Ein sameiginleg lofthelgi undir stjórn ESB?

Talsmenn Evrópusambandsins hafa lýst því yfir í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og öskufallsins yfir Evrópu í kjölfar þess að nauðsynlegt sé að koma á einni sameiginlegri lofthelgi ríkja sambandsins undir stjórn þess. Það þýddi að fullveldi ríkjanna yfir eigin lofthelgi heyrði sögunni til. Haft er eftir Helen Kearns, talsmanni Evrópusambandsins í samgöngumálum að hún telji að pólitískur vilji sé fyrir málinu núna en hugmyndin um eina lofthelgi sambandsins hefur legið frammi um árabil.

Matthias Ruete, sem fer fyrir samgöngumálum hjá ráðherraráði ESB, segir ringulreiðina í kjölfar eldgossins sýna að full þörf sé einni stjórn yfir lofthelgi ríkja sambandsins. „Komum loksins hugmyndinni um eina lofthelgi í gagnið,“ sagði hann. Ef af verður er ljóst að þetta yrði ekki í fyrsta skiptið sem ESB nýtti sér krísur til þess að koma á auknum samruna innan sambandsins og færa aukin völd frá ríkjunum og til stofnana þess.

Heimild:
Sýnir þörfina fyrir sameinaða lofthelgi (Mbl.is 20/04/10)