ESB og evra – óskhyggja og raunveruleiki

Þann 31. október skrifaði ég grein hér í blaðið þar sem ég lagði til að bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar Íslands að ESB og myntbandalagi Evrópu sameinuðust um það markmið að Ísland uppfyllti hin svokölluðu Maastricht-skilyrði um efnahagslegan stöðugleika og hæfust handa við að móta og skilgreina leiðir að því markmiði. Benti ég á að þótt menn greindi á um afstöðuna í Evrópumálum væri öllum ljóst að það væri lífsspursmál fyrir íslenskt efnahagslíf að ná stöðugleika og Maastricht-skilyrðin fælu í sér skynsamlegar viðmiðanir í því sambandi. Sjálfsagt væri og nauðsynlegt að Evrópuumræðan héldi áfram, kostir og gallar væru ræddir fordómalaust, en meira vit væri í að hefja þegar vinnu við að ná þeim markmiðum sem við ættum sameiginleg heldur en að knýja fram á næstunni niðurstöðu í þeim málum sem sundra okkur.

Í Reykjavíkurbréfi blaðsins frá 1. nóvember er vikið að þessum sjónarmiðum mínum og þrenns konar rök færð fram gegn þeim. Í fyrsta er fullyrt, án frekari skýringa, að tími biðleikja á þessu sviði sé liðinn eftir fjármálahrunið nú á haustdögum. Í öðru lagi er nefnt að aðildarumsókn myndi fela í sér sterkari skuldbindingu til að ná Maastricht-skilyrðunum en ella og að með aðild að ESB fengi Ísland stuðning ESB og Seðlabanka Evrópu til að halda genginu stöðugu en utan sambandsins sé slíkan stuðning ekki að hafa. Í þriðja lagi er nefnt í Reykjavíkurbréfinu að þar sem mikill stuðningur sé við upptöku evru í skoðanakönnunum sé í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa áhyggjur af klofningi þjóðarinnar í andstæðar fylkingar í þessum efnum.

Evra í fyrsta lagi eftir 4 til 6 ár
Um öll þessi atriði má auðvitað hafa langt mál. Höfundi Reykjavíkurbréfs er að sjálfsögðu velkomið að kalla tillögu mína biðleik. Hún mótast hins vegar af þeirri staðreynd að hvorki innganga í ESB né upptaka evrunnar sem gjaldmiðils verður að veruleika án verulegs aðdraganda – þar er um að ræða ferli sem óhjákvæmilega tekur nokkur ár. Hér innanlands þarf auðvitað fyrst að útkljá margvíslegar pólitískar og stjórnskipulegar spurningar. Það þarf að ákveða hvernig staðið yrði að aðildarumsókn – ætti það að vera ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar eða ætti að fara fram um það sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla eins og margir hafa lagt til að undanförnu? Hvernig þyrfti að breyta stjórnarskránni til að ESB-aðild yrði möguleg? Hver ættu samningsmarkmið okkar að vera, svo það helsta sé nefnt. Þá þyrfti auðvitað líka að klára sjálfa samningana við ESB, sem óhjákvæmilega tæki líka nokkurn tíma. Þann tíma má auðvitað stytta með því að ganga skilmálalítið eða skilmálalaust að kröfum sambandsins, en ólíklegt verður að teljast að um slíka nálgun næðist mikil samstaða hér innanlands. Þá eru allir sammála um að um ESB-aðild verði ekki tekin endanleg ákvörðun fyrr en lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. En jafnvel að samningum samþykktum og undirrituðum væri eftir formlegt ferli innan ESB, sem líka tæki tíma, ekki síst vegna þess að aðildarsamningur þyrfti staðfestingu á þjóðþingum allra aðildarríkjanna áður en hann tæki gildi. Og þá fyrst, að öllu þessu loknu, tæki við formlegur aðlögunartími að myntbandalaginu, sem í stysta lagi tekur tvö ár miðað við regluverk ESB, en hætt er við að verði lengri í ljósi þess hversu langt við eigum í land með að uppfylla hin margnefndu Maastricht-skilyrði miðað við stöðu efnahagsmála í dag.

