90 prósent af ESB er utan EES

Aðildarsinnar reyna að telja fólki trú um að í gegnum EES-samninginn séum við með annan fótinn inn í Evrópusambandinu. Að ganga inn í ESB sé þess vegna ekki ýkja stórt skref. Einnig segja aðildarsinnar að við séum í stöðugri aðlögun að Evrópusambandinu á grunni EES-samningsins og því sé ekkert tiltökumál að aðlagast sambandinu enn frekar í aðildarviðræðum.

Sannleikurinn er allt annar. EES samningurinn er innan við tíu prósent af Evrópusambandsaðild. Verulega stórir málaflokkar standa utan EES-samningsins, svo sem landbúnaður, sjávarútvegur, tollamál, viðskiptasamningar við önnur ríki og peningamál.

A árabilinu 2000 til 2009 tóku gildi í Evrópusambandinu samtals 34 733 tilskipanir, reglur og aðrir löggjörningar. Aðeins rúmlega þrjú þúsund (3 119) af þessum löggjörningum fengu gildi í EES-samningnum, eða 8,9 prósent.

Þessar upplýsingar koma fram í grein sem Heming Olaussen formaður Nei til EU í Noregi skrifar og byggir á ítarlegri greiningu á löggjörningum í ESB og áhrif á EES-samninginn.