Afstaða utanríkisráðherra á skjön við veruleikann

Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru orðnar aðlögunarferli og bændur krefjast þess að staða landbúnaðar í aðildarviðræðum verði skýrð. Þetta kemur fram á forsíðu Bændablaðsins sem kom út í dag. Í fréttinni kemur fram að Bændasamtök Íslands hafi sent utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis bréf ,,þar sem þess er krafist að staða landbúnaðar í samningaferlinu við ESB verði skýrð”. Þar segir einnig: ,,Ef fram fer sem horfir verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild marklaus enda verði búið að innleiða regluverk Evrópusambandsins hér á landi áður en til hennar kemur”.

Haft er eftir Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtakanna, að samningsferlið feli í sér aðlögun að reglum ESB og að aðlögun að stjórnkerfi ESB sé þegar hafin í ýmsum málaflokkum. Slíkt sé í fullri andstöðu við það sem sagt var þegar umsókn Íslands um aðild var send. Formaður Bændasamtakanna segir að ,,við bændur krefjumst þess því að tekin verði af öll tvímæli um þessi mál.”