Er búið að bjarga evrunni?

Erindi á fundi Heimssýnar í Háskólanum, Háskólatorgi 101, 15. desember 2011 eftir Stefán Jóhann Stefánsson

Um höfundinn: Stefán Jóhann Stefánsson er hagfræðingur, var lengi formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, í framkvæmdastjórn (varafulltrúi vegna kynjakvóta) og flokksráði Samfylkingar og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Er búið að bjarga evrunni?

Stutta svarið við þessu er: Nei. Aðeins lengra svar er: Nei, það er ekki víst. En ég ætla hér að fjalla um þetta í aðeins lengra máli.

Fyrir nokkrum árum hefði þetta þótt ansi djörf spurning, – hefðu nánast þótt vera helgispjöll (og er það kannski sums staðar enn), en í dag er þetta gilt umræðuefni. Reyndar hafa menn til þessa spurt um framtíð evrunnar og hvort hægt væri að bjarga henni. Svar embættismanna ESB, flestra æðstu stjórnmálamanna ESB-landanna og margra sérfræðinga á vegum ESB og fleiri er að það sé að sjálfsögðu hægt að bjarga evrunni. Það er allt kapp lagt á það, nú síðast með samþykktum leiðtogafundar ESB 9. þessa mánaðar. En björgunarleiðangrinum er ekki lokið.

Áform leiðtoga ESB frá 9. desember 2011
Samþykktir leiðtogafundarins fela aðallega í sér áform um að herða á reglum um afkomu ríkissjóða evru-ríkjanna, reglum sem þegar eru fyrir hendi að mestu og bæta við einhvers konar sjálfvirkum refsingum sem þó er ekki ljóst enn hverjar eða hvernig verða.  Þar er aðallega átt við að evru-ríkjum verði refsað verði halli á ríkissjóðum meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu. Auk þess er bætt við ósk um að ríkin setji inn í lög eða stjórnarskrár að svokallaður undirliggjandi halli megi ekki vera meira en hálft prósent af vergri landsframleiðslu. Þá eru áform um að setja reglur,  – fyrir upphaf næstu hagsveiflu,  eins og það er orðað,  – um að starfsfólk ESB í Brussel geti farið yfir og metið hvort fjárlagafrumvörp evruríkjanna samrýmist þeim markmiðum sem Gjaldmiðilsbandalagið setur.  Þá eru nánari útlistanir varðandi björgunarsjóði vegna evrunnar og hugmyndir um gjöld á fjármagnstilfærslur. Þarna eru línur lagðar, en nákvæm útfærsla og viðunandi staðfesting réttra yfirvalda er að mestu eftir.  Leiðtogar flestra evruríkja vilja fylgja þessu eftir, en þátttaka annarra ríkja um einstakar leiðir virðist ætla að verða eitthvað dræmari. Í það minnsta hafa Norðurlöndin og jafnvel fleiri gert fyrirvara um að þjóðþing og jafnvel fleiri þurfi að samþykkja breytingar í þessa vera.

Með þessum aðgerðumvirðast forsvarsmenn myntbandalagsins þó trúa þvíað styrkari stoðum verði skotið undir evruna sem hefur átt mjög erfitt uppdráttar síðustu misserin, eins og skuldakreppa evruríkjanna ber með sér. Nú segja sumir að Merkel og Sarkozy hafi fengið sitt; Merkel strangari reglur (svo Þjóðverjar þurfi ekki að borga) og Sarkozy tveggja hraða eða tveggja þrepa evrubandalag. Ýmsir telja þó að það vanti að minnsta kosti þrennt: Raunhæfan stuðning fyrir banka í vandræðum, aðgerðir til stuðnings Grikklandi – sem margir telja að neyðist til að gefa evruna upp á bátinn – og síðast en ekki síst: það vanti aðgerðir til að auka hagvöxt í álfunni. Þótt Seðlabanki Evrópu hafi sett vextina niður í 1% er það ekki talið duga, enda sé bankinn fyrst og fremst að hugsa um að halda verðbólgu í skefjum. Því má skjóta hér inn að Draghi, nýr seðlabankastjóri ECB, stendur fast á því að hlutverk bankans sé fyrst og fremst að halda verðbólgu í skefjum eins og grunnsáttmálar um bankann kveði á um, en ekki að prenta peninga til að kaupa skuldir evruríkjanna sem einhverjir hafa lýst áhuga á.

