Enn um aðild að ESB og fleiri mál


Eftir Guðbjörgu Snót Jónsdóttur.

Ólíkt hafast bræðraþjóðirnar, Finnar og Íslendingar, að um þessar mundir. Fréttir hafa borist af því, að Finnar séu að reyna að komast út úr Evrópusambandinu, þar sem þeim finnst á margan hátt óhagkvæmt að vera þar reynslunni ríkari eftir nokkurra ára veru í því. Á sama tíma er unnið að því hörðum höndum hér á Íslandi að geysast sem fyrst inn í ESB og aðlaga ýmislegt að sambandinu, lögum þess og lofum. Á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar ættum við nú að rifja upp sjálfstæðisbaráttuna, ef ske kynni, að við vildum og þyrftum að fara að dæmi Finna. Við ættum að hafa reynsluna af að berjast fyrir sjálfstæði okkar! Þó vona ég og fleiri andstæðingar ESB-aðildar, að til þess komi ekki, þar sem þessi svokallaði samningur verði kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem andstaðan gegn aðild hefur aukist ef eitthvað er.

Ein af ástæðunum, sem Finnar gefa upp, er of mikill fjáraustur í þá hít, sem ESB er, svo þeim ofbýður. Á sama tíma þykjumst við Íslendingar vera það fésterkir þrátt fyrir bankahrun og kreppu að geta farið inn í þessa peningahít. Á sama tíma og stór hópur fólks hér á landi á ekki málungi matar og stendur í biðröðum eftir mat finnst stjórnvöldum í lagi að henda peningum í aðildarviðræður og aðlögun að ESB. Hvílík blekking!
Ég dvaldist stóran hluta sumars 2009 á Landsspítalanum við Hringbraut og kynntist þar pólskri gangastúlku, sem ég var stundum að æfa í íslensku. Einhverju sinni þegar hún kom inn til mín var ég að horfa á fyrstu ESB-umræðurnar í sjónvarpinu. Hún spurði, hvað ég væri að horfa á. Þegar ég sagði henni það var hún fljót að fussa og sveia og sagðist ekkert vilja með ESB hafa, því að það kallaði á tóm vandræði og vandamál, og því skyldum við Íslendingar ekki fara þangað inn.
Það er líka smátt og smátt að koma í ljós, eftir því sem verið er að aðlaga okkur sambandinu. Nú er það t.d. að koma í ljós, að okkur, sem nýtum okkur gróður jarðarinnar í lækningaskyni, er ákaflega þröngur stakkur skorinn samkvæmt boðum þaðan, a.m.k. ef við störfum opinberlega að því, líkt og Kolbrún Björnsdóttir og fleiri. Gott ef jurtaapótekið hennar fær að starfa áfram, hvað þá annað, eftir að inn í ESB er komið.
Það hefur líka sýnt sig við rannsókn, að aldraðir og öryrkjar verða ekkert of haldnir þar inni heldur.
Þó að ESB sé að taka upp kvótakerfið okkar, þá verður vandamál varðandi sjávarútveginn og sjómennskuna innan þess, hvað sem hver segir. Það er nú verið að vinna að því að afnema sjómannaafsláttinn, sem er ákveðin kjarauppbót fyrir stéttina, hvað sem aðrir halda fram. Það skyldi þó ekki vera, að það sé vegna tilmæla frá almættinu í Brüssel? Það kæmi mér ekki á óvart. Sjómönnum veitti þó ekki af öllum þeim kjarabótum, sem þeir mögulega geta fengið, eins og öðrum hér á landi um þessar mundir. Vera má, að þeim í ESB og fleirum finnist þetta vera einhver sérstök fríðindi þeim til handa, en það er hinn mesti misskilningur. Faðir minn og aðrir forystumenn sjómanna, sem börðust harðri baráttu fyrir þessu á sinni tíð, töluðu aldrei um þetta öðru vísi en sem nauðsynlega kjarauppbót fyrir þá. Það væri svo sem eftir öðru, ef á nú að fara að taka þetta af þeim í harðærinu núna, eins og þeir hafi nóg fyrir sig að leggja. Svo er verið að segja, að það sé engin aðlögun í gangi að ESB? Vaknið þið, sem sofið!
Vita skal formaður minn, háttvirtur forsætisráðherra, það, að Steingrímur Jóhann er ekki einn um að kljást við óróleika í sínum flokki út af ESB-aðildarferlinu. Það er nóg til af fólki í Samfylkingunni, sem eru andstæðingar þess, og er farið að ofbjóða áróðurinn og aðdáunin á ESB, þar á meðal ég, sem segi þvert nei við ESB-aðild, bæði vegna sjávarútvegsins og fiskveiðanna og alls annars. Við höfum einfaldlega ekki efni á þessu á þeim tímum, sem nú eru uppi á Íslandi, og höfum annað þarfara við peningana að gera en fleygja þeim í peningahítina ESB. Mál er að linni.
—————
Höfundur er fræðimaður og félagi í Heimssýn, félagi sjálfstæðissinna í Evrópumálum.