Ávarp Atla Harðarsonar á hátíðarfundi Heimssýnar 1. desember 2014

Atli Harðarson, heimspekingur og lektor við Háskóla Íslands, flutti hátíðarávarp á fullveldishátíð Heimssýnar á Hótel Sögu 1. desember 2014. Hann hefur gefið leyfi sitt fyrir birtingu ávarpsins.

Ávarp á fundi Heimssýnar, 1. des. 2014

Gleðilega hátíð. Um leið og ég þakka fyrir að vera boðið að koma hér og tala við ykkur ætla ég að vara ykkur við. Það sem ég hyggst segja skil ég sjálfur ekki nema til hálfs. Ég ætla að tala um lýðræði. Minn takmarkaði skilningur á því er sóttur í gamlar bækur fremur en reynslu af stjórnmálum – enda hef ég aldrei komist lengra í alvörupólitík en að vera varamaður í bæjarstjórn.

Lýðræðið sem við lifum við á sér sögu. Það tók að dafna hér á Norðurlöndum fyrir 200 árum síðan. Það var 1814 sem hópur Norðmanna kom saman á Eiðsvelli og sammæltist um að í landi sínu skyldu þjóðfrelsi og frjálsmannlegir samfélagshættir fara saman. Næsti stóráfangi í vegferð norrænna landa til lýðræðis var þegar Danir kollvörpuðu einveldinu árið 1849 og settu Júnístjórnarskrána með hliðsjón af því sem Norðmenn höfðu gert 35 árum fyrr. Annar af aðalhöfundum hennar var Orla Lehmann. Hann spáði því að lýðræði og frjálsmannlegir stjórnarhættir („demokrati og fri forfatning“) myndu gera Norðurlöndin mikil og gefa þeim þýðingu fyrir allan heiminn. Spá hans hefur þegar ræst að nokkru og það er meðal annarra á okkar valdi hvort hún heldur áfram að rætast.

Þessi skref í átt til lýðræðis voru áfangar á leið sem síðan er orðin býsna löng. Lýðræði er enn að mótast og það er hvergi fullskapað. Það var heldur ekki fundið upp á nítjándu öld. Hugsjónum um lýðræði bregður fyrir í ritum síðan í fornöld, eins og til dæmis þeim tveim stórvirkjum grískrar sagnfræði sem nýlega eru komin út á íslensku. Hér á ég við sögu Heródótosar af Persastríðunum, sem Stefán Steinsson þýddi og kom út fyrir ári síðan hjá Máli og menningu, og sögu Þúkýdídesar af Pelópseyjarstríðinu sem Sigurjón Björnsson þýddi og er nýkomin út hjá Sögufélaginu. Rökræður, hugsjónir og drauma um lýðræði er líka að finna í ritum heimspekinga frá frá ýmsum tímum. Sumt af þeim skrifum gaf byltingamönnum á Englandi, í Bandaríkjunum og Frakklandi innblástur þegar þeir hröktu kónga frá völdum á sautjándu og átjándu öld og lögðu drög að stjórnskipan sem var að einhverju leyti í anda lýðræðis.

Það sem draumar um lýðræði eiga sameignlegt er að þeir snúast um að yfirstjórn ríkisins sé ekki viðfangsefni fáeinna útvalinna heldur margra – best sé að almenningur eigi þess kost að hafa áhrif. Þetta samkenni lýðræðishugsjóna er jafnt að finna í fornum sögum Heródótosar og Þúkýdídesar og heimspekiritum seinni tíma manna – og þar á ég bæði við róttæka hugsuði eins og Rousseau og Marx og borgaralega þenkjandi spekinga eins og Locke og Mill. Hjá þeim öllum snýst lýðræði um að lýðurinn ráði. Það segir sig kannski sjálft og liggur í orðanna hljóðan hvort sem við tölum íslensku og segjum „lýð-ræði“ eða slettum grísku, eins og gert er í mörgum málum, og tölum um „demó-kratíu“. Orðið „demos“ merkir almenning og sögnin „krateo“ þýðir að stjórna einhverju eða hafa tök á því.

Það sem ég hef sagt er tæpast nein stórtíðindi. En kannski kem ég einhverjum á óvart þegar ég bæti því við að þessi hugsjón um vald almennings á eigin málum er tvíhliða eins og við sjálf. Hún stendur á tveim fótum. Annar þeirra er ansi veikur um þessar mundir svo skepnan haltrar. Og nú er líklega rétt að ég skýri hverjir þessir tveir fætur eru og hvor er sá halti.

