Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, ræðir lýðræðismál í tengslum við ESB á fundi með Heimssýn

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hafði framsögu um ESB-málin á opnum stjórnarfundi Heimssýnar sem haldinn var í Iðnó í fyrrakvöld. Ásta Guðrún svaraði svo spurningum fundarmanna og tók þátt í líflegum umræðum um ýmsa þætti ESB-málanna. Meðal þess sem kom fram hjá Ástu var að Píratar vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda skuli áfram viðræðum um aðild Íslands að ESB eða ekki.

Ásta nefndi ýmsa kosti þess að vera hluti af ESB, og nefndi sérstaklega jafnréttismál í því samhengi og einnig friðarmál, en tiltók einnig neikvæð atriði sem því fylgdi eins og aukið skrifræði.

Ásta fullyrti að umsókn Íslands að ESB væri í raun í fullu gildi og að með bréfi utanríkisráðherra til ESB hefði verið gengið framhjá þinginu. Hún sagði jafnframt að ef hætta ætti viðræðum þyrfti að semja sérstaklega um það við ESB. Þegar talið barst að undanþágum frá ákvæðum sem hingað til hafa gilt hjá ESB, t.d. varðandi fiskveiðimál, var á Ástu að skilja að hún teldi ESB væri þess eðlis að það gæti ekki veitt neinar varanlegar undanþágur frá regluverki um slíka hluti. Hins vegar sagði hún það skoðun sína að það yrði að halda áfram samningaviðræðum til þess að sjá hvað út úr þeim kæmi.

Almennt var gerður góður rómur að málflutningi Ástu þótt fundarmenn hefðu margir hverjir aðrar skoðanir og í sumu annan skilning á stöðu mála og var ljóst að umræðan var hvergi nærri tæmd á þeim tíma sem til umráða var. Því er þess vænst að við fáum að eiga orðastað við þingmenn Pírata aftur áður en langt um líður.

Heimssýn hefur fengið fulltrúa ýmissa stjórnmálaflokka á fund með sér til að ræða um Evrópumálin. Meðal þeirra sem hafa nýverið komið á fundi hjá Heimssýn eru Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Birgir Ármannsson, fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar. Von er á fleiri fundum af þessu tagi.

Á myndinni eru Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, og Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra, við upphaf fundarins í fyrrakvöld.