ESB óttast að Íslendingar fari að dæmi Norðmanna

Fréttavefur Morgunblaðsins fjallar um það í dag að ráðamenn Evrópusambandsins hafi af því vaxandi áhyggjur að Íslendingar fari að dæmi Norðmanna og hafni því að ganga í sambandið. Smám saman hafa þeir verið að átta sig á því að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur teymt þá á asnaeyrunum og sagt þeim ósatt um afstöðu þjóðarinnar og stuðning ríkisstjórnarinnar við málið. Þeir kunna honum vafalaust litlar þakkir fyrir.

Norðmenn hafa tvisvar hafnað inngöngu í ESB í þjóðaratkvæði, fyrst árið 1972 og síðan 1994. Norðmenn fóru hins vegar í raunverulegar aðildarviðræður við sambandið. Þeir sendu inn umsókn og einfaldar viðræður um inngöngu í ESB hófust. Ekki var hins vegar gert ráð fyrir aðlögun að stofnanakerfi og regluverki sambandsins fyrr en Norðmenn hefðu formlega samþykkt að ganga þar inn.

Reglunum var hins vegar breytt af ESB árið 1995. Þá var gert ráð fyrir því að aðlögunin færi fram samhliða viðræðunum. Íslendingar eru í þessu ferli núna. M.ö.o. er ekki um að ræða sama ferli og Norðmenn fóru í á sínum tíma.

Heimild:
Gætu „tekið Noreg á þetta” (Mbl.is 10/08/10)