Önnur hliðin á lýðræðishugsjóninni er stundum kennd við lýðveldi. Á ensku er talað um „republicanism“ eða „civic humanism“. Þetta er sú hlið sem er ríkjandi í fornum sagnfræðiritum. Þeim sem leggja áherslu á hana finnst lýðræði snúast um að almennir borgarar eigi þess kost að ráðgast um mál samfélagsins og hafa áhrif, einkum á það sem mestu skiptir, það sem líf þeirra og velferð veltur á. Menn laga líf sitt að þessum hluta lýðræðisins með því að taka borgaralegar skyldur alvarlega, rökræða almannaheill, gefa samfélaginu hluta af tíma sínum og kröftum og vera tilbúnir að taka mál í eigin hendur.

Hin hliðin á lýðræðishugsjóninni er oft kennd við frjálslyndi. Kjarni hennar er að yfirvöld þurfi að leggja verk sín í dóm kjósenda og vald þeirra sé takmarkað af stjórnarskrá og mannréttindum. Þeir sem leggja áherslu á þessa hlið lýðræðisins hneigjast til að líta á sjálfa sig sem einstaklinga með réttindi fremur en borgara með skyldur.

Að mínu viti hlýtur farsælt lýðræði að hafa báðar þessar hliðar og standa á tveim fótum. Við þurfum að líta á sjálf okkur í senn sem borgara með skyldur og einstaklinga með réttindi. Ég veit ekki hvort þessar tvær hliðar hafa nokkurn tíma náð að vera í góðu jafnvægi. Kannski hefur allt lýðræði til þessa verið halt og skakkt. Síðustu þrjátíu eða fjörtíu ár hefur sú hliðin sem ég kenni við frjálslyndi fengið aukinn styrk víða um lönd, en hin sem ég kenni við lýðveldið misst mátt í flestum ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku og trúlega víðar.

Tíminn sem við lifum, þessir síðustu þrír eða fjórir áratugir, eru stundum kenndir við nýfrjálshyggju, einkum af þeim sem hafa horn í síðu markaðsbúskapar og alþjóðavæðingar. Það mætti kannski eins kenna þá við mannréttindi eða einstaklingshyggju. Lykilatriðin í stjórnmálaumræðu nútímans eru markaður og mannréttindi.

Margt hefur verið sagt um markaðsvæðingu síðustu áratuga. Það er misgáfulegt og ég ætla ekki að bæta þar við. Umræða um mannréttindi hefur líka verið í sókn þó minna hafi verið reynt til að greina áhrif hennar á lýðræðið. Til marks um þessa sókn mannréttindanna hér á landi má hafa, að frá árinu 1900 til ársins 1975 kom orðið „jöfnuður“ um fjórfalt oftar fyrir í íslenskum blöðum heldur en orðið „mannréttindi“. Hér á ég við þau blöð sem liggja frammi á vefnum timarit.is. Eftir 1975 urðu þessi orð álíka algeng og á síðustu árum kemur orðið „mannréttindi“ mun oftar fyrir en orðið „jöfnuður“. Eftir 2007 er það til dæmis 1,9 sinnum algengara í þeim ritum sem vistuð eru á timarit.is. Svipaða sögu er að segja ef borin er saman tíðni umræðu um mannréttindi og jafnrétti. Þetta gildir ekki bara hér á landi heldur virðist svipað uppi á teningnum víða.

Hvernig tengist þessi aukna áhersla á mannréttindi bæklaðri borgarvitund og höltu lýðræði og hvernig er háttað samleik mannréttinda og markaðsvæðingar?

Ég held að í stuttu máli megi segja að þessi tvö orð, „markaður“ og „mannréttindi“ séu höfð um viðleitni sem á meira sameiginlegt en augljóst er við fyrstu sýn. Þau eru bæði notuð til að gera það sem mestu skiptir fyrir kjör fólks ópólitískt í augum þess, eitthvað sem menn eiga ekki að ráða ráðum sínum um eða ákveða út frá eigin sýn á almannahag. Umræðan um markaðinn hefur verið á þeim nótum að hann sé utan við stjórnmál – pólitísk afskipti af efnahagslífinu séu einhvers konar villa. Umræðan um mannréttindi er líka á þeim nótum að þau séu utan við pólitíkina – eitthvað sem tilheyrir öllum mönnum vegna þess að þeir eru menn og stjórnvöld eiga að viðurkenna og þjóna en ekki ákveða.

Í þessari goðafræði nútímans virðist eins og gert ráð fyrir að um þau efni sem mestu varðar sé ekkert hægt að ákveða: Það sé bara til ein rétt gerð af reglum fyrir markaðinn, sem sér okkur fyrir neysluvörum; einn réttur listi af mannréttindum, sem tryggir réttlæti og velferð handa öllum; og þetta tvennt dugi til að skapa farsælt samfélag. Lýðræði er þó ekki hafnað af þeim sem tigna markaðinn og mannréttindin. Þeir vilja flestir halda í þá hlið þess sem kennd er við frjálslyndi, því það fylgir sögu hjá þeim að ríkið eigi að sjá til þess að allt fari eftir réttum reglum – til þess þurfi kosningar svo almenningur geti fellt stjórnvöld sem eru spillt eða standa ekki fagmannlega að verki.

Þessi hugmynd um lýðræði, sem hefur orðið ágeng síðustu áratugi, rúmar ekki borgara með skyldur. Fólk er fyrst og fremst einstaklingar með réttindi – og þegar verst lætur neytendur með réttindi. Það er ekki nóg með að mynd nútímans af lýðræði rúmi illa almenna þátttöku í stjórnmálum eða starfi stjórnmálaflokka. Hún ýtir undir mjög óvægna dóma um venjulegt fólk sem vogar sér að hafa áhrif og flaskar á einhverjum tæknilegum atriðum, vefst tunga um tönn eða verður eitthvað lítilræði á eins og gengur.

Þó hugmyndir um fagmannleg stjórnmál og ópólitískan rétt séu ágengar sýnist mér sumt í þeim næsta fjarstæðukennt. Þetta er ekki vegna þess að ég haldi að markaðsbúskapur og mannréttindi séu einhver vitleysa. Farsælt mannlíf þarf á hvoru tveggja að halda. Þessar hugmyndir eru fjarstæða vegna þess að látið er eins og markaður og mannréttindi séu hafin yfir pólitík, ákvarðanir, samráð, stundlega hagsmuni og staðbundnar aðstæður. En veruleikinn er sá að bæði markaðir og mannréttindi geta verið á marga vegu og oft er háð stund og stað hvað er rétt og ráðlegt. Um hvort tveggja eru að sjálfsögðu teknar ákvarðanir – ef ekki með lýðræðislegum hætti þá af einhverjum útvöldum.

Það er tæpast hægt að ljúka ræðuhöldum á þessari samkomu og á þessum degi án þess að segja fáein orð um Evrópusambandið. Þegar rætt er um takmarkað lýðræði innan þess er oftast átt við að þeir sem mynda framkvæmdastjórnina og ráðherraráðið þurfi ekki að standa almenningi reikningsskap ráðsmennsku sinnar. Það virðist yfirleitt gert ráð fyrir að það hálfa lýðræði sem ég hef lýst dugi og yfirstjórn Sambandsins eigi að passa að fólk njóti réttinda sinna og markaðirnir fari eftir réttum reglum. Þeir sem hafa þessa hálfu sýn sjá ekki að neitt vanti nema lýðræðislegt aðhald. Sumir þeirra sjá að vísu að þetta eitt er mikil vöntun og alvarleg. Reynsla Evrópuþjóða af stjórnvöldum sem ekki þurfa að óttast kosningar er skelfileg, svo ekki sé meira sagt. En þrátt fyrir það virðist mér að einhliða áhersla á neytendur með réttindi fremur en borgara með skyldur sé til þess fallin að Sambandið líti heldur skár út en það gerir ef við höfum heillega mynd af lýðræðinu. Innan Evrópusambandsins geta almennir borgarar svo sem haft staðbundna stjórn og gripið inn í alls konar smámuni. Ég er hræddur um að inngrip í eitthvað á stærð við til dæmis Icesave-málið sé hrein fjarstæða.

Það er hægt að hugsa sér að bæta einhvers konar lýðræðislegu aðhaldi við regluverk stórríkis margra þjóða. Það er jafnvel hægt að vona að það verði gert. Þeim sem hugsa um samfélagið sem hóp neytenda með réttindi þar sem ópólitískur markaður fóðrar neysluna og ópólitísk yfirvöld tryggja réttindi, sem eru eins og af himnum ofan og enginn getur ákveðið neitt um – þeim þykir kannski best að markaðurinn sé sem stærstur og ríkið líka. Það er væntanlega einhver stærðarhagkvæmni í þessu eins og fleiru. En ef menn hugsa um sjálfa sig sem borgara með skyldur, líta á það sem sitt hlutverk að vera við þar sem menn ráða ráðum sínum um efni sem mestu varða – hljóta þeir þá ekki að verja þann eina vettvang þar sem er kostur á að vera skyldurækinn borgari? Á slíkum vettvangi þarf, að ég held, að vera samkennd og sameiginlegur skilningur. Sameiginlegt tungumál hjálpar. Mannréttindi og samskipti á markaði krefjast þess hins vegar ekki að menn eigi annað sammerkt en mennskuna.

