Ballið er rétt að byrja

eftir Stefni Húna Kristjánsson, formann Ísafoldar – félags ungs fólks gegn ESB-aðild

Erfiðleikum á evrusvæðinu er hvergi nærri lokið og næstu ár munu reynast erfið ef marka má stefnumörkun Evrópusambandsins í málefnum ríkja í skuldavandræðum. Nýlega var ákveðið að veita Grikklandi björgunarlán í annað sinn og sækir því áleitin spurning á undirritaðan. Var fyrsta lánið ekki nóg og mun seinna lánið bjarga Grikklandi úr þeim ógöngum sem það er komið í?

Lánið er í þetta sinn 130 billjónir evra eða um 2 milljónir íslenskra króna á hvern íbúa á Grikklandi.  Er með þessu verið að greiða fjárfestum og kröfuhöfum, búa því næst til nýtt risavaxið lán sem er háð skilyrðum á borð við mikinn niðurskurð og einkavæðingu.  Jú, vissulega má segja að þetta sé Grikkjum sjálfum að kenna og það var jú ríkistjórn Grikklands sem kom þjóðinni í þessa stöðu en engu að síður er áhugavert að sjá hvernig Evrópusambandið virðist taka yfir efnahagsstjórn Grikklands. Þann 11 nóvember 2011 sl. varð Lucas  nokkur Papademos forsetisráðherra landsins, maður sem hefur aldrei setið á þingi og aldrei verið lýðræðislega kosinn til starfans. Sá sami og var árin 2002 -2010 varaseðlabankastjóri Evrópu og hefur oft komið opinberlega fram og sagt hans meginmarkmið sé að fara  í hvívetna að skipunum ESB í þeim tilgangi að halda Grikklandi í evrusamstarfinu. Margir hagfræðingar hafi bent á að vandinn sé orðinn það mikill að það væri betra fyrir Grikkland að hætta í evrusamstarfinu. Mætti halda að Evrópski seðlabankinn taki undir þetta því samkvæmt gögnum frá honum munu björgunaraðgerðirnar  aðeins auka á skuldir Grikklands og búast hagfræðingar seðlabankans við rúmri 20% aukningu á skuldum frá 2010 til 2014 þrátt fyrir allar aðhaldsaðgerðirnar sem Evrópusambandið krefur Grikki um að fara eftir. Samkvæmt nýlegri skýrslu sem var gefin út af vefritinu Open Europe  upp úr gögnum Evrópska seðlabankans eru langstærstu kröfuhafar Grikklands þýskir og franskir bankar og munu þeir verða keyptir út að miklu leyti. Getur sú staðreynd,  að stærstu kröfuhafar Grikklands séu bankar frá tveimur valdamestu ríkjum ESB útskýrt hvers vegna engar aðrar tillögur eru upp á borðinu.

Því miður er þetta aðeins byrjunin.  Í upphafi áttu aðeins tímabundnar aðgerðir  að koma til og var tímabundinn björgunarsjóður settur á laggirnar til að bjarga Grikkjum, Portúgölum og Írum en fyrirsvarsmenn Evrópusambandsins hafa komist að því að vandamálið er talsvert stærra og hefur því verið búinn til evru-björgunar sjóður sem ber nafnið European Stability Mechanisum eða ESM. Þessi sjóður  er kominn til að vera og mun byrja í 500 miljörðum evra. Að auki, sem er þeim mun óhugnanlegra, mun hann vera undanskilinn lögsögu aðildarríkjanna  en getur stefnt hverjum sem er þar sem hann er sjálfstæð lögpersóna. Með öðrum orðum, þá er sjóðurinn og hans eignir ósnertanlegar með lögum samkvæmt 32.gr. ESM laganna. Sáttmálinn um ESM var samþykktur 2. febrúar síðastliðinn og mun taka gildi í júlí 2012.

Þessi þróun sýnir okkur að aðgerðir Evrópusambandsins í Grikklandi er aðeins byrjunin á miklum breytingum innan Evrópusambandsins og enn eitt dæmið um skort á gagnsæi og lýðræði, sem einkennt hefur sambandið frá upphafi.  Framtíð evrunnar er í besta falli óljós og stöðugleiki eitt það síðasta sem kemur upp í hugann í því sambandi. Skuldarsambandið ESB er komið til að vera. Ballið er rétt að byrja.

Greinin var birt í Morgunblaðinu þann 3. mars 2012