Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, ræðir lýðræðismál í tengslum við ESB á fundi með Heimssýn

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hafði framsögu um ESB-málin á opnum stjórnarfundi Heimssýnar sem haldinn var í Iðnó í fyrrakvöld. Ásta Guðrún svaraði svo spurningum fundarmanna og tók þátt í líflegum umræðum um ýmsa þætti ESB-málanna. Meðal þess sem kom fram hjá Ástu var að Píratar vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda skuli áfram viðræðum um aðild Íslands að ESB eða ekki.

Ásta nefndi ýmsa kosti þess að vera hluti af ESB, og nefndi sérstaklega jafnréttismál í því samhengi og einnig friðarmál, en tiltók einnig neikvæð atriði sem því fylgdi eins og aukið skrifræði.

Ásta fullyrti að umsókn Íslands að ESB væri í raun í fullu gildi og að með bréfi utanríkisráðherra til ESB hefði verið gengið framhjá þinginu. Hún sagði jafnframt að ef hætta ætti viðræðum þyrfti að semja sérstaklega um það við ESB. Þegar talið barst að undanþágum frá ákvæðum sem hingað til hafa gilt hjá ESB, t.d. varðandi fiskveiðimál, var á Ástu að skilja að hún teldi ESB væri þess eðlis að það gæti ekki veitt neinar varanlegar undanþágur frá regluverki um slíka hluti. Hins vegar sagði hún það skoðun sína að það yrði að halda áfram samningaviðræðum til þess að sjá hvað út úr þeim kæmi.

Almennt var gerður góður rómur að málflutningi Ástu þótt fundarmenn hefðu margir hverjir aðrar skoðanir og í sumu annan skilning á stöðu mála og var ljóst að umræðan var hvergi nærri tæmd á þeim tíma sem til umráða var. Því er þess vænst að við fáum að eiga orðastað við þingmenn Pírata aftur áður en langt um líður.

Heimssýn hefur fengið fulltrúa ýmissa stjórnmálaflokka á fund með sér til að ræða um Evrópumálin. Meðal þeirra sem hafa nýverið komið á fundi hjá Heimssýn eru Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Birgir Ármannsson, fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar. Von er á fleiri fundum af þessu tagi.

Á myndinni eru Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, og Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra, við upphaf fundarins í fyrrakvöld.

Ný framkvæmdastjórn Heimssýnar

Á stjórnarfundi Heimssýnar 11. þessa mánaðar var lokið við að kjósa nýja framkvæmdastjórn samtakanna. Hún er nú þannig skipuð: Formaður er Jón Bjarnason og varaformaður er Jóhanna María Sigmundsdóttir, en þau voru kjörin sérstaklega á nýlegum aðalfundi Heimssýnar. Ritari var svo kjörin Halldóra Hjaltadóttir og gjaldkeri Erna Bjarnadóttir. Aðrir í framkvæmdastjórn voru kjörin: Stefán Stefánsson, Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ásgeir Geirsson og Ólafur Hannesson. Varafulltrúar í framkvæmdastjórn voru kjörin: Guðni Ágústsson, Gunnlaugur Ingvarsson, Haraldur Ólafsson, Ívar Pálsson, Kristinn Dagur Gissurarson, Ragnar Arnalds, Sif Cortes, Sigurður Þórðarson, Styrmir Gunnarsson, Þollý Rósmundsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson.

Heimssýn hefur nú flutt aðsetur sitt og er skrifstofa samtakanna nú í Ármúla 6, 108 í Reykjavík.

Íslenskur diplómati fékk nóg af Brussel og þjónkun við stórveldi álfunnar

Stundin birtir athyglistvert viðtal við Einar Hannesson lögfræðing sem gerðist sendifulltrúi fyrir Ísland í Brussel á sviði samgöngu-, fjarskipta- og ferðamála. Fyrst fannst honum auðvitað gaman að kynnast Brussel og sinna nýjum verkefnum. Ljóminn fór þó fljótt af verunni í ESB-borginni og honum fannst skriffinnskan aðallega snúast um að sinna hagsmunum stórveldis en ekki að þjóna hagsmunum almennings.

Sjón er sögu ríkari. Hér er hluti af viðtalinu við Einar í Stundinni endurbirtur:

Mér var svo árið 2002 sparkað upp í að verða diplómati fyrir Ísland á sviði samgöngu-, fjarskipta- og ferðamála. Ég flutti þá til Brussel og var í því starfi í eitt og hálft ár. Ég hætti þá að vinna fyrir íslenska ríkið en mér tókst að láta Eftirlitstofnun EFTA ráða mig eftir samkeppnis- og umsóknarferli. Það var mikið ævinýri að vera í Brussel sérstaklega framan af en svo fannst mér ljóminn aðeins vera farinn af þessu undir lokin. Þetta er sérstakur heimur og hálfgerð bóla. Teknar eru mikilvægar ákvarðanir um framtíð álfunnar í Brussel sem er skemmtileg borg til að búa í. Ég fékk hins vegar nóg. Ég fór aldrei að vinna hjá ríkinu til að verða skriffinni heldur til að þjóna almenningi. Þetta er svo mikið kerfi og hlutirnir gerast svo hægt og maður sér ekki nógu mikinn árangur erfiðisins þannig að þetta varð í staðinn spurning um þægilegt líf og vel borgaða innivinnu.

Manni finnst Evrópusambandið ekki vera að þróast í rétta átt og þess vegna fannst mér þetta frústrerandi. Ég skynjaði ákveðna breytingu á ESB frá því að vera bandalag um aukið frjálsræði í atvinnulífinu og fyrir fólkið – þessi fjórfrelsisprinsípp sem eru gríðarlega góð – en þetta var farið að þróast út í einhverja stórveldisdrauma Frakka um heimsyfirráð. Þetta voru eins og margir feitir kettir sem vildu bjór, góðar máltíðir og hátt kaup.

Nýkjörin stjórn Heimssýnar

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Heimssýnar fimmtudaginn 22. október 2015. Formaður var kjörinn Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og Alþingisþingmaður og varaformaður var kjörin Jóhanna María Sigmundsdóttir, bóndi og Alþingisþingmaður.

Aðrir í stjórn voru kjörin:

Anna Ólafsdóttir Björnsson
Ásdís Helga Jóhannesdóttir
Ásgeir Geirsson
Ásmundur Einar Daðason
Birgir Örn Steingrímsson
Bjarni Harðarson
Elísabet Svava Kristjánsdóttir
Erna Bjarnadóttir
Frosti Sigurjónsson
Gísli Árnason
Guðjón Ebbi Guðjónsson
Guðni Ágústsson
Gunnar Guttormsson
Gunnlaugur Ingvarsson
Halldóra Hjaltadóttir
Haraldur Hansson
Haraldur Líndal
Haraldur Ólafsson
Hörður Gunnarsson
Ívar Pálsson
Jakob Kristinsson
Jón Árni Bragason
Jón Ríkharðsson
Jón Torfason
Kristinn Dagur Gissurarson
Lilja Björg Ágústsdóttir
Óðinn Sigþórsson
Ólafur Egill Jónsson
Ólafur Hannesson
Páll Vilhjálmsson
Ragnar Arnalds
Ragnar Stefán Rögnvaldsson
Sif Cortes
Sigurbjörn Svavarsson
Sigurður Þórðarson
Stefán Stefánsson
Styrmir Gunnarsson
Viðar Guðjonshen
Vigdís Hauksdóttir
Þollý Rósmundsdóttir
Þorvaldur Þorvaldsson
Þóra Sverrisdóttir

Ísland er ekki lengur umsóknarríki

Í dag afhenti Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, Edgars Rinkevics, sem nú gegnir formennsku í Evrópusambandinu, bréf þess efnis að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að sambandinu. Af því tilefni ræddi fréttavefurinn Visir.is við Jón Bjarnason, formann Heimssýnar, sem sagði að þetta hefði bara verið ánægjulegt og eðlilegt skref.

Jafnframt sagði Jón það vera ríkisstjórnarinnar að meta þetta en umsóknin sem slík hefði fyrir löngu verið komin í pólitískt og efnislegt strand. Síðan sagði Jón: “Þetta gat engan veginn haldið áfram. Á síðasta vetri fékk þingið nákvæma greinargerð [skýrslu Hagfræðistofnunar] um það að ekki væri hægt að halda áfram inngönguferlinu á grundvelli þeirra fyrirvara sem Alþingi setti. Evrópusambandið krafðist fullra yfirráða yfir fiskimiðunum til dæmis.“

Sjá hér viðtalið við Jón Bjarnson, formann Heimssýnar.

60 prósent landsmanna eru andvígir inngöngu í ESB

Þegar reiknað er með þeim sem taka afstöðu í könnun sem Capacent gerði fyrir Heimssýn eru 60 prósent sem vilja ekki að Ísland gangi í ESB. Þegar tekið er mið af því að 18% svarenda eru hvorki hlynntir né andvígir inngöngu þá eru 32,8% fylgjandi og 49,1% andvíg inngöngu.

Könnun Capacent var framkvæmd  á bilinu 29. janúar til 5. þessa mánaðar. Þetta var netkönnun og var úrtakið 1450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarshlutfall var 60,6%, sem telst vera nokkuð gott.

Meðal íbúa Reykjavíkur og allra annarra sveitarfélaga voru þeir fleiri sem voru andvígir inngöngu í ESB. Jafnframt voru þeir fleiri meðal allra aldurshópa sem voru andvígir inngöngu. Hið sama gilti um kynin. Þar voru þeir einnig fleiri, bæði meðal karla og kvenna sem voru andvíg inngöngu í ESB. Tíu prósentum fleiri karlar reyndust andvígir inngöngu en meðmæltir. Munur meðal kvenna er enn meiri. Meðal þeirra eru tuttugu og fjórum prósentum fleiri sem eru andvígir inngöngu en hlynntir.

Opinn stjórnarfundur Heimssýnar

Á morgun, miðvikudaginn 4. febrúar, verður haldinn opinn stjórnarfundur Heimssýnar um stöðuna í Evrópusambandsmálunum hér heima og erlendis, ekki hvað síst í ljósi nýafstaðinna kosninga í Grikklandi.

Sérstakur gestur fundarins er Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins.

Fundurinn verður haldinn á Hótel Sögu og hefst klukkan 20.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum Heimssýnar.

Stjórn Heimssýnar

Stjórn Heimssýnar

Stjórn Heimssýnar á starfsárinu 2014 til 2015 skipa eftirfarandi: Jón Bjarnason formaður, Jóhanna María Sigmundsdóttir varaformaður, Halldóra Hjaltadóttir ritari, Erna Bjarnadóttir gjaldkeri.

Framkvæmdastjórn skipa auk ofangreindra: Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Ásgeir Geirssonm, Stefán Stefánsson, Vigdís Hauksdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson.

Aðrir í stjórn eru:  Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgir Örn Steingrímsson, Bjarni Harðarson, Elísabet Svava Kristjánsdóttirn, Frosti Sigurjónsson, Gísli Árnason, Guðjón Ebbi Guðjónsson, Guðni Ágústsson, Gunnar Guttormsson, Gunnlaugur Ingvarsson, Haraldur Hansson, Haraldur Ólafsson, Hörður Gunnarsson, Ívar Pálsson, Jakob Kristinsson, Jón Árni Bragason, Jón Ríkharðsson, Jón Torfason, Kristinn Dagur Gissurarson, Lilja Björg Ágústsdóttir, Óðinn Sigþórsson, Ólafur Egill Jónsson, Ólafur Hannesson, Páll Vilhjálmsson, Pétur H. Blöndal, Ragnar Arnalds, Ragnar Stefán Rögnvaldsson, Sif Cortes, Sigurbjörn Svavarsson, Sigurður Þórðarson, Styrmir Gunnarsson, Viðar Guðjonshen, Þollý Rósmundsdóttir og Þóra Sverrisdóttir.

Ávarp Atla Harðarsonar á hátíðarfundi Heimssýnar 1. desember 2014

Atli Harðarson, heimspekingur og lektor við Háskóla Íslands, flutti hátíðarávarp á fullveldishátíð Heimssýnar á Hótel Sögu 1. desember 2014. Hann hefur gefið leyfi sitt fyrir birtingu ávarpsins.

Ávarp á fundi Heimssýnar, 1. des. 2014

Gleðilega hátíð. Um leið og ég þakka fyrir að vera boðið að koma hér og tala við ykkur ætla ég að vara ykkur við. Það sem ég hyggst segja skil ég sjálfur ekki nema til hálfs. Ég ætla að tala um lýðræði. Minn takmarkaði skilningur á því er sóttur í gamlar bækur fremur en reynslu af stjórnmálum – enda hef ég aldrei komist lengra í alvörupólitík en að vera varamaður í bæjarstjórn.

