Ásmundur formaður, Unnur Brá varaformaður

Ásmundur Einar Daðason var endurkjörinn formaður Heimssýnar á landsfundi á laugardag. Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins var kosin varaformaður. Í setningarræðu sinni sagði Ásmundur Einar að vegna baráttu Heimssýnar væri umsóknin í uppnámi. Stuðningur við umsóknina færi þverrandi. ,,Annar ríkisstjórnarflokkurinn er í miklum vandræðum vegna málsins og enginn stjórnarandstöðuflokkanna vill koma nálægt þessu eitraða peði,” sagði Ásmundur og bætti við að ekki væri spurning hvort heldur hvenær umsóknin sigldi í strand.

Stefán Jóhann Stefánsson hagfræðingur flutti erindi um evruna á landsfundinum og fór yfir óvissuna sem umlykur myntsamstarf evruríkjanna.