Efasemdir og gagnrýni

Ýmsir sérfræðingar lítt tengdir ESB-stofnunum og margir álitsgjafar fjölmiðla í álfunni eru hins vegar á því að óvíst sé að fyrirkomulag myntbandalagsins muni ganga upp til lengdar og að nýlegur toppfundur stjórnmálaleiðtoga ESB breyti þar litlu um. Áframhaldandi hræringar á fjármálamörkuðum bendi heldur ekki til þess að þátttakendur þar trúi því að samþykktir leiðtoganna breyti miklu, hvað þá fréttir um að að lánshæfismatsfyrirtækin Moody‘s og Standard & Poor‘s hafiboðað endurskoðun á lánshæfismati evruríkjanna  – og þá væntanlega með neikvæðum horfum, eftir að niðurstaða leiðtogafundarins lá fyrir. Það er ekki traustinu að fyrir að fara þarna úti frekar en verið hefur hér síðustu árin. Það sést á því að það eru ekki bara Íslendingar sem hafa flúið til Noregs, heldur er líka ákveðinn flótti frá Suður-Evrópu til Noregs, en þar er það hins vegar peningaflótti, því suðrænir peningar fyllanú að sögn norskra fjölmiðla allar hirslur í norskum bönkum – og jafnvel víðar á Norðurlöndum.Þykir ýmsum nóg um að þessir peningar valdi þenslu í Noregi og vilja nú segja á gjaldeyrishöft, en með öfugum formerkjum miðað við það sem við höfum þekkt síðustu ár, nefnlilega að hefta innflæði evra til Noregs!

Fyrstu árin eftir upptöku evrunnar trúðu margir því að hún væri á beinu brautinni, enda gekk ýmsum löndum þá flest í haginn. Þá voru líklega margir búnir að gleyma varnaðarorðum ýmissa, hagfræðinga og fleiri, sem sögðu t.d. að myntbandalag án sameiginlegra ríkisfjármála fengi ekki staðist til lengdar, því gjaldmiðill þyrfti að hafa ríkissjóð sem bakhjarl. Reyndar hafa ýmsir forkólfar evrunnar, eins og Jacques Delors, síðustu daga skammast yfir því að farið skyldi af stað með evruna á meingölluðum stofnanagrunni.  Ég get ekki séð að þessar samþykktir leiðtoga ESB frá 9. desember eða þau áform sem þær fela í sér breyti hér nokkru um að ráði. Hér er ekki stefnt að sameiginlegum ríkisfjármálum heldur að því að skerpa á reglum sem þegar eru til staðar að miklu leyti.  Og áformin er varða reglur og skipulag á fjármálamörkuðum finnast mér vera heldur óljós enn sem komið er. Þetta breytir því engu sérstöku fyrst um sinn því skuldavandinn hverfur ekki vegna þessara samþykkta. Hann verður viðloðandi næstu misserin og árin óháð þessu. Það kann að vera að þessar skerptu reglur dragi úr skuldasöfnun evruríkjanna í fjarlægri framtíð, þ.e. ríkissjóðanna. Það er vonandi fyrir þjóðirnar í álfunni. En það myndi þó ekki draga úr þeim grundvallarvanda sem evrulöndin búa við – og það er í raun eftirtektarvert að talsmenn Evrópusambandsins minnast að því er virðist ekkert áþennanvanda. Það hafa hins vegar ýmsir forsvarsmenn hagfræðistofnana á alþjóðavísu, einhverjir sérfræðingar og fjölmiðlamenn gert að undanförnum árum.

Grunnvandi evrusvæðisins

Og hver er þá þessi grundvallarvandi sem veldur því að hagskilyrði í evrulöndunum hafa ekki nálgast  – eins og búist var við með sameiginlegum markaði og sameiginlegri mynt – mynt sem átti reyndar enhvern tímann að vera endahnúturinn á samrunaþróuninni í álfunni.

Þessi vandi er tiltölulega augljós þegar menn koma auga á hann. Hann er sá að samkeppnisstaða evruríkjanna hefur þróast með mjög mismunandi hætti. Þar skiptast ríkin talsvert í tvö hornþar sem öflugt Þýskaland er fyrirferðarmest annars vegar vegna samkeppnisyfirburða sinna. Fyrir vikið hafa þýskar vörur átt greiða leið á markaði annars staðar. Í hinu horninu eru flest jaðarríkin hverra vörur þykja mun minna samkeppnishæfar sökum óhagstæðrar verðþróunar í jaðarlöndunum. Afleiðingin hefur orðið sú að umtalsverður viðskiptaafgangur hefur verið í utanríkisviðskiptum Þjóðverja og þeir hafa safnað auði á meðan jaðarþjóðirnar hafa eytt um efni fram. Þetta er sem sagt fyrst og fremst vegna þess að verðhækkanir hafa verið talsvert meiri í mörgum jaðarlöndunum en í Þýskalandi og suðrænar vörur hafa því síður átt upp á pallborðið hjá neytendum í álfunni en áður.

Þær aðgerðir sem stefnt er að því að grípa til hafa að líkindum ekki mikil áhrif á þennan vanda fyrst um sinn. Það er heldur ekki ætlunin að styrkja þau svæði að einhverju marki sem hafa orðið undir, kannski lána þeim peninga, en að öðru leyti verða þau bara að herða ólina. Þótt evran hafi skapað Þjóðverjum auð vilja þeir ekki láta hann af hendi. Auðvitað getur þessi þróun breyst með einhverjum hætti. Það er hins vergar ekki fyrirséð að þessar aðgerðir muni draga verulega úr vanda evrunnar eða bjarga henni.