Lýðræðið sem við lifum við á sér sögu. Það tók að dafna hér á Norðurlöndum fyrir 200 árum síðan. Það var 1814 sem hópur Norðmanna kom saman á Eiðsvelli og sammæltist um að í landi sínu skyldu þjóðfrelsi og frjálsmannlegir samfélagshættir fara saman. Næsti stóráfangi í vegferð norrænna landa til lýðræðis var þegar Danir kollvörpuðu einveldinu árið 1849 og settu Júnístjórnarskrána með hliðsjón af því sem Norðmenn höfðu gert 35 árum fyrr. Annar af aðalhöfundum hennar var Orla Lehmann. Hann spáði því að lýðræði og frjálsmannlegir stjórnarhættir („demokrati og fri forfatning“) myndu gera Norðurlöndin mikil og gefa þeim þýðingu fyrir allan heiminn. Spá hans hefur þegar ræst að nokkru og það er meðal annarra á okkar valdi hvort hún heldur áfram að rætast.

Þessi skref í átt til lýðræðis voru áfangar á leið sem síðan er orðin býsna löng. Lýðræði er enn að mótast og það er hvergi fullskapað. Það var heldur ekki fundið upp á nítjándu öld. Hugsjónum um lýðræði bregður fyrir í ritum síðan í fornöld, eins og til dæmis þeim tveim stórvirkjum grískrar sagnfræði sem nýlega eru komin út á íslensku. Hér á ég við sögu Heródótosar af Persastríðunum, sem Stefán Steinsson þýddi og kom út fyrir ári síðan hjá Máli og menningu, og sögu Þúkýdídesar af Pelópseyjarstríðinu sem Sigurjón Björnsson þýddi og er nýkomin út hjá Sögufélaginu. Rökræður, hugsjónir og drauma um lýðræði er líka að finna í ritum heimspekinga frá frá ýmsum tímum. Sumt af þeim skrifum gaf byltingamönnum á Englandi, í Bandaríkjunum og Frakklandi innblástur þegar þeir hröktu kónga frá völdum á sautjándu og átjándu öld og lögðu drög að stjórnskipan sem var að einhverju leyti í anda lýðræðis.

Það sem draumar um lýðræði eiga sameignlegt er að þeir snúast um að yfirstjórn ríkisins sé ekki viðfangsefni fáeinna útvalinna heldur margra – best sé að almenningur eigi þess kost að hafa áhrif. Þetta samkenni lýðræðishugsjóna er jafnt að finna í fornum sögum Heródótosar og Þúkýdídesar og heimspekiritum seinni tíma manna – og þar á ég bæði við róttæka hugsuði eins og Rousseau og Marx og borgaralega þenkjandi spekinga eins og Locke og Mill. Hjá þeim öllum snýst lýðræði um að lýðurinn ráði. Það segir sig kannski sjálft og liggur í orðanna hljóðan hvort sem við tölum íslensku og segjum „lýð-ræði“ eða slettum grísku, eins og gert er í mörgum málum, og tölum um „demó-kratíu“. Orðið „demos“ merkir almenning og sögnin „krateo“ þýðir að stjórna einhverju eða hafa tök á því.

Það sem ég hef sagt er tæpast nein stórtíðindi. En kannski kem ég einhverjum á óvart þegar ég bæti því við að þessi hugsjón um vald almennings á eigin málum er tvíhliða eins og við sjálf. Hún stendur á tveim fótum. Annar þeirra er ansi veikur um þessar mundir svo skepnan haltrar. Og nú er líklega rétt að ég skýri hverjir þessir tveir fætur eru og hvor er sá halti.

Önnur hliðin á lýðræðishugsjóninni er stundum kennd við lýðveldi. Á ensku er talað um „republicanism“ eða „civic humanism“. Þetta er sú hlið sem er ríkjandi í fornum sagnfræðiritum. Þeim sem leggja áherslu á hana finnst lýðræði snúast um að almennir borgarar eigi þess kost að ráðgast um mál samfélagsins og hafa áhrif, einkum á það sem mestu skiptir, það sem líf þeirra og velferð veltur á. Menn laga líf sitt að þessum hluta lýðræðisins með því að taka borgaralegar skyldur alvarlega, rökræða almannaheill, gefa samfélaginu hluta af tíma sínum og kröftum og vera tilbúnir að taka mál í eigin hendur.

Hin hliðin á lýðræðishugsjóninni er oft kennd við frjálslyndi. Kjarni hennar er að yfirvöld þurfi að leggja verk sín í dóm kjósenda og vald þeirra sé takmarkað af stjórnarskrá og mannréttindum. Þeir sem leggja áherslu á þessa hlið lýðræðisins hneigjast til að líta á sjálfa sig sem einstaklinga með réttindi fremur en borgara með skyldur.

