Evran er bjargarlaus

Amerískir hagfræðingar sem fjalla um evruna eru þeim kostum búnir að sjá hagkerfi Evrópusambandsins úr fjarlægð og eiga ekki hlut að máli, líkt og margir evrópskir starfsbræður þeirra. Grein Tyler Cowen í New York Times um evruna dregur upp þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir myntsamstarfið. Cowen kennir við George Mason-háskólann.

Cowen segir að björgunarsjóður ESB muni ekki koma löndum eins og Írlandi, Portúgal og Grikklandi á beinu brautina. Bankarnir í þessum ríkjum glíma við þann vanda að innistæður eru metnar ótryggar af almenningi. Evru-innistæða í Þýskalandi er betri en evru-innistæða í Grikklandi, Írlandi og Portúgal – og líklega einnig Spáni.

Bankar sem búa við jafnt og stöðugt útflæði innstæðna geta ekki þjónað atvinnulífinu. Það dregur úr vexti sem aftur gerir skuldastöðum viðkomandi ríkissjóða ósjálfbæra. Vítahringnum er lokað með hárri ávöxtunarkröfu á skuldabréf ósjálfbæru ríkjanna.

Cowen bendir á að sökum þess að evru-samstarfið er ekki sterkara en veikasti hlekkurinn getur óreiðuríki eins og Grikkland stundað fjárkúgun gagnvart öðrum ríkjum og hótað að draga sig úr samstarfinu. Óttinn við keðjuverkun í fjármálakerfi álfunnar veldur því að Grikkir geta stillt Þýskalandi upp við vegg.

Kjarninn í evru-vandanum, segir Cowen, er að Evrópusambandið reyndi með pólitískri ákvörðun að verðleggja ólík verðmæti jafnt. Í markaðssamfélagi gengur það einfaldlega ekki  upp.