Ég held að til þess að lifa saman sem borgarar með skyldur þurfum við að hafa taugar hvert til annars – helst að þykja vænt um samfélag okkar og vera til í að leggja nokkuð á okkur. Þessi hlið lýðræðisins er kannski fremur von en veruleiki. En ég held, eins og Orla Lehman gerði fyrir rúmlega einni og hálfri öld, að erindi okkar við heiminn velti á því að við höldum í þessa von. Það getum við tæpast gert eins og nú háttar nema við varðveitum þjóðríkið. Það er eini vettvangurinn sem við höfum fyrir lýðræði sem stendur báðum fótum á jörðinni.

Fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember 2014

Fullveldishátíð Heimssýnar verður haldin á Hótel Sögu annað kvöld, mánudagskvöldið 1. desember 2014 klukkan 20.00 á Hótel Sögu. Hátíðarræðu flytur dr. Atli Harðarson, heimspekingur og fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands og nú lektor við Háskóla Íslands.

Fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember 2014

Heimssýn fagnar fullveldisdeginum 1.desember næstkomandi mánudagskvöld í Snæfelli á Hótel Sögu klukkan 20.00 með fjölbreyttri dagskrá:

Hátíðarræða: Dr. Atli Harðarson fyrrverandi skólameistari, lektor við Háskóla Íslands.

Ávörp:
Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Heimssýnar.
Jóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður og varaformaður Heimssýnar.
Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB-aðild.

Tónlist:
Hópur söngvara og hljóðfæraleikara flytur söngva úr Söngvasafni Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings.
Hljómsveitin Reggie Óðins flytur nokkur lög.
Þorvaldur Þorvaldsson syngur við undirleik Judy Þorbergsson.
Fjöldasöngur

Kaffiveitingar

Allir eru hjartanlega velkomnir

1.desember 1918 öðlaðist Ísland fullveldi á ný eftir áratuga og alda baráttu.

Stöndum vörð um fullveldið!

Fréttatilkynning frá NEI við ESB

Samtökin Nei við ESB, Heimssýn, Ísafold og Herjan skora á ríkisstjórn og Alþingi að samþykkja  tillögu utanríkisráðherra  um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Samtökin NEI við ESB  hvetja  Alþingi til að afgreiða þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar  um afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu þegar á þessu þingi.

Samtökin telja að Ísland eigi áfram að áfram sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.Gangi Ísland í ESB myndi vald yfir veigamiklum þáttum fullveldis þjóðarinnar færast til Brüssel. ESB fer með völd á sífellt fleiri sviðum þjóðlífs aðildarríkjanna og áhrif smáríkja fara á sama tíma minnkandi. Ítarlegar skýrslur um aðildarferlið og stöðu ESB, hafa sýnt að ekki verður lengra gengið í viðræðunum nema Alþingi samþykki eftirgjöf á þeim skilyrðum sett voru með umsókninni. ESB sem ræður för og setur skilyrði og tímamörk fyrir innleiðingu reglna sambandsins í landsrétt. Svo vitnað sé orðrétt í Evrópusambandið sjálft : Aðildarviðræður snúast um skilyrði um tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu.  Um þessar reglur … verður ekki samið.“ Það er því eðlileg niðurstaða að Alþingi samþykki fyrirliggjandi tillögu ríkisstjórnarinnar um afturköllun umsóknar um aðild að ESB.

1. maí ganga og kaffi á morgun

Heimssýn félag sjálfstæðissinna í evrópumálum, Ísafold – félag ungs fólks gegn ESB – aðild og Herjan, félag stúdenta gegn ESB aðild ganga saman 1. maí undir formerkjum Nei við ESB.

 1. Við óskum launafólki til hamingju á hátíðisdegi verkalýðsins.
 2. Á Íslandi teljum við það sjálfsagt að hafa vinnu.
 3. Í Evrópusambandinu eru yfir 27 milljónir manna án atvinnu.
 4. Við teljum hagsmunum verkalýðsins á Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins.

Mæting við Hlemm kl. 13:00 og allir hjartanlega velkomin í kaffi kl. 15:00 – 17:00 á skrifstofunni að Lækjartorgi 5. Gengið er inn frá Lækjartorgi og er skrifsofan á annarri hæð í lyftuhúsi.

Heisbourg um evruna og ESB: Laugardag 5. apríl 11–12

Einn kunnasti sérfræðingur Evrópu í öryggis- og alþjóðastjórnmálum, François Heisbourg, heldur fyrirlestur um evruna og Evrópusambandið á vegum Heimssýnar, RNH og Þjóðráðs  laugardaginn 5. apríl 2014 kl. 11–12 í Odda, stofu O-202, í Háskóla Íslands. Heisbourg fæddist 1949 og hlaut menntun sína í franska stjórnsýsluháskólanum, L’École nationale d’administration (ENA). Hann starfaði í franska utanríkisráðuneytinu frá 1978 til 1984 og var þá meðal annars öryggisráðgjafi utanríkisráðherra Frakklands. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri vopna- og raftækjasmiðjunnar Thomson-CSF 1984–1987, eftir að Mitterand forseti hafði þjóðnýtt hana, og forstöðumaður IISS, International Institute for Strategic Studies, í Lundúnum 1987–1992. Hann hefur síðan gegnt margvíslegum störfum, meðal annars kennt við háskóla og verið ráðgjafi ýmissa stofnana og ráða. Hann hefur verið stjórnarformaður IISS frá 2001.

Umsókn Íslands um ESB aðild: Tilboð sem þú getur ekki hafnað.

Sumarið 2009 sendi ríkisstjórn Samfylkingar og Vg umsókn Íslands að ESB.
Þessir merku atburðir eru greindir og raktir ítarlega í meistararitgerð Hollendingsins Bart Joachim Bes frá árinu 2012. Ritgerðin er á ensku og ber heitið: Iceland’s Bid for EU Membership: An Offer You Cannot Refuse – An analysis on the role of party-politics within the decision-making process concerning Iceland’s application for EU membership. Í íslenskri þýðingu:  Umsókn Íslands um ESB aðild: Tilboð sem þú getur ekki hafnað. Höfundur ritgerðarinnar talaði m.a. við eftirtalda aðila: Ernu Bjarnadóttur, Bjarna Má  Gylfason, Ragnheiði Elínu Árnadóttir, Árna Þór Sigurðsson, Kristján Þórarinsson, Sigmund Davið Gunnlaugsson, Ásmund Einar Daðason, Semu Erlu Serdar og Jón Bjarnason. Þetta kemur fram í ritgerðinni í lauslegri íslenskri þýðingu: Mikið gekk á meðan á atkvæðagreiðslunni um tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna stóð og þingmenn VG voru teknir afsíðis á eintal við forsætisráðherra áður en að þeim kom að greiða atkvæði.
„Sumir komu úr (atkvæðagreiðslunni) algerlega niðurbrotnir með tárin augunum“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni þáverandi þingmanni Vg. Nánar

Fyrirlesarar og yfirskrift erinda á ráðstefnunni

Framsögumenn og yfirskrift erinda 

Dagskrá:

 1. Vigdís Hauksdóttir: Opnunarávarp
 2. Stefán Már Stefánsson, prófessor við HÍ : „Er Evrópusambandið ríki?“
 3. Ragnar Arnalds: „De nordiska kuststaters självständighet utanför EU“ (Sjálfstæði strandríkja á Norðurslóð utan ESB)
 4. Josef Motzfeldt: Sjálfstæðibarátta Grænlendinga
 5. Halldóra Hjaltadóttir: Ávarp
 6. Odd Haldgeir Larsen: „Nei til EU som beveglse og fagbevegelsen rolle i Norge“ (Nei til EU sem fjöldahreyfing og verkalýðshreyfing í Noregi)
 7. Erna Bjarnadóttir: „Reynslusaga af starfi fyrir hagsmunasamtök og samningahópa“
 8. Matarhlé
 9. Brynja Björg Halldórsdóttir:„Forgangsáhrif ESB réttar“
 10. Haraldur Benediktsson: „Vinur hví dregur þú mig í þetta skelfilega hús?“
 11. Helle Hagenau: „Om EÖS og Norges handelfrihet uten for EU (EES samningurinn og verslunarfrelsi Noregs utan ESB)
 12. Halldór Ármannsson: „ESB og sjávarútvegur á Íslandi“
 13. Per Olaf Lundteigen: ” Island, Norge og makrilen”
 14. Ásgeir Geirsson: Ávarp
 15. Sigríður Á Andersen: “Fullveldi – nokkur praktísk atriði”
 16. Olav Gjedrem: „Grunnlovsjubileet og 20 års jubileet for Neiet 1994“ (200 ára stjórnarskrárafmæli og 20 ár frá því að norðmenn höfnuðu ESB í þjóðaratkvæðagreiðu.

 Ráðstefnustjórar: Jón Bjarnason og Helle Hagenau

Pallborðsumræður umsjón: Unnur Brá Konráðsdóttir Nánar