Fyrsta maí-kaffi Heimssýnar eftir kröfugöngu og útifund í Reykjavík

Heimssýn óskar öllum launþegum til hamingju með baráttudaginn fyrsta maí og hvetur félaga í Reykjavík til að mæta í kröfugöngu á Hlemm kl. 12:45, en þar verða afhent spjöld og fleira í tilefni dagsins.

Að kröfugöngu verkalýðsfélaganna og útifundi loknum býður Heimssýn öllum sem vilja í kaffi á meðan húsrúm leyfir og kaffi er til.

Á þessum hátíðisdegi er rétt að muna eftir því hversu miklu það skiptir fyrir launþega að atvinnuástand sé gott. Því miður hefur atvinnuleysi stóraukist í löndum ESB að undanförnu og er nú svo komið að það er að meðaltali um 12 prósent, en farið að nálgast 30% á Spáni og Grikklandi, en þar er um helmingur ungs fólks án atvinnu.

Höldum því á lofti að það er íslenskum verkalýð ekki til heilla að ganga í ESB.

Formaðurinn í viðtali hjá Evrópuvaktinni

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og formaður Heimssýnar, segir í viðtali við Evrópuvaktina að megin niðurstaða hans eftir samtöl við ráðamenn og áhrifamenn hjá Evrópusambandinu og Evrópuþinginu í Brussel skömmu fyrir páska sé sú, að fyrir utan innsta kjarnan í ESB séu menn í Brussel illa upplýstir um þá djúpu og sterku andstöðu, sem sé hér á Íslandi gegn aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt sé ljóst, að þeir sem hafi haldið því fram hér að eins konar kalt stríð mundi brjótast út á milli Íslands og Evrópusambandsins ef Ísland stöðvi viðræður hafi rangt fyrir sér. Í Brussel sé enginn áhugi á að styggja Íslendinga. Nánar