ESB skiptir sér af veiðum Íslendinga í eigin lögsögu

Evrópusambandið hefur hótað Íslendingum og Færeyingum að sambandið muni íhuga allar leiðir til þess að koma í veg fyrir að þjóðirnar tvær haldi áfram að veiða makríl í eigin lögsögum. ESB telur sig eiga makrílinn og viðurkennir ekki að hann finnist í íslenskri eða færeyskri lögsögu en þangað hefur hann leitað í miklum mæli að undanförnu vegna að hafið hefur hlýnað á þeim slóðum.

Íslendingar hafa óskað eftir því ítrekað á liðnum árum að semja um makrílveiðar við ESB og Norðmenn en verið neitað. Nú sjá þessir aðilar vafalaust eftir því að hafa ekki samið um veiðarnar við Íslendinga. Ef Ísland hefði verið innan sambandsins er ljóst að við hefðum ekki getað nálgast þetta mál með sjálfstæðum hætti með okkar eigin hagsmuni að leiðarljósi. Þá hefði ESB einfaldlega ákveðið hvernig haldið yrði á þessum málum enda valdið þar með hjá sambandinu til þess.

Fyrir utan makrílinn hefur ESB eins og þekkt er fett fingur út í hvalveiðar Íslendinga. Ísland er ekki enn gengið í sambandið, og mun vafalaust aldrei gera það, en það telur sér engu að síður þegar umkomið að reyna að ráðskast með fiskveiðar Íslendinga í eigin lögsögu.