Ég get ekki frekar en aðrir fullyrt hvenær við gætum í fyrsta lagi tekið upp evruna í ljósi allra þessara staðreynda. Ýmsir hafa nefnt 4 til 6 ár og verður það að teljast frekar bjartsýnt mat, sem byggir á því að engir sérstakir hnökrar verði á ferlinu. Það má auðvitað kalla tillögu mína biðleik, en með sama hætti mætti kalla flesta leiki biðleiki í ljósi þess hversu langt er þar til upptaka evrunnar væri möguleg.

Mun ESB-aðild sem slík stuðla að stöðugleika?
Vissulega má færa ákveðin rök fyrir því að aðildin sem slík og formlegt aðlögunarferli að stöðugleikaskilyrðum myntbandalagins myndi auka aðhald að stjórnvöldum. Á hitt ber að líta, að reynsla annarra þjóða er mjög misjöfn í þessu sambandi. Þar má benda á að Ungverjaland og Eystrasaltsríkin eru enn mjög langt frá því að uppfylla þessi skilyrði, þrátt fyrir að þau hafi verið aðilar að ESB í fjögur ár og allan þann tíma stefnt að því að taka upp evruna. Í opinberum gögnum frá Ungverjalandi kemur fram að þarlend stjórnvöld telji að enn geti liðið 4 til 6 ár áður en af gjaldmiðilsbreytingunni geti orðið. Og benda má á að staða þeirra innan ESB megnaði ekki að forða þeim frá fjármálakreppu, ekki ólíkri þeirri sem við búum við, og stuðningur Seðlabanka Evrópu við Ungverja kom ekki til sögunnar fyrr en nú fyrir fáeinum dögum, eða um sama leyti og þeir voru að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um stuðning með sama hætti og við erum að vinna að þessa dagana. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það er hæpið að fullyrða, eins og margir ESB-sinnar gera, að ESB-aðild, eða jafnvel bara yfirlýsing um að sækja um ESB-aðild, fæli í sér einhverja sérstaka vörn fyrir íslenskt efnahagslíf. Ég er hræddur um að slík viðhorf mótist meira af óskhyggju en raunsæi.

Óhjákvæmileg átök
Þriðja atriðið, sem höfundur Reykjavíkurbréfs víkur að í skrifum sínum, er að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af klofningi þjóðarinnar í þessum málum ef mikill meirihluti þjóðarinnar vilji aðild að ESB og upptöku evru. Meirihlutinn eigi auðvitað að ráða og minnihlutinn verði að sætta sig við þá niðurstöðu. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær. Bréfritari horfir hins vegar fram hjá því að á leiðinni til aðildar og evru þarf að taka margar ákvarðanir, sem óhjákvæmilega verða umdeildar og munu skipta þjóðinni í andstæðar fylkingar. Það þarf engan sérstakan spámann til að sjá fyrir þær deilur, sem munu verða um ákvörðun um aðildarumsókn, ákvörðun um samningsmarkmið, breytingu á stjórnarskránni til að heimila fullveldisframsal og hvað þá hina endanlegu ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin skref verða tekin á þessari leið nema að undangengnum miklum umræðum og átökum.

Það er áreiðanlega rétt mat að við Íslendingar getum ekki vikist undan því að fara í gegnum þessar umræður á næstu árum. Hér er um að ræða stórmál, sem auðvitað verður að leiða til lykta fyrr eða síðar. Þegar kemur að því að útkljá ágreininginn munu þessi átök yfirskyggja öll önnur viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna. Ekki er við öðru að búast enda er um að ræða ákvarðanir sem verða afdrifaríkar fyrir allt þjóðfélagið um langa framtíð. Verði tekin ákvörðun um ESB-aðild er ljóst að þar er ekki um að ræða neina bráðabirgðaákvörðun til að mæta tilteknum erfiðleikum eða tímabundnum vanda. Slíkri ákvörðun er ætlað að standa um áratugaskeið. Spurningin sem ég velti fyrir mér er sú, hvort þessar deilur séu brýnasta verkefnið í dag og á næstu mánuðum eða hvort ekki væri nær að við reyndum að sameinast um þau viðfangsefni, sem við blasa í efnahagslífi þjóðarinnar og krefjast úrlausnar þegar í stað. Ég taldi – og tel enn – að það geti verið raunhæft fyrir okkur að ná breiðri samstöðu um að vinna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, enda miða þau óumdeilanlega að þeim efnahagslega stöðugleika, sem enginn getur efast um að við þurfum sárlega á að halda.

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 12. nóvember 2008)