Evrópusamband í uppnámi ekki fýsilegt fyrir Ísland

Hver höndin er upp á móti annarri innan ESB eins og fram kemur nú í aðdraganda leiðtogafundar þess. Efnahagskreppan í einstöku aðildarríkjum dýpkar dag frá degi. Í gær þyrptust 100-200 þúsund Írar út á götur í kröfugöngu gegn ástandinu. Á Írlandi er gjaldmiðillinn evra og gerir það stjórnvöldum ókleift að grípa til sértækra aðgerða. Í Lettlandi hafa geisað götubardagar undanfarið þar sem krafist er afsagnar ríkisstjórnar landsins sem tengt hefur gjaldmiðilinn lati við evru en sú ráðstöfun bindur hendur stjórnvalda. Þetta er þó sú leið sem ýmsir ESB-sinnar hérlendis hafa lagt til með krónuna.

Svipað ástand og í Lettlandi getur skapast fyrr en varir í öðrum Eystrasaltsríkjum og víðar innan sambandsins, m.a. í Búlgaríu. Í Grikklandi hefur allt verið í uppnámi mánuðum saman. Í kjarnaríkum ESB, Frakklandi og Þýskalandi grefur óánægja almennings um sig og skýrir það m.a. orðaflaum Sarkosys Frakklandsforseta um siðbættan kapítalisma. Hann hefur ástæðu til að óttast að franskur almenningur rísi upp þegar ástandið versnar.

Hvernig í ósköpunum dettur Samfylkingunni og Framsóknarflokknum í hug að krefjast við þessar aðstæður að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu?

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur