Aðlögun leiðir til innlimunar

Aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að kröfum Evrópusambandsins mun leiða til innlimunar Íslands án þess að þjóðin fá rönd við reist. Ráð­gefandi þjóðaratkvæðagreiðsla í lok aðlögunar, eftir 3 til ­5 ár, er markleysa þar sem Ísland væri í reynd orðið hluti af Evrópusambandinu. Aðeins ein leið er inn Evrópusambandið og það er leið aðlögunar.

Í útgáfu Evrópusambandsins stendur skýr­um stöfum:

,,Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika að orðið ,,samningaviðræður” getur verið villandi. Aðlögunarviðræður eru með áherslu á skilyrði ESB og tímasetningar á þvi að umsóknarríki taki upp, innleiði og framkvæmi ESB­reglur, um 90 þúsund blaðsiður. Þessar reglur (kallaðar ,,acquis” sem er franska og þýðir það sem hefur verið samþykkt) eru ekki umsemjanlegar. Hvað umsóknarríki varðar er kjarni málsins hvernig og hvenær það aðlagar sig reglum og ferlum ESB. Hvað ESB varðar er mikilvægt að fá tryggingar fyrir tímasettri og skilvirkri aðlögun umsóknarríkis.”

(Enlargement, The European Union’s enlargement policy /European Commission, Directorate
General for Enlargement, 2007, bls. 9)

Alþingi gaf ríkisstjórninni ekki umboð til að fara í aðlögunarviðræður. Þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu var eftirfarandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.”

Hvergi í greinargerð er getið um að aðlögun að regluverki ESB sé hluti af viðræðuferlinu. Þar af leiðir að ríkisstjórnin er umboðslaus.