Er hægt að bjarga evrunni? – opinn fundur

 Heimssýn – Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, mun halda opinn hádegisfund undir fyrirsögninni „Er hægt að bjarga evrunni?“. Mun hann vera haldinn áHáskólatorgi í stofu 101 fimmtudaginn þann 15. desember klukkan 12:00.
Mikil ólga hefur ríkt innan Evrópusambandsins síðustu daga og mikið hefur verið fjallað um leiðtogafund ESB-ríkjanna. Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra og Stefán Jóhann Stefánsson fyrrv. varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar munu fjalla um hver ákvörðun leiðtogafundarins var og hvað hún þýðir.

„Ríkjaráðstefnan í Brussel staðfesti að leikaraskapur hefur endanlega náð yfirhöndinni í viðræðum Íslendinga og fulltrúa ESB. Ríkisstjórn Íslands er klofin ofan í rót vegna ESB-aðildar þótt hún hafi sett hana á dagskrá. Hvert er umboð Füles og viðræðunefndar ESB? Íslendingar eru einfaldlega á leið inn í annað Evrópusamband en tók við umsókninni í júlí 2009. Eftir leiðtogafund ESB í Brussel 8. og 9. desember eru hafnar umræður um ESB II. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti sagði mánudaginn 12. desember að ný Evrópa (les ESB) væri í fæðingu.

Leiðtogar ESB-ríkjanna, annarra en Bretlands, ætla í mars 2012 að taka afstöðu til nýs samnings, evru-samnings, um ríkisfjármála- og efnahagssamstarf þar sem ríki framselja fullveldi hvert til annars í því skyni að skapa evrunni traustara bakland. Þetta er hið nýja Evrópusamband sem Sarkozy boðar, það verður utan ESB I. Um verður að ræða, að minnsta kosti í fyrstu, milliríkjasamstarf á borð við Schengen-samstarfið sem Íslendingar hafa gengið í án aðildar að ESB.“ segir Björn Bjarnasson í nýlegum pistli sem má finna hér.

Fundarstjóri verður formaður Heimssýnar, Ásmundur Einar Daðason, og er fundurinn opinn öllum .
Stjórn Heimssýnar