Bandaríkjamenn og Þjóðverjar leggja að Cameron í ESB-málum

Þjóðverjar vöktu reiði Breta fimmtudaginn 10. janúar þegar boð bárust frá stuðningsmanni Angelu Merkel kanslara um að David Cameron, forsætisráðherra Breta, ætti ekki að beita aðra„fjárkúgun“ með hótun um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Þetta segir frétt á vef Evrópuvaktarinnar.

Gunther Krichbaum, formaður Evrópunefndar þýska þingsins, sagði að með þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi yrði tekin mikil áhætta, atkvæðagreiðslan kynni að lama Evrópu og að kalla efnahagsvandræði yfir Breta.

Daginn áður en Bretar fengu þessi boð frá Þýskalandi hafði Philip Gordon, aðstoðarráðherra með Evrópumál í bandaríska utanríkisráðuneytinu, hvatt Breta til að efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu. Peter Bone, þingmaður Íhaldsflokksins, brást við með þeim orðum að Bandaríkjamenn ættu að „halda sér á mottunni“.

Gunther Krichbaum taldi hættu á að Bretar myndu einangrast. Hann sagði: „Það er ekki unnt að skapa sér framtíð með því að beita önnur ríki fjárkúgun. Bretar auðvelda sér ekki lífið með því.“

Douglas Carswell, þingmaður Íhaldsflokksins, svaraði orðum þýska þingmannsins á þann veg að Bretar vildu ekki „lifa lífi sínu eftir forskrift Þjóðverja“

Meira um þetta er hægt að finna á vef Evrópuvaktarinnar.