Yfirgefa ríki evruna eða hætta við að taka hana upp?

Önnur spurning sem e.t.v. mætti spyrja er: Munu einhver ríki fara úr gjaldmiðilsbandalaginu? Og: Mun Evrópa þróast í mismunandi lögum, þar sem sum ríki verða með evruna, en önnur halda í sína gjaldmiðla eða jafnvel að einhver nýr gjaldmiðill verði sameiginlegur fyrir nokkur lönd? Um þetta allt er erfitt að spá. Minna má t.d. á að fáir sáu fyrir hrun Sovétríkjanna og Austurblokkarinnar eins og það varð. Það voru heldur ekki margir sem sáu fyrir hrun fjármálakerfisins árið 2008, hvorki hér á landi né annars staðar. Allir svona spádómar eru erfiðir, en þó má benda á að þeim virðist fara fjölgandi sem segja að eina leiðin til bjargar fyrir Grikki sé sú að þeir yfirgefi evrusamstarfið, að minnsta kosti um stundarsakir.

Evran veldur skuldavanda sem svo grefur undan sjálfri evrunni

Það er alltént hægt að slá því föstu að grunnur evrusamstarfsins er meingallaður, eins og Delors og fleiri halda fram. Það nægir bara að líta á afleiðingarnar eins og þær eru í dag. Ein afleiðingin er sú að veran í myntbandalaginu hefur hjálpað Grikkjum, Írum og fleirum við að safna óhóflegum skuldum vegna þess að þeir hafa fengið lánin á lægri vöxtum vegna veru sinnar í evrubandalaginu og þess trausts sem evruríkin fengu út á styrk stærsta hagkerfisins, Þýskalands. Það eru ýmsir sem gleyma þessu og halda því fram að skuldavandinn sé bara innanlandsvandamál Grikkja og fleiri, vegna þess að þeir hafi svindlað eða ekki sýnt ráðdeild. Það eru þó æ fleiri, fræðimenn og aðrir, sem viðurkenna þátt evrunnar í að auka við skuldir ríkjanna og þjóðanna í álfunni. Og jafnframt ætti öllum að vera augljóst að þessi skuldavandi, sem er að hluta tilkominn vegna evrusamstarfsins, er nú að grafa undan bæði evrusamstarfinu og í raun öllu samstarfi innan ESB.

Ýmsir hagfræðingar hafa lagt áherslu á að það sé mjög alvarlegt að sundurleitni skuli eiga sér stað í samkeppnishæfni eins og hún sýnir sig í þróun vinnuaflskostnaðar í álfunni. En það eru fleiri tengd atriði í hagþróuninni sem leita í sundur en ekki saman eins og var markmiðið með evrusamstarfinu. Það átti að leiða til þess að sérstaklega verðbólga og vextir leituðu í sama farveg og virtist það ganga eftir fyrstu velmegunarárin. En síðustu ár, og þar með árin fyrir hrunið, kom annað á daginn. Verðbólga hefur þróast með mismunandi hætti. Þannig jókst verðbólgumunur úr 2% árið 1999 í tæp 6% árið 2009, munur á hagvexti jókstnokkuð og á atvinnuleysi talsvert, sem og á ríkisskuldum. Á síðustu misserum höfum við svo séð að munur á vissum vöxtum hefur aukist talsvert.

Evran veldur sundurleitni en ekki samrunaþróun

Á þennan hátt hefur evran ekki staðið undir fyrirheitum um samleitni á svæðinu heldur þvert á móti hefur Gjaldmiðilsbandalagið í raun klofið jaðarlöndin frá kjarnalöndunum. Það virðist ljóst að það mun verða hlutskipti bandalagsins um ófyrirsjáanlega framtíð. Löndin sem bera hvað mestar skuldir eru þvinguð til svokallaðrar innri gengisfellingar sem felur í sér lækkun á launakostnaði. Til að slíkt megi takast þarf fyrst að eiga sér stað talsverður samdráttur í landsframleiðslu og mikið atvinnuleysi í einhvern tíma.

Allt þetta, auk ósveigjanlegs vinnumarkaðar og fleira gerir það að verkum að það virðast næg rök benda til þess að Evrópa sé ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði og að evran muni um ófyrirsjáanlega framtíð hvíla á veikum stoðum.Og hvað Ísland varðar þá hafa mikilvæg rök, m.a. um mismunandi hagsveiflur sem gera sömu peningastefnu óhagkvæma, bent til þess að Ísland sé ekki eðlilegur hluti af þessu óhagkvæma evrópska myntsvæði.

Svarið við spurningunni í upphafi er því að það sé ekki búið að bjarga evrunni. Framtíð hennar og framtíð evrusamstarfsins er enn æði óviss.