Evran: smíðagalli, ofurtrú eða svik? Kostir Íslands

Erindi á fundi Heimssýnar á Húsavík, 14. janúar 2012
Stefán Jóhann Stefánsson

Mér flaug í hug skipið Titanic þegar ég var að hugsa um Gjaldmiðilsbandalag Evrópu um daginn. Það er kannski ekki svo margt líkt með þessu tvennu. Og það er kannski ósanngjarnt að bera þetta saman. Samt hafa ýmsir sagt að það að ætla sér að ganga í ESB og taka upp evru væri eins og ef skipverjar á gömlu, en samt vel sjóhæfu skipi stykkju frá borði og klifruðu um borð í hið sögufræga farþegaskip,Titanic, eftir að það hafði rekist á ísjaka. Og ég hugsaði með mér: Er eitthvað líkt með þessu sögufræga skipi og þessari sögufrægu tilraun til að samhæfa peningamál í Evrópu með því að taka upp einn gjaldmiðil fyrir álfuna í stað margra?


Jú, þegar vel er að gáð eru nokkur atriði ekki ósvipuð. Þeir voru mjög bjartsýnir bátasmiðirnir í Belfast á Írlandi og útgerðarmennirnir þegar þessu glæsilega skipi var hleypt af stokkunum árið 1911. Hið sama gilti um forsvarsmenn evrulandanna og ýmsa fleiri þegar evrunni var komið í flotbryggju árið 1999 sem reikningseiningu og síðan hleypt út á fjármálahafið í formi seðla og myntar árið 2002.  Óheppni olli því að Titanic rakst á ísjaka og sökk í apríl 1912. Sviksamlegt athæfi olli því að björgunarbátar voru ekki til fyrir nema ríflega helming af þeim farþegum og áhöfn sem voru um borð. Það mætti líka segja að það hafi verið óheppni evrunnar að hún lenti í hremmingum fjármálakreppunnar síðustu árin.  ESB og evran á þó einhvern þátt í að framkalla kreppuna með lausatökum, ofurtrú á frjálsræði og ónógu eftirliti. Og það gildir jafnt um evruna og Titanic að björgunarbúnaður er ónógur. Grikkland hefur t.d. verið að sökkva í tvö ár – og marar enn í hálfu kafi án þess að evruríkin eða ESB megni að koma Grikklandi almennilega á ferð. Írland og Portugal eru löskuð en lafa, og segja má að leki hafi komið að Ítalíu og Spáni. Björgunaraðgerðir ESB fyrir þessi ríki leiða hugann að því þegar áhöfn skips notar ákaft ausurnar á meðan skipið er enn lekt. Það er óvissuástand – og við vitum ekki alveg hvað framtíðin leiðir í ljós.

