Bréf til félaga í Heimssýn

jon_bjarnasonÁgæti félagi

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, þakkar stuðning þinn og baráttu fyrir málstað hreyfingarinnar og fagnar þeim árangri að Evrópusambandsumsóknin hafi verið stöðvuð. Barátta Heimssýnar og félaga á drjúgan hlut í að skila þeim árangri.

Starfsemin að undanförnu

Framkvæmdastjórnin ásamt varastjórn kemur reglulega saman tvisvar í mánuði og heldur stærri opna fundi um einstök málefni nokkrum sinnum á vetri. Jafnframt er sjónarmiðum Heimssýnar reglulega komið á framfæri á vefjunum www.heimssyn.is, www.heimssyn.blog.is eða með greinarskrifum, viðtölum við fjölmiðla, auglýsingum og fundum.

Heimssýn rekur skrifstofu í Ármúla 4, Reykjavík þar sem jafnframt er fundaraðstaða.

Meðal þeirra sem komið hafa á opna fundi Heimssýnar í vetur eru Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Hörður Kristinsson, ritstjóri Bændablaðsins, Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. Auk þess hafa einstakir stjórnarmenn Heimssýnar greint frá tilteknum málum á sérsviðum þeirra sem lúta að áherslum Heimssýnar.

Baráttan heldur áfram

Þótt umsóknin um aðild að Evrópusambandinu hafi verið stöðvuð hafa ýmis stjórnmálasamtök, hagsmunaðilar og forystumenn þeirra haldið fast við þá skoðun sína að halda beri umsókninni áfram, eða að framhald umsóknarinnar verði lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Heimssýn hefur lagt áherslu á að Alþingi afturkalli umsóknina um aðild að Evrópusambandinu frá 2009 formlega og afdráttarlaust. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu frá 2009 var komin í þrot og ekki hægt að halda henni áfram, nema falla frá fyrirvörum Alþingis sem settir voru í þingsályktunartillögunni, m.a. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu ber að gera það áður en ný umsókn er send. Þar verði spurt: „Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki?“

Inngönguskilyrði Evrópusambandsins liggja öll fyrir. Aðildarsamningum við ESB lýkur ekki fyrr en lög og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar eða tímasett hefur verið hvenær það skuli gert. Ríkisstjórn Íslands verður síðan að skrifa undir samninginn og mæla með samþykkt hans, áður en hann fer til afgreiðslu Alþingis eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekkert til sem heitir „að kíkja í pakkann“

Sambandið er enginn „matseðill“ sem hægt er að velja af, sagði t.d. forseti framkvæmdastjórnar ESB við Breta. Mikilvægt er að gæta sín á þeim sem „bera kápuna lausa á báðum öxlum“ og tala tunguliprir um að „ljúka“ samningum. Staðreyndin er sú að aðildarsamningi við ESB er ekki hægt að ljúka af ESB hálfu fyrr en lög og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar í íslensk lög eða tímasett hefur verið hvenær það skuli gert. Ríkisstjórn Íslands verður síðan að skrifa undir samninginn og mæla með samþykkt hans áður en hann fer til afgreiðslu Alþingis eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þess vegna er svo hættulegt þegar heilir stjórnmálaflokkar og stór hagsmunasamtök hafa það á stefnuskrá sinni að „ljúka“ samningum um inngöngu í ESB. Það verður ekki gert nema að fella fyrst úr gildi fyrirvara Alþingis, t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og samþykkja framsal á fiskveiðiauðlindinni til ESB.

Barátta Heimssýnar fyrir sjálfstæðu og áháðu Íslandi sem standi utan Evrópusambandsins mun því halda áfram. Framundan eru kosningar bæði til forseta lýðveldisins og síðan einnig til Alþingis. Brýnt er að samtökin Heimssýn og einstakir félagar hennar haldi uppi sem öflugastri kynningu og baráttu fyrir málstað hreyfingarinnar og sjálfstæði þjóðarinnar.

Komum baráttumálunum á framfæri

Mikilvægt er að koma baráttumálum Heimssýnar og áherslum að í kosningabaráttunni og halda fast að málum bæði við forsetaframbjóðendur og svo ekki síður að stjórnmálaflokkum og einstökum frambjóðendum þeirra í næstu alþingiskosningum. Það hyggst Heimssýn gera með fundum, spurningum til frambjóðenda og flokka, útgáfustarfi, auglýsingum og öðrum þeim leiðum sem tiltækar eru.

Stefnt er að því að gefa út kynningarblað með haustinu sem dreift verði á heimili landsins og í fyrirtæki. Þar verði baráttumál Heimssýnar rakin og rökstudd,

Við þökkum stuðninginn

Öll þessi starfsemi krefst fjármagns, en Heimssýn reiðir sig á framlög félagsmanna og styrki einstaklinga og fyrirtækja.

Gíróseðlar hafa nú verið sendir til félagsmanna í heimabanka þeirra, þar sem óskað er eftir stuðningi. Allir eru velkomninr að vera félagar i Heimssýn, óháð greiðslum til samtakanna. Er þess vænst að félagsmenn bregðist fljótt og vel við og leggi sitt af mörkum.

Þeir sem ekki fá gíróseðil eða aðrir sem vilja styrkja félagið með hærri upphæðum er bent á bankareikning Heimssýnar : kt. 680602-5810, bankareikningur 101-26-5810.

Virðingarfyllst og með baráttukveðjum,

fyrir hönd Heimssýnar,

Jón Bjarnsson formaður