ESB: Varanlegar undanþágur í sjávarútvegi ekki í boði

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá Evrópusambandinu, staðfesti í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að Íslendinga gætu ekki átt von á verulegum tilslökunum frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins kæmi til þess að Ísland sækti um Evrópusambandsaðild. Rehn sagði að einhverjar tilslakanir á stefnunni væru hugsanlega mögulegar en þó gætu Íslendingar ekki búist við því að fá meiriháttar undanþágur frá henni.
 
Ljóst er að ummæli Rehn eru í fullu samræmi við málflutning sjálfstæðissinna til þessa. Varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eru ekki í boði í neinu sem máli skiptir enda engin fordæmi fyrir slíku, nokkuð sem Rehn staðfesti í samtali við Fréttablaðið 8. nóvember sl. Rétt er þó að halda því til haga að ráðamenn Evrópusambandsins hafa áður ítrekað staðfest þetta á undanförnum árum.

Í frétt Ríkissjónvarpsins var einnig rætt við Hans Martens hjá hugveitunni European Policy Centre sem sagðist hvetja Íslendinga til að reyna að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins innan frá. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Bretar hafa reynt í meira en 30 ár að ná fram breytingum á sjávarútvegsstefnu sambandsins en án alls árangurs.
 
Heimild:
ESB: Tilslakanir í veiði ólíklegar (Rúv.is 20/11/08)