Hver er staðan í evrulöndunum núna samkvæmt síðustu fréttum?
Eflaust hafið þið heyrt fréttir frá í gær og í dag um að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor‘s hafi lækkað lánshæfiseinkunn Frakklands og nokkurra annarra evruríkja. Þetta endurspeglar mat fyrirtækisins á því að það hefur ekki trú á viðleitni evruríkjanna til að styðja við fjármálakerfið í álfunni.
Nokkur evrulönd eru í verulegum vandræðum vegna mikilla skulda og erfiðrar greiðslubyrði. Staða Grikklands er verst. Gríska ríkið getur ekki hjálparlaust greitt af skuldum sínum sem jafngilda 160 prósentum af landsframleiðslu og hafa farið vaxandi (skuldir íslenska ríkisins nema 88% af landsframleiðslu – og aðeins 60-70% ef erlendar fjáreignir eru dregnar frá). Unnið er að því með bönkum í álfunni að fella niður skuldir Grikkja við þá um helming eða um 100 milljarða evra. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að koma samkomulagi um þetta í gegn. Eitthvert hik er í viðræðum grískra stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja í álfunni. Grikkir hafa þótt vera heldur óþægir bandamenn í ESB og stjórnkerfi þeirra og vinnubrögð ekki í takt við  fyrirmyndir úr norðri. Hver neyðarfundur forystumanna í Evrópusambandinu rekur annan til að leysa þetta mál og fleiri. Búast má við því að Grikklandsvandinn muni verða ofarlega á dagskrá evrulandanna næstu mánuði  – og líklega næstu misserin, ef ekki árin.  Grikkir hafa fengið um helming af um 130 millörðum evra sem þeim voru gefin fyrirheit um í lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ESB-sjóðum til að styrkja greiðsluhæfi landsins,  en þeir fá ekki afganginn greiddan fyrr en þeir hafa fullnægt skilyrðum um aðgerðir í ríkisfjármálum. Það kemur væntanlega í ljós í byrjun mars.
Sarkozy Frakklandsforseti og Merkel kanslari Þýskalands munu því hafa nóg að gera. Þau móta í raun stefnuna. Þau eru fulltrúar tveggja öflugustu evruríkjanna og þótt þau séu ekki alltaf sammála virðist það vera svo að ekkert verði gert nema þau nái samkomulagi. Önnur ríki fá bara að fylgjast með og verða að samþykkja þær niðurstöður sem Sarkozy og Merkel, nú stundum kölluð Merkozy, verða sammála um.
Vandinn vegna Ítalíu, þriðja stærsta evruríkisins, hefur verið að aukast. Ítalía er stórabomban sem reynt er að gera óvirka. Það reyndist fjárhagslega tiltölulega auðvelt fyrir Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að aðstoða Grikkland, Írland og Portúgal, en öll hafa þau fengið eins konar sjúkrameðferð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, líkt og Ísland. Þetta eru lítil ríki í Evrópu. Stefnt er að því að björgunarsjóður Evrópu (EFSF: European Financial Stability Facility  – verður síðan ESM) muni hafa yfir að ráða 500 milljörðum evra, en þegar er búið að ráðstafa góðum hluta af því til Grikklands, Írlands og Portúgals. Ef haft er í huga að ríkisskuldir Ítalíu eru um 1900 milljarðar evra sést að þessi björgunarsjóður dugar ekki langt ef Ítalía lendir í vandræðum, hvað þá ef bæði Ítalía og Spánn lenda í greiðsluerfiðleikum, en Spánn er fjórða stærsta evruríkið.
Lendi Ítalía og Spánn í erfiðleikum er því ekki víst að önnur ríki eða AGS geti komið til hjálpar með sama hætti. Slíkur er stærðarmunurinn. Endurfjármögnunarþörf ríkissjóða Ítalíu og Spánar á næstu tveimur árum er um 400 milljarðar evra – næstum því álíka stærð og björgunarsjóðurinn stefnir í. Ríkisskuldir Ítalíu eru yfir 120 prósent af landsframleiðslu. Ríkisskuldir Spánar eru talsvert minni, en þar eru það fremur skuldir einkageirans  – og skuldir þjóðarinnar í heild sem eru áhyggjuefni. Vaxtaálög og vaxtakostnaður ítalska ríkisins hefur aukist og hefur nálgast þau mörk sem teljast vera ósjálfbær, þ.e. skuldirnar koma ekki til með að minnka án sérstakra aðgerða. Grikkland, Spánn og Ítalía eru því þrjár misstórar tifandi tímasprengjur sem óvíst er hvort hægt verði að aftengja í tíma. Almenningur í Evrópu, stjórnmálamenn og fjármálakerfið sveiflast á milli vonar og ótta um það hvort ástandið muni þróast til betri eða verri vegar á árinu. Meira að segja í Tékklandi þar sem ég var nýlega, varð ég var við að fólk hefði af þessu verulegar áhyggjur þótt Tékkar noti ekki evru, því þeir eru mjög háðir viðskiptum við Þýskaland og önnur nágrannaríki.
Það er svo umhugsunarefni að þrátt fyrir að heildarstaða evrusvæðisins sé bærileg þegar litið er til viðskiptajafnaðar við lönd utan svæðis og til afkomu opinberra fjármála í heild – sem er að meðaltali betri en í Bandaríkjunum – þá geta lönd evrusvæðisins eða ESB ekki tekist sjálf á við vandann. Þau verða að kalla til Alþjóðagjaldeyrissjóðsinn og fá þaðan bæði fjárhagsaðstoð og sérfræðiaðstoð. Það er meðal annars vegna reglna ESB sem koma í veg fyrir að einstökum ríkjum verði bjargað beint, og sem meina það að Seðlabanka Evrópu verði beitt í björgunaraðgerðum. Í staðinn verður t.d. Seðlabanki Þýskalands, Bundesbank, að lána AGS – til þess síðan að AGS gæti lánað Ítalíu og Spáni. Einnig er veruleg andstaða meðal þjóða Evrópu að veita fé beint til stuðnings öðrum þjóðum. Hugsunin með samstarfinu í ESB var að ríki sýndu ábyrgð og stæðu sem mest á eigin fótum. Maastricht-skilyrðunum var m.a. ætlað að stuðla að því, en það hefur sem sagt ekki gengið sem skyldi.

Hvað er líklegt að gerist næstu mánuði og misseri?
Það sem nú gerist er að lífróður forystumanna ESB heldur áfram næstu mánuði og misseri. Það er allt kapp lagt á að bjarga málum til að koma í veg fyrir meiri erfiðleika. Spurningin er bara hvort vandinn vaxi mönnum yfir höfuð. Um þetta er erfitt að spá. Þeim fer hins vegar fjölgandi sem spá evruríkjunum miklum vanda út árið og jafnvel næstu ár. Frekara efnahagshrun og mikill samdráttur hefði ekki bara geigvænleg áhrif meðal evruríkjanna, heldur myndi áhrifanna gæta um heim allan og þá líka hér á landi vegna mikilla viðskipta okkar við álfuna.
Í mars verður næsti stóri leiðtogafundurinn í álfunni, en þar á að útfæra nánar þær samþykktir sem gerðar voru 9. desember sl. um nánara samstarf. Það er þó nokkuð víst að það breyti litlu í bráð og varla miklu til lengdar.
Þessar samþykktir leiðtoga ESB-ríkja frá 9. desember fela aðallega í sér áform um að herða á reglum um afkomu ríkissjóða evru-ríkjanna, reglum sem þegar eru fyrir hendi að mestu og bæta við einhvers konar sjálfvirkum refsingum sem þó er ekki ljóst enn hverjar verða.  Þar er aðallega átt við að evru-ríkjum verði refsað verði halli á ríkissjóðum meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu. Auk þess er bætt við ósk um að ríkin setji inn í lög eða stjórnarskrár að svokallaður kerfishalli á ríkissjóði(þ.e. sem er nokkurn veginn óháður hagsveiflunni) megi ekki vera meira en hálft prósent af vergri landsframleiðslu. Þá eru áform um að setja reglur,  – fyrir upphaf næstu hagsveiflu,  eins og það er orðað,  – um að starfsfólk ESB í Brussel fari yfir og meti hvort fjárlagafrumvörp evruríkjanna samrýmist þeim markmiðum sem Gjaldmiðilsbandalagið setur.  Þá eru nánari útlistanir varðandi björgunarsjóði vegna evrunnar og hugmyndir um gjöld á fjármagnstilfærslur, einkum viðskipti með hlutabréf og verðbréf, svokallaðan Tobin-skatt – eða Hróa hattar-skatt – sem reyndar mætir mikilli andstöðu í Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku og víðar. Þarna eru línur lagðar, en nákvæm útfærsla og viðunandi staðfesting réttra yfirvalda er að mestu eftir.  Leiðtogar margra evruríkja vilja fylgja þessu eftir, en talsverð andstaða er meðal sumra forystumanna, hópa og þjóða. Í það minnsta hafa Norðurlöndin og jafnvel fleiri gert fyrirvara um að þjóðþing þurfi að samþykkja breytingar í þessa veru og Bretar hafa neitað að skrifa undir mikilvæga hluta þessara samþykkta.
Með þessum aðgerðum trúa forsvarsmenn myntbandalagsins því þó að styrkari stoðum verði skotið undir.
Ýmsir telja þó að þrennt vanti: Raunhæfan stuðning fyrir banka í vandræðum (sbr. ástæður fyrir nýlegri lækkun á lánshæfiseinkunn fjölda evruríkja), aðgerðir til stuðnings Grikklandi – sem margir telja að neyðist til að gefa evruna upp á bátinn – og síðast en ekki síst: það vanti aðgerðir til að auka hagvöxt í álfunni. Þótt Seðlabanki Evrópu hafi sett vextina niður í 1% er það ekki talið duga, enda sé bankinn fyrst og fremst að hugsa um að halda verðbólgu í skefjum.

Hver er ástæðan fyrir evruvandanum?
Hver er svo ástæðan fyrir þessu? Var ekki allt í lukkunnar velstandi þegar evrunni var hleypt af stokkunum endanlega árið 2002. Framtíðin virtist mörgum björt eins og ég nefndi í upphafi. Það voru samt nokkur atriði sem ýmsir höfðu bent á að vantaði. Það skorti t.d. tilfinnanlega stóran og sterkan ríkissjóð sem bakhjarl fyrir evruna. Sá er t.d. munur á Bandaríkjadal og evru. En það vantar ekki aðeins fjármuni. Það skortir líka vilja meðal flestra ríkja að draga Grikki upp úr feninu. Íbúar Þýskalands, Finnlands, Frakklands og annarra ríkja vilja ekki sjá á eftir of miklu af skattgreiðslum sínum lenda í skuldahítinni hjá ríkjunum í suðri. Efnahagur landanna, stjórnarhættir, vinnu- og verkmenning hafa reynst of ólík og hafa verið samstarfinu fjötur um fót.

Hvaða skilyrði uppfyllir EMU ekki sem hagkvæmt gjaldmiðilssvæði?
Almennt er talið að ríkjasvæði þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að teljast það sem kallað er hagkvæmt gjaldmiðilssvæði. Vissulega uppfyllti ESB sum þessara skilyrða. Viðskipti landanna eru mjög mikil, þótt Grikkland sé þar undantekning, en það er almennt talið gott að hafa sömu mynt ef innbyrðis viðskipti eru mikil. Hagsveiflur landanna hafa verið áþekkar, en það er almennt talið skilyrði fyrir sameiginlegri mynt og sameiginlegum seðlabanka, vaxta- og peningastefnu að hagvöxtur þróist með líkum hætti, þ.e. uppsveifla á svipuðum tíma og afturkippur í hagkerfinu á svipuðum tíma.  Þá hafa fjármagnstilfærslur verið tiltölulega greiðar, einkum þegar um stærri viðskipti er að ræða. Menning er hins vegar ólík og vinnumenningin í mörgum tilvikum gjörólík, einkum á ríkjunum í suðri og norðri. Auk þess virðist hreyfanleiki vinnuafls í álfunni vera of lítill til þess að svæði uppfylli það skilyrði um hagkvæmni. Hreyfanleiki vinnuafls er miklu meiri í Bandaríkjunum og Bretlandi svo dæmi sé tekið. Það er einnig líklega talsverður munur á vinnumóral og fylgni við reglur annars vegar á Ítalíu og Grikklandi og á Norðurlöndunum hins vegar. Eitt skilyrði til viðbótar er að raunlaun séu sveigjanleg svo hægt sé að bregðast við breytingum í atvinnuleysi. Það er vafasamt að svo sé þegar litið er á mikið og staðbundið atvinnuleysi í álfunni – upp undir 30 prósent í sumum héruðum.

