir hafa gert er að leggja fram Heimssýn — sem er orðið samtök gegn lýðræði.”

Framkvæmdastjórn Heimssýnar óskar eftir því að utanríkisráðherra dragi þessa röngu fullyrðingu til baka.  

Heimssýn er þverpólitísk samtök sem stofnuð voru árið 2002 með það að markmiði að halda Íslandi utan Evrópusambandsins. Samtökin standa að útgáfu og efna til funda um málefni Evrópusambandsins og umsókn Íslands. Í samtökunum eru ríflega sex þúsund félagsmenn.  

Ekkert í starfsemi Heimssýnar er til þess fallið að draga úr lýðræði. Opinská umræða um kosti og galla aðildar er einmitt talin mikilvægur hluti af lýðræðislegu ferli.

Heimssýn hefur lagt til að aðildarumsóknin verði afturkölluð, enda sé það bæði skynsamlegt og fullkomlega lýðræðislegt.  

 

 • Aðildarumsóknin var knúin í gegn á alþingi með þvi að annar stjórnarflokkurinn gekk á bak orða sinna gagnvart kjósendum sínum. 
 • Stjórnarflokkarnir höfnuðu tillögu um að þjóðin fengi að kjósa um aðildarumsókn. 
 • Afgerandi meirihluti þjóðarinnar er gegn aðild, sýna ítrekaðar kannanir.  
 • Skoðanakannanir Capacent sýna að meirihluti þjóðarinnar tekur afstöðu gegn áframhaldandi viðræðum.
 • Heimssýn hefur bent á að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning mun ekki vera bindandi fyrir þingmenn.
 • Það er ekki lýðræðislegt að minnihlutahópur geti knúið af stað dýrt og flókið aðildarferli gegn vilja meirihlutans.  

 

Barátta Heimssýnar gegn aðild er ekki síst barátta fyrir því að varðveita lýðræðið. Evrópusambandið hefur verið gagnrýnt fyrir mikinn og vaxandi skort á lýðræði.  

 

 • Evrópusambandið blandar sér í lýðræðislegt ákvörðunarferli þjóðarinnar með því að dæla hingað styrkjum, kynningafé, boðsferðum og setur hér upp kynningarmiðstöðvar. 
 • Á síðustu mánuðum hefur ESB með beinum og óbeinum hætti blandað sér í innanríkismál aðildarríkja þannig að lýðræðislega kjörnir leiðtogar hafa þurft að hverfa frá völdum.  
 • Með aðild að ESB munu sífellt fleiri ákvarðanir, lagasetning og æðsta dómsvald færast frá Íslandi. 
 • Möguleikar Íslendinga til að hafa áhrif á sín málefni með lýðræðislegum hætti munu því minnka verulega.
 • Skerðing fullveldis er skerðing á lýðræði.    

 

Heimssýn mun sem fyrr leggja sitt af mörkum til að Ísland verði áfram fullvalda þjóð og frábiður sér aðdróttanir utanríkisráðherra um að starfsemi Heimssýnar sé stefnt gegn lýðræðinu.  

Reykjavík 9. nóvember 2011

Ásmundur og Unnur endurkjörin á aðalfundi

Þingmennirnir Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir voru endurkjörnir til forystu Heimssýnar á aðalfundi félagsins í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu þann 5. nóvember. Ný stjórn var jafnframt kjörin.

Á aðalfundinum voru eftirtaldir með erindi: Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, Páll Hannesson stjórnmálafræðingur og Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður.

Fjörugar umræður voru í kjölfar framsöguerinda.

Aðalfundur Heimssýnar 2011

Aðalfundur Heimssýnar mun að þessu sinni vera haldin í Þjóðmenningarhúsinu laugardaginn þann 5. nóvember klukkan 13:00.

Dagskrá fundarins eru almenn aðalfundarstörf, en einnig munu koma þrír gestir sem munu halda fróðleg erindi.

Gestir fundarins verða:
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum
Páll Hannesson, félagsfræðingur og fyrrverandi alþjóðafulltrúi BSRB

Verið velkomin
stjórn Heimssýnar