ESB útilokar norsku leiðina fyrir Ísland

Skrifstofa stækkunarstjóra Evrópusambandsins útilokar að samningar um aðild Íslands verði gerðir á sama grundvelli og samið var við Norðmenn fyrir rúmum 15 árum. Evrópusambandið gerði engar kröfur til Norðmanna að þeir aðlöguðu lög og regluverk að Evrópusambandinu á með viðræður um aðild stóðu yfir. Ísland var sett í aðlögunarferli sem Evrópusambandið hannaði fyrir ríki Austur-Evrópu.

Í viðtali við EU-Observer segir talsmaður stækkunarskrifstofu ESB að aðeins ein leið sé inn í sambandið og Ísland fái ekki undanþágu frá þeirri leið.

,,Sambandsríkin hafa komið sér saman um hvernig samið skuli við umsóknarríki. Ísland samþykkti viðræðurammann og getur ekki vikist undan núna,” segir talsmaðurinn.

Umfjöllun EU-Observer er í tilefni af grein Ögmundar Jónassonar dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu sl. laugardag þar sem hann setti fram þá hugmynd að viðræður um aðild Íslands yrðu færðar út aðlögunarferlinu yfir í raunverulegar samningaviðræður þar sem tekist væri á um grundvallaratriðin. Ögmundur segir slíkar viðræður ekki taka lengri tíma en tvo mánuði.

Evrópuvaktin spurði utanríkisráðuneytið fyrir skemmstu um viðræðuramma Evrópusambandsins. Utanríkisráðuneytið sagðist óbundið af þessum viðræðuramma.

Ögmundur líkir aðlögunarferlinu við skáldsögur Franz Kafka en þær voru gjarnan um fáránleikann í völdunarhúsi valdsins.

Hér er tengill á frétt EU-Observer

Hér er tengill á umfjöllun Evrópuvaktarinnar