Evrópa uppfyllti því nokkur skilyrði sem fræðimenn settu fyrir gjaldmiðilsbandalög en alls ekki öll. Og þessu til viðbótar er atriði sem ýmsir hagfræðingar töldu á sínum tíma að myndi skipta sköpum fyrir þróun bandalagsins. Það var það að það vantaði stóran og sterkan ríkissjóð sem bakhjarl fyrir evruna, eins og ég nefndi áðan. Evrópusambandið hefur aðeins úr litlu broti þeirra fjármuna að moða sem ríkissjóðir landanna hafa yfir að ráða. Seðlabanki Evrópu á aðallega að stuðla að stöðugu verðlagi og koma peningum í umferð í samstarfi við seðlabanka landanna, en hann á ekki að prenta peninga til að standa undir kostnaði við útgjöld eða borga skuldir ríkjanna.
Ýmsir framámenn í Evrópusambandinu skammast nú út í kollega sína fyrir það að hafa ekki viljað mynda nánara samstarf í ríkisfjármálum strax í upphafi. Maastricht-skilyrðunum svokölluðu var ætlað að koma að hluta í staðinn fyrir ríkisfjármálasamstarfið. Þau kváðu jú á um að rekstrarhalli á ríkissjóðum ár hvert mætti ekki vera meiri en 3% og að skuldir hins opinbera mættu ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu. Þetta var allt reyndar þverbrotið strax í upphafi. Belgar, Ítalar og Grikkir fengu að taka upp evru þótt skuldir ríkissjóða landanna væru meira en 100% af landsframleiðslu. Og þegar ríkisrekstur gekk illa um stund hjá Þjóðverjum og Frökkum fengu þeir að sleppa við sektir þótt þeir færu yfir 3% skilyrðin. Þessi tvö megin evruríki hafa brotið þessar reglur 6 sinnum og komist upp með það (samtals 70 brot á þessum reglum).
Hvað varðar önnur svokölluð Maastricht-skilyrði sem áttu að auka á samruna í efnahagsmálum meðal evrulanda, þá hefur reyndin þvert á móti orðið sundurleitni fremur en samruni. Þannig hefur verðbólgumunur aukist og vaxtamunur sömuleiðis, samanber vexti á grískum, ítölskum og spænskum ríkisskuldabréfum.
Það er því margt sem ekki hefur gengið upp í evrusamstarfinu þótt forystumennirnir berji sér á brjóst og setji á laggirnar fjölmennar skrifstofur víða, m.a. hér á landi, sem halda fram kostum evrusamstarfsins.

Pólitísk skilyrði ófullnægjandi
Ýmsir fræðimenn hafa bent á að pólitískar forsendur fyrir upptöku evrunnar hafi verið ófullnægjandi. Þannig segir norskur stjórnmálafræðiprófessor, Janne Haaland Matlary að það sé ekki bara þannig að það séu engin skynsamleg efnahagsleg rök fyrir tilvist evrunnar. Það sé ekki síður áhyggjuefni að evrusamstarfið byggi á mjög veikum pólitískum og lýðræðislegum grunni, samanber mjög skiptar skoðanir innan ESB-landa um ESB og evru. Svo borið sé saman við Bandaríkin þá efast fáir þarlendir um tilverugrundvöll ríkisins eða um ágæti Bankaríkjadals. Auk þess séu evrulöndin með mjög ólík stjórnkerfi og samfélagsgerð. Munurinn á löndunum í suðri og austri annars vegar og í norðrinu hins vegar virðist ekkert vera að minnka. Samþykktir í Brussel muni hafa lítil áhrif því það er miklu lengra á milli orða og athafna í alþjóðlegu samstarfi en innan einstakra landa.
Þetta eru athyglisverð orð sögð af þessum prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Osló sem var valin sem eini útlendingurinn í nefnd á vegum Göran Perssons fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar til að meta hvort evran gæti verið góð lausn fyrir Svíþjóð. Í grein sem hún skrifar í norska dagblaðið Dagens Næringsliv 2. janúar síðastliðinn segir hún að inntakið í 500 síðna skýrslu Perssons um evruna hafi verið að efnahagslega væri evran ekkert sérstaklega góð hugmynd, en að hún gæti stuðlað að pólitískri sameiningu.  Svo virtist á fyrstu árunum, en að undanförnu hefur allt farið á verri veg. Meginvandinn, segir Janne, er að það skorti djúpa pólitíska vitund um að evrulöndin eigi eitthvað sameiginlegt og þessa vitund sé ekki hægt að skapa  sameiginlega í svo mörgum og gjörólíkum þjóðfélögum.
Í greininni rekur hún muninn á réttarríkjunum í Norður-Evrópu og ríkjunum í suðri og austri sem séu veik og einkennist af spillingu og klíkuskap. Einkum nefnir hún til sögunnar Grikkland, þar sem stöður séu veittar vinum og kunningjum, og Ítalíu, þar sem ekki einu sinni hinn svokallaði SuperMario Monti hefur þorað að leggja til atlögu við forréttindi þingmanna sem hafi á bilinu sem svarar 3,5-5 milljónum króna í mánaðarlaun, auk bílstjóra og launa frá fyrri störfum!
Þetta eru talsvert stór orð hjá prófessornum.  En hún ætti vita hvað hún syngur eftir langar og ítarlegar rannsóknir.  Það er því mjög athyglisverð setning sem má finna í grein hennar. Hún segir nefnilega að rannsóknir sýni að vald ESB yfir löndum sem sótt hafi um aðild sé sérstaklega mikið. Það ætti því ekki að koma á óvart að ákveðnir ráðherrar á Íslandi liggi kylliflatir fyrir ESB-valdinu og þessum eina sem þvældist verulega fyrir var á endanum sparkað úr stólnum.
Hér má svo bæta því við fyrst minnst er á pólitískt ástand og stöðu að þróunin að undanförnu í Ungverjalandi veldur helstu ráðamönnum í álfunni verulegum áhyggjum. Þar í landi hefur verið þrengt að sjálfstæði seðlabankans – sem eitt og sér gæti komið í veg fyrir að Ungverjalandi tæki upp evruna, auk þess sem vald forstætisráðherra hefur verið aukið talsvert. Það er jafnvel rætt um þann möguleika að Ungverjalandi verði vikið úr ESB vegna þess að dregið hafi úr lýðræði þar í landi.

