Aldrei meiri andstaða við inngöngu í ESB

Ný skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins og birt var í gær sýnir meiri anstöðu við inngöngu í Evrópusambandið en nokkurn tímann áður. Samkvæmt könnuninni eru 43,2% Íslendinga óánægð með umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í sambandið en 39,6% eru ánægð með hana. Meira en helmingur Íslendinga, eða 50,2%, eru andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 32,7% hlynnt.

Ennfremur sögðust 61,5% greiða atkvæði gegn inngöngu í Evrópusambandið ef kosið yrði um málið í þjóðaratkvæði nú en 38,5% að þau myndu styðja hana. Af þeim sögðust 38,6% að þau myndu örugglega kjósa gegn inngöngu en aðeins 16,1% að þau myndu örugglega greiða atkvæði með henni. Skoðanakönnunin var gerð dagana 25. ágúst til 10. september, úrtakið var 1649 manns og svarhlutfallið 52,3%.

Heimildir:
Fleiri andvígir en hlynntir ESB-aðild (Morgunblaðið 15/09/09)
Andstaðan við aðild að ESB er í hámarki (Vísir.is 15/09/09)
Andstaða við Evrópu­sambandsaðild í hámarki (Amx.is 15/09/09)