Evrópusambandið og veruleikinn

Halldóra Hjaltadóttir

Eftir Halldóru Hjaltadóttur – birtist í MBL 23. jan 2012

Ísland er eitt margra landa sem mynda Norðurálfu. Álfan er ekki eitt land, ekki samofin heild og getur aldrei orðið eitt land þrátt fyrir drauma hugsjónamanna. Löndin eru mörg og hvert öðru ólík. Þau hafa sína eigin menningu, sitt eigið tungumál, jafnvel sína eigin þjóð og sál sem aldrei verður föl.

Fæðing Evrópusambandsins var á sínum tíma fallegur draumur manna sem þráðu frið og efnahagslegan stöðugleika. Þeir ákváðu þó í fyllingu tímans að færa þetta efnahagsbandalag í átt til sambandsríkis, þvert á vilja almennings í aðildarríkjunum.

Evrópusambandið er ekki venjulegt milliríkjasamstarf eins og margir vilja vera láta, vegna þess að ámóta samstarf á milli ríkja fyrirfinnst ekki í sögunni. Fræðimenn þrá að ræða þetta ríkjasamband, deila um það og velta vöngum yfir örlögum þess. Blekkingum er beitt til þess að telja fólki trú um að stjórnsýsla Evrópusambandsins sé góð og stöðug. Sannleikurinn er hins vegar sá að hún er orðin bæði risavaxin og flókin. Stjórnsýsla ESB er pólitísk tímasprengja. Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær hún springur.

Ríkin eiga líka í miklum skuldavanda og hagkerfi evrusvæðisins eru mörg hver í molum. Víða kreppir að í efnahagslífi og þörf er á mjög róttækum aðgerðum til þess að sporna við þeirri sundrungu sem við blasir. Þessar aðgerðir eru okkur ósýnilegar. Þær tillögur sem komið hafa upp á yfirborðið eftir endalausa neyðarfundi leiðtoga evruríkjanna duga skammt. Daglega birtast fréttir af efnahagslegum hörmungum aðildarríkjanna. Þessar fréttir birtast í öllum helstu fjölmiðlum erlendis. Fræðimenn eru margir hættir að lýsa ástandinu eins og það ætti að vera og einbeita sér að því að lýsa því eins og það raunverulega er.

Framtíð ESB er bæði óljós og ógnvekjandi. Það skýtur skökku við að ríkisstjórn Íslands leggi allt undir fyrir aðlögunarferlið á meðan horft er framhjá tækifærum sem bíða þess að verða nýtt. Norðlægar slóðir eru að opnast og viðskipti við umheiminn bíða átekta.

Orkusala, framkvæmdir, framleiðsla á vistvænu eldsneyti og alvöru umræða um lausnir á gjaldmiðilsmálum Íslendinga eru verkefni sem taka þarf á. Stjórnvöld eyða dýrmætum tíma og kasta tækifærum á glæ. Það er því þyngra en tárum taki að vita af mörgum Íslendingum ginnkeyptum fyrir jólapakkarökum aðildarsinna. Þau lýsa sér á þann hátt að fólk er hvatt til þess að hleypa aðlögunarferlinu alla leið til þess eins að sjá í pakkann. Innihald hans kemur í sjálfu sér ekkert á óvart, enda er það Evrópusambandið í öllu sínu óhugnanlega veldi sem stendur til boða, en ekki sérvaldir hlutar þess.

Það er mikilvægt að skoða Evrópusambandið með báða fætur á jörðinni, sjá veruleika þess og fljóta ekki sofandi að feigðarósi. Verum skynsöm og krefjumst þess að stjórnvöld dragi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.