Er búið að bjarga evrunni?
Er búið að bjarga evrunni? Nei, það er ekki víst. Það er sjálfsagt gerlegt, en það mun taka nokkurn tíma, jafnvel þó nokkur ár og það mun kosta talsverða fjármuni, fórnir og breytingar á starfsháttum, skipulagi, vinnubrögðum og samfélögum í álfunni.
Ýmsir sérfræðingar lítt tengdir ESB-stofnunum og margir álitsgjafar fjölmiðla í álfunni eru þó á því að óvíst sé að fyrirkomulag myntbandalagsins muni ganga upp til lengdar og að nýlegur toppfundur stjórnmálaleiðtoga ESB breyti þar litlu um. Áframhaldandi hræringar á fjármálamörkuðum benda heldur ekki til þess að þátttakendur þar trúi því að samþykktir leiðtoganna breyti miklu, hvað þá það að lánshæfismatsfyrirtækin Moody‘s og Standard & Poor‘s hafa verið með evruríkin undir smásjá og breytt lánshæfiseinkunnum ríkjanna.
Fyrstu árin eftir upptöku evrunnar trúðu margir því að hún væri á beinu brautinni, enda gekk ýmsum löndum þá flest í haginn. Þá voru líklega margir búnir að gleyma varnaðarorðum ýmissa sem sögðu t.d. að myntbandalag án sameiginlegra ríkisfjármála fengi ekki staðist til lengdar, því gjaldmiðill þyrfti að hafa ríkissjóð sem bakhjarl. Reyndar hafa ýmsir forkólfar evrunnar, eins og Jacques Delors, síðustu vikur skammast yfir því að farið skyldi af stað með evruna á meingölluðum stofnanagrunni.  Ég get ekki séð að þessar samþykktir leiðtoga ESB frá 9. desember eða þau áform sem þær fela í sér breyti nokkru að ráði. Þar er ekki stefnt að sameiginlegum ríkisfjármálum heldur að því að skerpa á reglum sem þegar eru til staðar að miklu leyti.  Og áformin er varða reglur og skipulag á fjármálamörkuðum virðast heldur óljós enn sem komið er. Þetta breytir því engu sérstöku fyrst um sinn því skuldavandinn hverfur ekki vegna þessara samþykkta. Hann verður viðloðandi næstu misserin og árin óháð þessu. Það kann að vera að þessar skerptu reglur dragi úr skuldasöfnun evruríkjanna í fjarlægri framtíð. Það er vonandi fyrir þjóðirnar í álfunni.