Að mínu viti hlýtur farsælt lýðræði að hafa báðar þessar hliðar og standa á tveim fótum. Við þurfum að líta á sjálf okkur í senn sem borgara með skyldur og einstaklinga með réttindi. Ég veit ekki hvort þessar tvær hliðar hafa nokkurn tíma náð að vera í góðu jafnvægi. Kannski hefur allt lýðræði til þessa verið halt og skakkt. Síðustu þrjátíu eða fjörtíu ár hefur sú hliðin sem ég kenni við frjálslyndi fengið aukinn styrk víða um lönd, en hin sem ég kenni við lýðveldið misst mátt í flestum ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku og trúlega víðar.

Tíminn sem við lifum, þessir síðustu þrír eða fjórir áratugir, eru stundum kenndir við nýfrjálshyggju, einkum af þeim sem hafa horn í síðu markaðsbúskapar og alþjóðavæðingar. Það mætti kannski eins kenna þá við mannréttindi eða einstaklingshyggju. Lykilatriðin í stjórnmálaumræðu nútímans eru markaður og mannréttindi.

Margt hefur verið sagt um markaðsvæðingu síðustu áratuga. Það er misgáfulegt og ég ætla ekki að bæta þar við. Umræða um mannréttindi hefur líka verið í sókn þó minna hafi verið reynt til að greina áhrif hennar á lýðræðið. Til marks um þessa sókn mannréttindanna hér á landi má hafa, að frá árinu 1900 til ársins 1975 kom orðið „jöfnuður“ um fjórfalt oftar fyrir í íslenskum blöðum heldur en orðið „mannréttindi“. Hér á ég við þau blöð sem liggja frammi á vefnum timarit.is. Eftir 1975 urðu þessi orð álíka algeng og á síðustu árum kemur orðið „mannréttindi“ mun oftar fyrir en orðið „jöfnuður“. Eftir 2007 er það til dæmis 1,9 sinnum algengara í þeim ritum sem vistuð eru á timarit.is. Svipaða sögu er að segja ef borin er saman tíðni umræðu um mannréttindi og jafnrétti. Þetta gildir ekki bara hér á landi heldur virðist svipað uppi á teningnum víða.

Hvernig tengist þessi aukna áhersla á mannréttindi bæklaðri borgarvitund og höltu lýðræði og hvernig er háttað samleik mannréttinda og markaðsvæðingar?

Ég held að í stuttu máli megi segja að þessi tvö orð, „markaður“ og „mannréttindi“ séu höfð um viðleitni sem á meira sameiginlegt en augljóst er við fyrstu sýn. Þau eru bæði notuð til að gera það sem mestu skiptir fyrir kjör fólks ópólitískt í augum þess, eitthvað sem menn eiga ekki að ráða ráðum sínum um eða ákveða út frá eigin sýn á almannahag. Umræðan um markaðinn hefur verið á þeim nótum að hann sé utan við stjórnmál – pólitísk afskipti af efnahagslífinu séu einhvers konar villa. Umræðan um mannréttindi er líka á þeim nótum að þau séu utan við pólitíkina – eitthvað sem tilheyrir öllum mönnum vegna þess að þeir eru menn og stjórnvöld eiga að viðurkenna og þjóna en ekki ákveða.

Í þessari goðafræði nútímans virðist eins og gert ráð fyrir að um þau efni sem mestu varðar sé ekkert hægt að ákveða: Það sé bara til ein rétt gerð af reglum fyrir markaðinn, sem sér okkur fyrir neysluvörum; einn réttur listi af mannréttindum, sem tryggir réttlæti og velferð handa öllum; og þetta tvennt dugi til að skapa farsælt samfélag. Lýðræði er þó ekki hafnað af þeim sem tigna markaðinn og mannréttindin. Þeir vilja flestir halda í þá hlið þess sem kennd er við frjálslyndi, því það fylgir sögu hjá þeim að ríkið eigi að sjá til þess að allt fari eftir réttum reglum – til þess þurfi kosningar svo almenningur geti fellt stjórnvöld sem eru spillt eða standa ekki fagmannlega að verki.

Þessi hugmynd um lýðræði, sem hefur orðið ágeng síðustu áratugi, rúmar ekki borgara með skyldur. Fólk er fyrst og fremst einstaklingar með réttindi – og þegar verst lætur neytendur með réttindi. Það er ekki nóg með að mynd nútímans af lýðræði rúmi illa almenna þátttöku í stjórnmálum eða starfi stjórnmálaflokka. Hún ýtir undir mjög óvægna dóma um venjulegt fólk sem vogar sér að hafa áhrif og flaskar á einhverjum tæknilegum atriðum, vefst tunga um tönn eða verður eitthvað lítilræði á eins og gengur.

