Evran gerir efnahagskrísuna erfiðari viðfangs

Wilhelm Hankel, hagfræðiprófessor við Háskólann í Frankfurt, sagði í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Rundschau nýverið að hann teldi evruna standa í vegi fyrir því að hægt væri að takast á við efnahagskísuna sem geysar um þessar mundir. Evran væri hindrun í vegi þess að koma mætti böndum á hana og koma hlutunum í réttan farveg á ný. Miðstýrð peningamálastefna Seðlabanka Evrópusambandsins tæki ekki mið af hagsmunum einstakra evruríkja heldur væri aðeins ein stefna fyrir allt evrusvæðið.

Hankel sagði að ríki sem hefðu sinn eigin gjaldmiðil væru að koma mun betur út úr efnahagskrísunni en evruríkin sem væru bundin af evrunni og gætu því ekki aðlagað sig að breyttum aðstæðum og aukið samkeppnishæfni sína. Ennfremur sagði hann að fjármálamarkaðir gerðu ráð fyrir því að evrusvæðið ætti eftir að liðast í sundur, miklar líkur væru á að það gerðist og að það skynsamlegasta í stöðunni fyrir Þjóðverja væri að segja skilið við evruna og taka upp þýska markið á nýjan leik.

Heimild:
“Euro blockiert Kampf gegen die Krise” (Fr-online.de 11/02/09)