Grundvallarvandinn
Tilraunir leiðtoga ESB nú til bjargar evrunni draga varla úr þeim grundvallarvanda sem evruríkin búa við. Það er í raun eftirtektarvert að talsmenn Evrópusambandsins minnast að því er virðist ekkert á þennan vanda. Það hafa hins vegar ýmsir forsvarsmenn hagfræðistofnana á alþjóðavísu (m.a. Daniel Gros sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabanka Íslands), einhverjir sérfræðingar og fjölmiðlamenn gert að undanförnum árum.
Og hver er þá þessi grundvallarvandi sem veldur því að þróun hagrænna atriða í evrulöndunum hafa ekki leitað í sama farveg  – eins og búist var við með sameiginlegum markaði og sameiginlegri mynt – mynt sem átti reyndar einhvern tímann að vera endahnúturinn á samrunaþróuninni í álfunni.
Þessi vandi er tiltölulega augljós þegar menn koma auga á hann. Hann er sá að samkeppnisstaða evruríkjanna hefur þróast með mjög mismunandi hætti. Þar skiptast ríkin talsvert í tvö horn þar sem öflugt Þýskaland er fyrirferðarmest annars vegar vegna samkeppnisyfirburða sinna. Fyrir vikið hafa þýskar vörur átt greiða leið á markaði annars staðar. Í hinu horninu eru flest jaðarríkin hverra vörur þykja mun minna samkeppnishæfar sökum óhagstæðrar verðþróunar.  Afleiðingin hefur orðið sú að umtalsverður viðskiptaafgangur hefur verið í utanríkisviðskiptum Þjóðverja og þeir hafa safnað auði á meðan jaðarþjóðirnar hafa eytt um efni fram. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að verðhækkanir hafa verið talsvert meiri í mörgum jaðarlöndunum en í Þýskalandi og suðrænar vörur hafa því síður átt upp á pallborðið hjá neytendum í álfunni en áður.
Þær aðgerðir sem stefnt er að því að grípa til hafa að líkindum ekki mikil áhrif á þennan vanda. Það er ekki ætlunin að styrkja þau svæði að einhverju marki sem hafa orðið undir, kannski lána þeim peninga, en að öðru leyti verða þau bara að herða sultarólina. Þótt evran hafi skapað Þjóðverjum auð vilja þeir ekki láta hann af hendi. Það er út af fyrir sig skiljanlegt því meginhugsunin er sú að hvert ríki standi á eigin fótum. Auðvitað getur þessi þróun breyst með einhverjum hætti. Það er hins vergar ekki fyrirséð að aðgerðir leiðtoganna muni draga verulega úr vanda evrunnar eða bjarga henni.
Önnur spurning sem e.t.v. mætti spyrja er: Munu einhver ríki fara úr gjaldmiðilsbandalaginu? Og: Mun Evrópa þróast í mismunandi lögum, þar sem sum ríki verða með evruna, en önnur halda í sína gjaldmiðla eða jafnvel að einhver nýr gjaldmiðill verði sameiginlegur fyrir nokkur lönd, t.d. Norðurlöndin? Um þetta allt er erfitt að spá. Minna má t.d. á að fáir sáu fyrir hrun Sovétríkjanna og Austurblokkarinnar eins og það varð. Það voru heldur ekki margir sem sáu fyrir hrun fjármálakerfisins árið 2008, hvorki hér á landi né annars staðar. Allir svona spádómar eru erfiðir, en þó má benda á að þeim virðist fara fjölgandi sem segja að eina leiðin til bjargar fyrir Grikki sé sú að þeir yfirgefi evrusamstarfið, að minnsta kosti um stundarsakir.

Það er alltént hægt að slá því föstu að grunnur evrusamstarfsins er meingallaður, eins og Delors og fleiri halda fram. Það nægir bara að líta á afleiðingarnar eins og þær eru í dag. Ein afleiðingin er sú að veran í myntbandalaginu hefur hjálpað Grikkjum, Írum og fleirum við að safna óhóflegum skuldum vegna þess að þeir hafa fengið lánin á lægri vöxtum þar sem traustsáhrifin frá Þjóðverjum hafa smitast yfir á aðra. Það eru ýmsir sem gleyma þessu – og jafnframt því að skuldavandinn sem að hluta til er afleiðing evrunnar er nú að grafa undan bæði evrusamstarfinu og samstarfi innan ESB.

Sundurleitni – ekki samleitni
Þótt ýmsir hagfræðingar hafi lagt áherslu á alvarleika þess að sundurleitni skuli eiga sér stað í samkeppnishæfni eins og hún sýnir sig í vinnuaflskostnaði í álfunni, þá eru það fleiri atriði í hagþróuninni sem leita í sundur en ekki saman eins og var markmiðið með evrusamstarfinu. Það átti að leiða til þess að sérstaklega verðbólga og vextir leituðu í sama farveg og virtist það ganga eftir fyrstu velmegunarárin. En síðustu ár, og þar með árin fyrir hrunið, kom annað á daginn. Verðbólga hefur þróast með mismunandi hætti. Þannig jókst verðbólgumunur úr 2% árið 1999 í tæp 6% árið 2009, munur á hagvexti jókst nokkuð og á atvinnuleysi talsvert, munur á ríkisskuldum jókst og á launakostnaði. Á síðustu misserum höfum við svo séð að munur á vissum vöxtum hefur aukist talsvert.

Á þennan hátt hefur evran ekki staðið undir fyrirheitum um samleitni á svæðinu heldur þvert á móti hefur Gjaldmiðilsbandalagið í raun hjálpað til við að kljúfa jaðarlöndin frá kjarnalöndunum. Það virðist ljóst að það mun verða hlutskipti bandalagsins um ófyrirsjáanlega framtíð. Löndin sem bera hvað mestar skuldir eru þvinguð til svokallaðrar innri gengisfellingar sem felur í sér lækkun á launakostnaði. Til að slíkt megi takast þarf fyrst að eiga sér stað talsverður samdráttur í landsframleiðslu og mikið atvinnuleysi í einhvern tíma.
Allt þetta, auk ósveigjanlegs vinnumarkaðar og fleira gerir það að verkum að það virðast næg rök benda til þess að Evrópa sé ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði og að evran muni um ófyrirsjáanlega framtíð hvíla á veikum stoðum. Og hvað Ísland varðar þá hafa mikilvæg rök, m.a. um mismunandi hagsveiflur sem gera sömu peningastefnu óhagkvæma, bent til þess að Ísland sé ekki eðlilegur hluti af þessu óhagkvæma evrópska myntsvæði.