Þó hugmyndir um fagmannleg stjórnmál og ópólitískan rétt séu ágengar sýnist mér sumt í þeim næsta fjarstæðukennt. Þetta er ekki vegna þess að ég haldi að markaðsbúskapur og mannréttindi séu einhver vitleysa. Farsælt mannlíf þarf á hvoru tveggja að halda. Þessar hugmyndir eru fjarstæða vegna þess að látið er eins og markaður og mannréttindi séu hafin yfir pólitík, ákvarðanir, samráð, stundlega hagsmuni og staðbundnar aðstæður. En veruleikinn er sá að bæði markaðir og mannréttindi geta verið á marga vegu og oft er háð stund og stað hvað er rétt og ráðlegt. Um hvort tveggja eru að sjálfsögðu teknar ákvarðanir – ef ekki með lýðræðislegum hætti þá af einhverjum útvöldum.

Það er tæpast hægt að ljúka ræðuhöldum á þessari samkomu og á þessum degi án þess að segja fáein orð um Evrópusambandið. Þegar rætt er um takmarkað lýðræði innan þess er oftast átt við að þeir sem mynda framkvæmdastjórnina og ráðherraráðið þurfi ekki að standa almenningi reikningsskap ráðsmennsku sinnar. Það virðist yfirleitt gert ráð fyrir að það hálfa lýðræði sem ég hef lýst dugi og yfirstjórn Sambandsins eigi að passa að fólk njóti réttinda sinna og markaðirnir fari eftir réttum reglum. Þeir sem hafa þessa hálfu sýn sjá ekki að neitt vanti nema lýðræðislegt aðhald. Sumir þeirra sjá að vísu að þetta eitt er mikil vöntun og alvarleg. Reynsla Evrópuþjóða af stjórnvöldum sem ekki þurfa að óttast kosningar er skelfileg, svo ekki sé meira sagt. En þrátt fyrir það virðist mér að einhliða áhersla á neytendur með réttindi fremur en borgara með skyldur sé til þess fallin að Sambandið líti heldur skár út en það gerir ef við höfum heillega mynd af lýðræðinu. Innan Evrópusambandsins geta almennir borgarar svo sem haft staðbundna stjórn og gripið inn í alls konar smámuni. Ég er hræddur um að inngrip í eitthvað á stærð við til dæmis Icesave-málið sé hrein fjarstæða.

Það er hægt að hugsa sér að bæta einhvers konar lýðræðislegu aðhaldi við regluverk stórríkis margra þjóða. Það er jafnvel hægt að vona að það verði gert. Þeim sem hugsa um samfélagið sem hóp neytenda með réttindi þar sem ópólitískur markaður fóðrar neysluna og ópólitísk yfirvöld tryggja réttindi, sem eru eins og af himnum ofan og enginn getur ákveðið neitt um – þeim þykir kannski best að markaðurinn sé sem stærstur og ríkið líka. Það er væntanlega einhver stærðarhagkvæmni í þessu eins og fleiru. En ef menn hugsa um sjálfa sig sem borgara með skyldur, líta á það sem sitt hlutverk að vera við þar sem menn ráða ráðum sínum um efni sem mestu varða – hljóta þeir þá ekki að verja þann eina vettvang þar sem er kostur á að vera skyldurækinn borgari? Á slíkum vettvangi þarf, að ég held, að vera samkennd og sameiginlegur skilningur. Sameiginlegt tungumál hjálpar. Mannréttindi og samskipti á markaði krefjast þess hins vegar ekki að menn eigi annað sammerkt en mennskuna.

Ég held að til þess að lifa saman sem borgarar með skyldur þurfum við að hafa taugar hvert til annars – helst að þykja vænt um samfélag okkar og vera til í að leggja nokkuð á okkur. Þessi hlið lýðræðisins er kannski fremur von en veruleiki. En ég held, eins og Orla Lehman gerði fyrir rúmlega einni og hálfri öld, að erindi okkar við heiminn velti á því að við höldum í þessa von. Það getum við tæpast gert eins og nú háttar nema við varðveitum þjóðríkið. Það er eini vettvangurinn sem við höfum fyrir lýðræði sem stendur báðum fótum á jörðinni.