Efnahagsvandræði evrusvæðisins aukast enn

Lánshæfismat Grikklands hefur verið sett niður í svokallaðan ruslflokk af matsfyrirtækinu Standard & Poor við lítinn fögnuð grískra stjórnvalda og ráðamanna Evrópusambandsins. Samtímis lækkaði fyrirtækið lánshæfismat Spánar og Portúgals. Óttast er að efnahagsvandræði Grikkja eigi eftir að breiðast út um evrusvæðið og sér í lagi til annarra evruríkja sem standa höllum fæti og að sú þróun mála sé jafnvel þegar hafin.

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), Dominique Strauss-Kahn, varaði við því í samtölum við þýska þingmenn í Berlín að ef ekki tækist að bjarga Grikklandi hefði það mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ESB, en hann er staddur þar ásamt forseta bankastjórnar Seðlabanka ESB, Jean-Claude Trichet, í þeim tilgangi að sannfæra ráðamenn í Þýskalandi um að koma Grikkjum til hjálpar en Þjóðverjar hafa verið mjög tregir til þess.

Þýski hagfræðingurinn Hans-Werner Sinn, forstöðumaður þýsku stofunarinnar Ifo, sagði í viðtali við útvarpsstöðina MDR í Þýskalandi að ólíklegt væri að Grikkir gætu greitt Þjóðverjum til baka þá fjármuni sem rætt hefur verið um að þýska ríkið lánaði Grikklandi, en talað hefur verið um að í heildina gætu Grikkir þurft um 120 milljarða evra að láni. Þá varaði Sinn við að björgun Grikklands gæti orðið fordæmi innan evrusvæðisins fyrir önnur illa stödd evruríki.

Heimildir:
Spain downgraded as eurozone turmoil spreads (Euobserver.com 29/04/10)
Ástandið á Grikklandi gæti breiðst um Evrópu (Mbl.is 28/04/10)
„Grikkir munu ekki borga okkur til baka” (Mbl.is 28/04/10)
S&P lækkar einkunn Spánar (Mbl.is 28/04/10)
Skuldabréf Grikklands í ruslflokk (Mbl.is 27/04/10)