En hvað með Ísland?
Hvað eiga Íslendingar að gera? Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu þótt annar stjórnarflokkurinn telji slíka aðild Íslendingum ekki til hagsbóta. Margt hefur breyst frá því umsóknin var samþykkt – og margt á eftir að breytast. Samt hefur umsóknarferlið – sumir kalla það aðlögunarferlið – haldið áfram. Fari svo að samningar náist verða þeir að öllum líkindum lagðir fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Þótt nú sé útlit fyrir að þeim yrði hafnað veit enginn hver staðan yrði þegar þar að kæmi. Fari svo að samingarnir verði samþykktir göngum við inn í ESB og hefjum undirbúning að upptöku evrunnar. Það ferli tæki að minnsta kosti nokkur ár, en til að geta tekið upp evruna þyrfti gengi krónunnar að vera tiltölulega stöðugt hér í a.m.k. tvö ár, verðbólga ekki að víkja mikið frá meðaltali þeirra landa þar sem hún er minnst, nafnvextir langtímaskuldabréfa ekki vera meira en 2 prósentum hærri en langtímavextir í löndum með lægstu verðbólguna, halli á opinberum rekstri ekki að vera meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu og opinberar skuldir ekki vera meiri en sem nemur 60% af landsframleiðslu eða stefna hratt að því marki ef það er hærra. Miðað við efnahagsgrunn Íslands og þær sveiflur sem stafa m.a. frá sjávarútvegi má ætla að okkur gæti orðið erfiðara en ýmsum öðrum að ná þessu marki. En gangi þetta allt saman eftir – gæti svo farið að hér yrði tekin upp evra.

Evran hentar ekki – ekki hagkvæmt gjaldmiðilssvæði
Þá er bara vonandi að við lendum ekki í svipaðri stöðu og Írar, Portúgalir, Spánverjar, Ítalir eða Grikkir. Í öllu falli er hætt við því að ýmislegt yrði hér stífara og erfiðara. Hagsveiflur eru ekki þær sömu hér og í Evrópu, hvorki hvað umfang né tíma varðar. Þess vegna hentar ekki sama vaxta- eða peningastefna, þ.e. stýrivextir sem seðlabankar ákveða. Við erum lítið hagkerfi sem hefði lítil áhrif á meðaltalsþróun í Evrópu þannig að vextir tækju mið af stærri löndunum en ekki okkur. Þetta gæti haft í för með sér að annað hvort yrði hér miklu meira atvinnuleysi en ella – eða meiri verðbólga. Tilhneigingar í þessa átt höfum við séð í þessum hefðbundnu vandræðalöndum sem hér hafa verið nefnd – en líka í Finnlandi og víðar. Auk þess er ég ansi hræddur um að vera okkar í ESB myndi draga úr okkur framtaks- og framkvæmdamátt, bæði vegna meiri reglugerðarfargans og þyngsla (t.d. í sjávarútvegi) og vegna þess að of mikill tími færi í að leita að spenum evrópusjóðanna og komast á þá.

En ef við förum ekki í ESB og tökum upp evru
Förum við hins vegar ekki þessa leið þá held ég að það sé vert fyrir okkur að hafa í huga að þrátt fyrir allt er Ísland með best settu velferðarríkjum í veröldinni. Það er margt sem er betra einhvers staðar annars staðar en í heildina tekið höfum við það hvað best. Þannig hafa tekjur á mann að meðaltali verið lengst af síðustu áratugi með því mesta sem gerist. Við höfum stundum verið í einu af efstu fimm sætum á tekjulista þjóða heims – og það þrátt fyrir þessa blessaða krónu. Það er ekki til marks um galla eða gagnsleysi krónunnar að gengi hennar hafi fallið svo og svo mikið gagnvart dönsku krónunni frá því sjálfstæð myntskráning hófst fyrir um 90 árum. Það er á vissan hátt þvert á móti kostur að gengi gjaldmiðla breytist miðað við aðstæður. Það er ekki gjaldmiðlunum að kenna að gengi breytist heldur eru það yfirleitt aðrir þættir í efnahagslífinu sem því ráða. Það er eðli gjaldmiðla að gengi þeirra breytist – og þeir væru gagnsminni ef svo gerðist ekki. Gengisbreytingar jafna hagsveiflur – gengisfall hjálpar ríkjum að komast út úr vandræðum og gengishækkun getur kælt hagkerfið þegar hitinn er orðinn of mikill. Þetta er grunnstefið – þótt þessu geti fylgt flöktandi hljóð og einhver óþægindi um stund.
Fjármálakreppan hefur riðið húsum um allan hinn vestræna heim. Meginuppsprettan var í Bandaríkjunum, en Evrópa átti sinn þátt. Íslenskir fjármálafurstar gerðu sitt hér á landi og stjórnvöld voru sjálfsagt ekkert skárri en annars staðar. Afleiðingin varð fjármálahrun eftir að bankakerfið óx okkur yfir höfuð. Ef við hefðum haft evru eins og sumir vildu hefðu bankarnir hugsanlega orðið mun stærri og hrunið stærra og afleiðingarnar fyrir ríkissjóð jafnvel mun verri.
Að ráðleggingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru sett hér á gjaldeyrishöft sem nú vernda gjaldmiðil okkar, fjármálakerfi og efnahagslíf að nokkru leyti gegn ágjöf í þeim ólgusjó sem ýfst hefur upp á okkar heimssvæði. Verið er að stíga skref til að aflétta þessum höftum í áföngum. Kostir þeirra í upphafi voru ótvíræðir. Þeir komu í veg fyrir að stórir fjáreigendur tækju fé sitt úr landi þegar bankarnir hrundu. Það hefði getað grafið undan greiðsluhæfi landsins. Gallarnir sem fylgja þessum gjaldeyrishöftum eru einhverjir, en þrátt fyrir gagnrýni þá virðast kostirnir enn vera meiri. Þess vegna eru þau enn til staðar. Höftin hafa óveruleg áhrif á alla venjulega efnahagsstarfsemi og almenningur finnur lítið fyrir þessum vörnum. Neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu eru að mínu viti ofmentin. Það verður því líklega bara að fá að taka sinn tíma úr því sem komið er að aflétta höftunum, og enn er óvíst að stórfjárfestar séu eins óþolinmóðir að taka fé sitt úr landi og ýmsir vilja vera láta. Ástandið er jú ekki svo beisið víða annars staðar.

