Björgunaraðgerðir vegna evrunnar kaupa aðeins tíma

Björgunaraðgerð Evrópusambandsins vegna evrunnar upp á 750 milljarða evra kaupir aðeins tíma fyrir evrusvæðið þar til fjárlagahalla ríkja á svæðinu hefur verið komið í lag. Þetta sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í ræðu sem hún flutti í gær 16. maí á þingi þýsku verkalýðshreyfingarinnar. Þessi orð fela í sér talsvert annan boðskap en yfirlýsingar hennar og annarra forystumanna sambandsins fyrst eftir aðgerðina þar sem talað var um að þær fælu í sér algera björgun evrusvæðisins.

Ljóst þykir að aðgerðir ESB hafi alls ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir. Markaðirnir brugðust vel við fyrst í stað en það fjaraði fljótt út. Sérstaklega eru uppi miklar áhyggjur af þeim mikla niðurskurði sem skuldsettum evruríkjum er gert að fara út en búist er við því að hann muni halda aftur af hagvexti í þessum ríkjum næstu árin sem aftur muni gera þeim erfitt fyrir að greiða af lánum sínum.

Fyrr eða síðar er gert ráð fyrir því að sú staða komi upp að eina leiðin til þess að koma skuldsettum evruríkjum á rétta braut verði verulegar afskriftir skulda þeirra. Það mun aftur að öllum líkindum koma harkalega niður á þeim ríkjum og bankastofnunum sem hafa lánað þessum ríkjum sem aftur eru í flestum tilfellum önnur evruríki og bankar innan þeirra. Það er því ekki að furða að vaxandi áhyggjur séu af framtíð evrusvæðisins.

Heimild:
Merkel segir neyðar­sjóð aðeins til að kaupa tíma fyrir evruna (Evropuvaktin.is 16/05/10)