“alveg hægt” að ganga úr ESB

Í Fréttablaðinu 28. september er fréttaviðtal við Dr. Magnús Bjarnason sem nýlega gaf út bók um kosti íslands á 21. öld. Fréttablaðið hefur það meðal annars eftir Dr. Magnúsi að það sé alveg hægt að ganga úr sambandinu og hann bætir við “það var neglt í Lissabon sáttmálanum skýrar en áður. Þar er gert ráð fyrir því að ef ríki fari úr því verði gerðir vinveittir samningar við það, ríkið fari ekki á kaldann klaka. Hins vegar sé ekki ljóst hvort hægt yrði að taka aftur upp óbreyttan EES saminginn”.
 
Dr. Magnús er ekki einn um að telja “alveg hægt” að ganga úr ESB. Á vef Samfylkingingarinnar er möguleikinn á úrsögn úr ESB afgreiddur með þessum skýringum:
“Engin ESB-þjóð hefur óskað eftir að segja sig úr ESB – nema Grænlendingar sem gengu úr ESB árið 1985. Þeir njóta þó óbeinna ávinninga af aðild – þar með af tengingu við evruna – með ríkjasambandi sínu við Danmörku. Úrsögn Grænlendinga var vandalaus á sínum tíma. Ekkert formlegt úrsagnarákvæði er þó í samningum ESB, en slíkt ákvæði er að finna í Lissabonsamningnum frá 2007 sem enn bíður staðfestingar.
Ljóst er að úrsögn er engum pólitískum vandkvæðum háð – en það er athyglisvert að slíkur kostur er ekki ræddur í alvöru í neinu ESB-ríki, jafnvel ekki Bretlandi þar sem aðildin hefur verið hvað umdeildust.”
Jú það er rétt að Grænlendingar gengu úr ESB árið 1985. En samt skrýtið og í raun villandi að taka Grænland sem fordæmi um úrsögn Íslands þar sem Grænland er hluti af Danaveldi en ekki sjálfstætt og fullvalda ríki eins og Ísland. Grænlendingar eru ennþá ESB borgarar því þeir eru þegnar Danmörku. Í lögum ESB er gert ráð fyrir því að nýlendur eins og Grænland séu með nokkurs konar óbeina aðild gegnum nýlenduveldið sem annast megnið af viðskiptum nýlendunnar við ESB og umheiminn. Stærstur hluti inn- og útflutnings Grænlands er einmitt við Danmörku. 
Samfylkingin lýsir ekki úrsagnarferlinu nánar og hefur ekki áhyggjur af “pólitískum vandkvæðum” við úrsögn. En hvað þá með augljós efnahagsleg og lagaleg vandkvæði? Þau eru fjölmörg og sem dæmi væri ekki hægt að afturkalla breytt eignarhald á útvegsfyrirtækjum, jörðum og fleira í þeim dúr. Úrsögn myndi breyta viðskiptaumhverfi útfluningsfyrirtækja og kalla á kostnaðarsama aðlögun að breyttum aðstæðum.
Það að “úrsögn sé ekki á dagskrá hjá neinu ESB ríki” telst varla rök með því að úrsögn úr ESB sé auðveld. Það gæti miklu frekar verið vísbending um að úrsögn úr ESB sé í raun svo erfið að aðildarríki kjósi frekar að bera harm sinn í hljóði og þrauka.
 
Í 50. grein Lissabon sáttmálanans er vissulega fjallað um úrsögn úr sambandinu en ekkert sagt um hvernig samning ríkið fær í staðinn. Aðildarríki geta sagt sig úr ESB með tveggja ára fyrirvara. Þá taka við samningar við úrsagnarríkið og vísað í grein 218(3) en þar er bara fjallað almennt um samngingagerð ESB við ríki utan sambandsins. Dr. Magnús kýs að kalla þetta “vinveitta samninga” en í grein 218(3) er bara fjallað um að gæta skuli hagsmuni ESB við gerð milliríkjasamninga. 
 
Í samningum við úrsagnarríki felast hagsmunir ESB meðal annars í því að hagur úrsagnarríkisins batni ekki frá því sem var. Ef hagur þess yrði áberandi betri við úrsögn myndi aðildarríkjum ESB væntanlega fækka með undraskjótum hætti. Þetta hlýtur að vera augljóst.
 
Einnig er rétt að minna á að við inngöngu í ESB falla milliríkjasamningar Íslands úr gildi enda yrðum við þá aðilar að þeim milliríkjasamningum sem ESB hefur gert. Þegar milliríkjasamningar eru einu sinni felldir úr gildi verða þeir ekki endurvaktir við það eitt að ganga aftur úr ESB. 
 
Það getur tekið áratugi að byggja upp sambærilega milliríkjasamninga og á meðan myndi Ísland fara á mis við þann ávinning sem núverandi samningar hafa fært okkur. Aðild að EES samningnum er ekki sjálfkrafa í boði ef við göngum úr ESB.
Svo má líka benda á að við úrsögn úr ESB gæti Ísland ekki lengur verið fullgildur aðili að myntsamstarfi ESB. Ísland myndi þurfa að gefa út eigin gjaldmiðil sem væri þó mikið hættuspil nema efnahagur landsins væri talinn gríðarlega traustur á því augnabliki. Ef minnsti grunur væri á gengisfellingu nýja miðilsins myndi úrsögn leiða til stórfellds fjármagnsflótta frá landinu.
 
Af þessari upptalningu má vera ljóst að það er miklu auðveldara að ganga í ESB en að ganga úr því og eftir að evra hefur verið tekin upp sem gjaldmiðill myndi úrsögn úr ESB verða gríðarlegt hættuspil. Aðildarríki gera sér líklega grein fyrir þessum staðreyndum og láta sig því ekki dreyma um úrsögn hversu illa sem þeim kann að líka vistin í sambandinu.
 
Innganga í ESB verður vart aftur tekin.