Nýtum kosti krónunnar áfram
Við verðum því að búa við krónuna enn um sinn, fyrst um sinn vel varða fyrir utanaðkomandi fjármálaspekúlöntum. En þegar frá líður þurfum við einhver viðbótartæki. Nú er mikil umræða í Evrópu og víðar um að skattleggja stórar fjármagnstilfærslur, sbr. umræðuna um Tobin-skattinn – eða Hróa-Hattar-skattinn. Það er að sjálfsögðu atriði sem við þurfum að huga að. Ef stærstu ríkin með Frakkland og Þýskaland í fararbroddi eru að huga aðgerðum af þessu tagi þá ættum við líka að skoða þessar leiðir. Eftir að hafa haft þessi gjaldeyrishöft í nokkur ár þá gæti skrefið yfir í einhvers konar Tobin-skatt – sem dregur úr skaðlegum fjármagnstilfærslum verið tiltölulega stutt.
Fyrir utan þetta þarf að beita ýmsum öðrum varúðartækjum í meira mæli en gert hefur verið.  Líklega er eitt það mikilvægasta að hugað verði að því að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, safni ekki of miklum skuldum. Að því leyti er viðmiðunin um 3% halla og 60% skuldir alls ekkert óskynsamleg. Ríkisbúskapurinn var að sumu leyti í ágætum málum fyrir hrunið. Skuldir fóru minnkandi – en hefðu þurft að fara meira minnkandi. Stjórnmálamenn þurfa því að standa í lappirnar og gæta þess að ríkisfjármálin séu á réttu róli.

Þessi atriði sem ég hef hér nefnt tengjast því sem sumir hafa kallað verðbólgumarkmið plús. Með því er átt við að peningastefnan á Íslandi muni áfram miða við það að halda verðbólgu í skefjum með þeim tækjum sem tiltæk eru, þ.e. einkum stýrivöxtum Seðlabanka. Jafnframt verði gerðar umbætur á þessari framkvæmd, m.a. til að tryggja betur fjármálalegan stöðugleika en gert hefur verið. Hér er átt við ýmsar reglur um eigið fé, fé í afskriftarsjóði, mögulegar takmarkanir á útlánum til einstakra geira (jafnvel bann á lánum í erlendum myntum til sveitarfélaga eða þeirra sem hafa ekki tekjur í erlendum myntum), stífara greiðslumat lántakenda og fleira. Í raun er hér verið að leggja að til að reglum og eftirliti verði beitt með skilvirkari hætti en gert var fyrir fjármálahrunið – en það var einmitt aflétting ýmissa reglna og ónógt eftirlit sem varð þess valdandi að fjármálakreppan varð jafn djúp og raun ber vitni.

Að lokum
Það er því ýmislegt hægt að gera. Það er gott að búa á Íslandi – hvar á landinu sem er að mínu mati. Við búum í velferðarþjóðfélagi jafnvel þótt víða sé langt á milli bæja. En við verðum líka að viðurkenna afleiðingar þess að búa í strjálbýlu landi. Þá verða leiðir lengri og flutningskostnaður t.d. meiri. Þess vegna lækkar ýmis kostnaður ekkert við það að ganga í Evrópusambandið eins og sumir gefa í skyn.
Eins og ég sagði áðan: Síðustu áratugi hafa lífskjör verið með besta móti á Íslandi ef borið er saman við önnur lönd.
Við skulum því draga djúpt andann – horfa fram á veginn – fikra okkur hægt og bítandi út úr kreppunni – því skyndilausnir geta virst varasamar. Að mínu mati er versta og hættulegasta skyndilausnin sú að reyna að hlaupa inn í Evrópusambandið og taka upp evruna. Þá gæti farið fyrir okkur eins og fór fyrir Nýfundnalandi eftir að það gekk í samband við Kanada – og áratuga afturför fylgdi.

Látum það ekki henda. Stöndum í lappirnar – stöndum á eigin fótum – afhendum ekki einhverjum skriffinnum í Brussel auðlindir Íslands og göngumst ekki frekar undir vald skrifræðisins í álfunni. Þótt íslenska skrifræðið sé oft ekki gott – þá er það skömminni skárra en það evrópska í flestum tilvikum – og það er nær – það er hægt að ná til þess og breyta því ef við viljum. Við breytum ekki ESB ef við færum þangað inn.  Við skulum leysa okkar mál á okkar forsendum eftir því sem hægt er og stuðla áfram að því að sá kraftur sem býr í Íslendingum nýtist þjóðinni til farsældar.

Takk fyrir.