Evran eykur á efnahagsvanda Grikkja

Leif Pagrotsky, einn af efnahagsráðgjöfum grísku ríkisstjórnarinnar, segir að það hafi aukið á efnahagsvanda Grikklands að vera með evru sem gjaldmiðil. Hefðu Grikkir haldið í sinn gamla gjaldmiðil hefði verið hægt að grípa fyrr í taumana. Pagrotsky, sem er fyrrum iðnaðar-, viðskipta-, og menntamálaráðherra Svía, sagðist í viðtali við sænska ríkisútvarpið ekki vera í vafa um að aðild Grikkja að evrusamstarfinu hafi verið íþyngjandi fyrir efnahagslíf þeirra.

Pagrotsky sagði að viðvörunarbjöllur hefðu farið að hringja mun fyrr en ella ef Grikkir hefðu ekki skipt drökmunni út fyrir evru í upphafi áratugarins. Kerfið sé afar svifaseint eins og sæist vel á því að ríki ESB hefðu ekki getað komið sér saman um leiðir til bjarga Grikkjum í þrjá mánuði. Með hverri viku sem sú ákvörðun hefði dregist hafi efnahagsvandamálin orðið alvarlegri. Með eigin gjaldmiðil hefðu grísk stjórnvöld getað gripið hratt til eigin ráðstafana.

Vaxandi ótti er við að vandamál Grikkja eigi eftir að breiðast út til annarra ríkja evrusvæðisins og hafa áhyggjur einkum aukist af Spáni og Portúgal en einnig Ítalíu og Írlandi og nú síðast Belgíu. Málinu hefur verið líkt við vírus sem breiðist hratt út og enginn ræður við. Danskir hagfræðingar hafa reiknað út að björgun fleiri evruríkjum með sama hætti og Grikklandi gæti kostað hundruðir milljarða evra. Það gæti hæglega orðið evrusvæðinu ofviða.

Gert er ráð fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfi að hafa eftirlit með efnahagsmálum Grikklands a.m.k. næsta áratuginn eða til ársins 2020 þegar búist er við að fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir verði farnar að skila tilætluðum árangri, en þær felast fyrir utan háar lánafyrirgreiðslur frá öðrum evruríkjum m.a. í gríðarlegum niðurskurði í Grikklandi og lækkun launa um 20-25% en þegar hefur verið ráðist í mikinn niðurskurð sem kallað hefur á fjölmenn mótmæli í landinu.

Heimildir:
Evran veldur Grikkjum vanda (Rúv.is 30/04/10)
Telja aðstoðina við evruna dýrkeypta (Vísir.is 01/05/10)
Grikkir undir eftirliti AGS í tíu ár (Mbl.is 01/05/10)
Óttinn við gjaldþrot Grikklands, Portúgals og Spánar í hámarki (Vísir.is 28/04/10)