Bændasamtökin alfarið andvíg aðild að ESB

Stjórn Bændasamtaka Íslands ætlar að berjast gegn hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu, meðal annars á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Stjórn Bændasamtakanna heimsækir bændur víðs vegar um landið þessa dagana og ræðir við þá um ýmis mál, svo sem miklar hækkanir á aðföngum, hærri fjármagnskostnað, væntanlegt matvælafrumvarp, og síðast en ekki síst efnahagsþrengingar. Slíkur fundur var haldinn í Skagafirði í dag, og þar var hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu sérstaklega rædd. Stjórn Bændasamtakanna hefur tekið afstöðu, hún er á móti aðild.

Svana Halldórsdóttir, sem er í stjórn Bændasamtaka Íslands, segir að með Evrópusambandsaðild færist yfirstjórnin úr landi, tildæmis verðlagsmál. Og hún bendir á að kjör bænda í mörgum löndum sem gengu í sambandið hafi versnað í kjölfarið. Í kjölfar aðildar legðist búskapur af sumsstaðar.

Heimild:
Bændasamtökin gegn aðild að ESB (Rúv.is 25/11/08)