Evrópuumræðan hér og í Noregi

Ný skýrsla í Noregi um samninginn um evrópska efnahagssvæðið, EES-samninginn, varpar ljósi á ólíka stöðu Evrópuumræðunnar hér á landi og í Noregi.

Skýrslan er gerð að kröfu andstæðinga aðildar Noregs að Evrópusambandinu. Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, sem kemur úr Verkamannaflokknum og er aðildarsinni, kom í veg fyrir að nefndin sem samdi skýrsluna myndi gera grein fyrir valkostum Noregs ef EES-samningunum yrði sagt upp.

Aðildarríki EES-samningsins eru núna EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Lichtenstein annars vegar og hins vegar 27 ríki Evrópusambandsins.

EES-samingurinn frá 1992  á ,,„að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði.“

Gagnrýni á EES-samninginn hefur frá upphafi verið að reglur sem ákveðnar eru af Evrópusambandinu öðlast gildi í þeim þrem ríkjum sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu. Í Noregi hefur þetta verið kallað ,,fax-demokrati” – á Íslandi myndum við segja sms-lýðræði enda við tæknivæddari en frændur okkar.

Miklar ýkjusögur eru sagðar af upptöku ESB-reglugerða inn EES-samninginn. Sannleikurinn er sá að EES samningurinn er innan við tíu prósent af Evrópusambandsaðild. Verulega stórir málaflokkar standa utan EES-samningsins, svo sem landbúnaður, sjávarútvegur, tollamál, viðskiptasamningar við önnur ríki og peningamál. A árabilinu 2000 til 2009 tóku gildi í Evrópusambandinu samtals 34 733 tilskipanir, reglur og aðrir löggjörningar. Aðeins rúmlega þrjú þúsund (3 119) af þessum löggjörningum fengu gildi í EES-samningnum, eða 8,9 prósent.

Ef EES-samningnum yrði sagt upp myndu sjálfkrafa taka gildi fríverslunarsamningar sem voru í gildi áður en EES-samingurinn var gerður, sbr. 120. grein samningsins.

Sviss er hvorki í Evrópusambandinu né aðili að EES-samningnum. Sviss er með margvíslega tvíhliða samninga við Evrópusambandið. Færeyingar hafa jafnframt fetað sig í átt að tvíhliða samningunum við ESB um afmarkaða málaflokka.

Undir forystu Björns Bjarnasonar fyrrv. dómsmálaráðherra skilaði Evrópunefnd í mars 2007 ítarlegri skýrslu um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Þar kemur fram að á undirbúningsstigum löggjafar ESB eiga EFTA-ríkin aðkomu, sé vilji til þess. Tilfellið er að EFTA-ríkin eru ekkert ýkja áhugasöm að hafa áhrif á löggjöfina.

Á Íslandi hefur EES-samningurinn ekki verið umdeildur og í fæstum tilvikum er umræða um það þegar ákvæði frá ESB eru tekin upp í íslenskan rétt á grundvelli EES-samnings. Í Noregi, aftur á móti, er reglulega rætt um EES-samninginn, m.a. gáfu systursamtök Heimssýnar, Nei til EU,  út heila árbók um samninginn.

Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu í tvígang, 1972 og 1994. Í Noregi eru ESB-andstæðingar orðnir svo öflugir og fylgjendur svo veikir að Nei til EU hrjáir verkefnaskortur. Elítan í Verkamannaflokknum heldur verndarhendi yfir EES-samningnum. Við það verður samningurinn skotmark.

Í Noregi hafa andstæðingar aðildar landsins að Evrópusambandinu tekið höndum saman við aðildarsinna að hafa horn í síðu EES-samningsins. Hvor um sig aðilinn vill fá ólíka niðurstöðu úr endurskoðun EES-samingsins. Andstæðingar ESB-aðildar vilja tvíhliða samninga milli Noregis og Evrópusambandsins. Aðildarsinnar óska sér þess að Norðmenn ákveði að ganga í Evrópusambandið að EES-samningnum frágengnum.

Samtökin Prosjektet Alternativer til EØS (Valkostir við EES) skora utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, á hólm í kappræður um valkosti við EES-samninginn. Hópurinn nýtur stuðnings tveggja ríkisstjórnarflokkanna, Miðflokksins og SV.

Andstaða Norðmanna við aðild að Evrópusambandinu er almenn og víðtæk. Um 80 prósent Norðmanna eru á móti aðild. Um helmingur Norðmanna vilja viðskiptasamninga við ESB í stað EES-samningsins.

Norðmenn munu ræða skýrsluna sem var afhent í dag næstu vikur og mánuði. Ólíklegt er að núverandi ríkisstjórn breyti stefnu, sem er að halda í EES-samninginn en standa utan Evrópusambandsins. Á hinn bóginn er grundvöllur samningsins stöðugt að veikjast í Noregi. Fyrr heldur en seinna hlýtur það að hafa þau áhrif að samningurinn verði endurskoðaður.