Ekki tímabært að huga að frekari stækkun ESB

Forseti þings Evrópusambandsins, Hans-Gert Pöttering, vísaði því á bug fyrr í vikunni í viðtali við finnska dagblaðið Aamulehti að Ísland gæti gengið hratt inn í Evrópusambandið. Benti hann ennfremur á að nú væri ekki rétti tíminn til þess að huga að frekari stækkun sambandsins. Lissabon-sáttmálinn (fyrirhuguð Stjórnarskrá Evrópusambandsins) hefði enn ekki verið endanlega staðfestur og væri málið í biðstöðu eftir að Írar höfnuðu sáttmálanum í þjóðaratkvæði sl. sumar.

Með skírskotun sinni í Lissabon-sáttmálann var Pöttering væntanlega að undirstrika að Evrópusambandið getur ekki tekið við fleiri ríkjum í sínar raðið fyrr en sáttmálinn hefur náð fram að ganga þar sem núgildandi sáttmálar sambandsins gera ekki ráð fyrir fleiri en þeim 27 ríkjum sem þegar tilheyra því.

Heimild:
Segir ekki tímabært að Ísland fái inngöngu í ESB (Mbl.is 04/02/09)