Enginn vill bera ábyrgð á ESB-umsókninni

Ljóst er að lítill áhugi er fyrir því að axla ábyrgð á umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið. Á fundi sem fram fór í dag á skrifstofu Heimssýnar með rúmenska ESB-þingmanninum Christian Dan Preda lagði hann mikla áherslu á það að íslensk stjórnvöld hefðu lagt fram umsóknina. Það hefði ekki verið að frumkvæði sambandsins. Hliðstæð sjónarmið komu fram hjá talsmönnum Evrópusambandsins sl. haust þegar skoðanakannanir sýndu vaxandi andstöðu Íslendinga við inngöngu í sambandið.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, vísar ábyrgðinni á Alþingi og segist aðeins vera að framfylgja ákvörðun þingsins þó allir viti að það var ríkisstjórnin með Samfylkinguna í broddi fylkingar sem þröngvaði umsókninni í gegnum þingið fyrir tæpu ári síðan. Alþingi vísar því eðlilega á ríkisstjórnina. Innan ríkisstjórnarinnar vísar forysta vinstri-grænna ábyrgðinni á Samfylkinguna. ESB-umsóknin er orðið að þvílíku vaxandi vandræðamáli að enginn vill bera ábyrgð á henni sem skiljanlegt er og allir benda á einhverja aðra og vilja þvo hendur sínar af því.