Breska þingkonan Kate Hoey til Íslands

kate-hoeyMánudaginn 19. nóvember efnir Íslenskt þjóðráð – IceWise til málþings á veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíð við hlið Keiluhallarinnar kl. 17:15. Sérstakur gestur verður breski þingmaðurinn Kate Hoey, sem er þingmaður Verkamannaflokksins í Vauxhall í Lundúnum. Kate er frá Norður-Írlandi. Hún er skeleggur málssvari þess, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðild að Evrópusambandinu. Fyrirlestur Kate nefnist: Hættur Evrópuaðildar – The Dangers of Joining the EU.

Það er tími til kominn að hætta að vera litlir Evrópumenn, heldur verða sannir alþjóðasinnar,” sagði Kate Hoey í umræðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB í breska þinginu í október 2011. Hún varar eindregið við lýðræðishalla Evrópusambandsins.

Hallur Hallsson, formaður Þjóðráðs, mun fjalla um þá breyttu heimsmynd sem blasir við Íslendingum, nú þegar Varnarliðið er á braut og Ísland er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Fyrirlestur Halls nefnist: Ísland á ný á evrópsku áhrifasvæði.

Jón Kristinn Snæhólm, varaformaður Þjóðráðs er sagn- og stjórnmálafræðingur frá Edinborgarháskóla. Mastersritgerð hans er um sjávarútvegsstefnu ESB. Fyrirlestur Jóns Kristins nefnist: Ísland og sjávarútvegsstefna ESB.

Kate Hoey í breska þinginu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fréttablað Heimssýnar komið út

Heimssýn hefur gefið út 16 síðna fréttablað sem dreift var með Morgunblaðinu þann 11. nóvember sl. Í fréttablaðinu er fjöldi greina um stöðu aðildarviðræðna og margvíslegur fróðleikur, meðal annars um gjaldmiðlamál, Evrópusambandið og tengt efni.

Forsíðufréttin er sú að afgerandi meirihluti landsmanna vill draga umsóknina til baka. Hér er hægt að hlaða niður blaðinu í pdf útgáfu: Fréttablað heimssýnar nóvember 2012