Evrugeddon – Lærum af reynslu Grikkja

Gústaf Adolf Skúlason

Gústaf Adolf Skúlason skrifar – birtist í MBL 20. jan 2012

Afleiðing af upptöku evrunnar og inngöngu Grikkja í ESB er harmleikur. Reiðin beinist gegn einveldisstjórn ESB, fremst Þýskalandi og Frakklandi: “Brauð, heilsa, frelsi!” hrópar fólkið og “þjófar!” að stjórnmála- og þingmönnum.

Í athyglisverðri heimildarmynd blaðakonunnar Alexöndru Pascalidou í sænska sjónvarpinu við nýár var raunveruleiki Grikkja sýndur. Eftir þáttinn styrktu margir Svíar barnaheimili SOS í Grikklandi en þangað er komið með börn, sem ekki fá mat heima fyrir. Vonandi þorir íslenska sjónvarpið að sýna þessa mynd.
“Allar sjáanlegar lausnir leiða til efnahagslegs stórslyss að mati almennings. Okkur var fyrirlagt að fylgja nýfrjálsri Evrópu, sem hefur lent í fjármagnskreppu. Þess er krafist að Grikkir snúi tímanum við og saklausir játi sekt sína,” segir professor Panagiotis Sotiris. “Þegar við gengum með í ESB og tókum upp landbúnaðarstefnu ESB þurftum við að eyðileggja um eina milljón ólífutrjáa. Við flytjum ekki lengur út ólífuólíu,” segir Liana Kanelli, þingmaður kommúnista (KKE).

Nýr fasteignaskattur er innheimtur með rafmagns- og vatnsreikningum. Þeir sem ekki hafa efni að borga skattinn verða að lifa án vatns í myrkri og kulda. Það var átakanlegt að sjá heima hjá einni fjölskyldu með þrjú börn, að máltíð dagsins voru nokkur harðsoðin egg. Snætt var í skímu kertaljóss, sem slökkt var á að lokinni máltíð. Allir eru þó ekki svo heppnir. Á hafnarbakkanum rétti járniðnaðarmaðurinn Pilitridis fram höndina með þremur evrum og tíu sentum og var stoltur: “Ég get keypt mjólk í dag og boðið börnunum upp á morgunverð.”

Í barnaskólum tilkynna sífellt fleiri kennarar um börn, sem líður yfir sökum næringarskorts. Skólasálfræðingurinn Maria Neziri gat ekki tárum varist: “Ég veit ekki hvað sagt er í Evrópu en ástandið er verra hér en fólk gerir sér grein fyrir. Ég veit ekki hvaða Evrópu er verið að tala um, er það Evrópa bankanna eða íbúanna? Ástandið er hræðilegt, mörg barnanna eru föl og bleik, þau fá ekki mat heima. Eitt barn sagði að þjófar hefðu stolið vatninu.”

Að sögn rithöfundarins Petros Taisopoulos hafa Grikkir fengið áfall og öll tilveran er upp og niður. “Sagt er að Grikkir geri ekki heimavinnuna sína, séu latir og borgi ekki. Ég óttast að Grikkir séu á litlum fleka á miðju Atlantshafi og geti aldrei náð landi, alveg sama hversu mikið þeir vinna eða spara. Okkur er sagt að ef við í besta falli getum borgað vextina muni skuldirnar verða jafnháar árið 2020 eins og nú. Það telur fólk ekki vera lausn.”

“Kreppan er evrópsk ekki grísk, við erum bara um 2% af þjóðarframleiðslu ESB,” segir ritstjóri Publicist, Giorgos Kirtsos. “Þýskaland er sífellt að verða ágengara. Þjóðverjar eru orðnir fjárhagslega sterkir og vilja ráða ferðinni. Þeir leyfa ekki reglur sem gefa skuldsettum ríkjum eins og Grikklandi andrúm. Þjóðverjar réðust á landið okkar, myrtu landsmenn og stálu gullforðanum. Þegar við höfðum jarðað þá föllnu fengu Þjóðverjar eftirstríðslán, sem þeir borga aldrei. Annaðhvort sýna ríki ESB góðan vilja og styðja hvert annað eða við getum grafið ESB. Þess er vænst af Grikkjum að við samþykkjum kröfur Þjóðverja og látum kalla okkur lata þjófa. Við eigum að líða fyrir að styrkja þýska heimsveldið.”

Á sama tíma og Svíþjóð lækkar söluskatt veitingahúsa niður í 12% hækkar gríska stjórnin skattinn upp í 23%. Millistéttin, sem áður fyllti veitingahúsin, er horfin af götunum og hundruð þúsunda smáfyrirtækja eru gjaldþrota. Fjórar milljónir Grikkja lifa við fátæktarmörk og 1,6 milljónir eru atvinnulausar. Ástandið versnar þegar fleiri ríkisstarfsmenn bætast í hóp þeirra 150 þúsunda, sem þegar hefur verið sagt upp. Í Aþenu hafa þeir efnamestu flutt heimili sín frá miðbænum til norðurhlutans vegna óróleika. Opnaðar hafa verið félagsmálabúðir fyrir fólk með skömmtunarseðla – 25 vikulega á mann. Daglega eru súpumötuneyti kirkju- og hjálparstofnana heimsótt af um 250 þúsund þurfandi börnum í Aþenu. Margir ellilífeyrisþegar gefa 300 evra mánaðarlífeyri til atvinnulausra barna sinna svo barnabörnin fái mat. Í staðinn standa afi og amma í matarbiðröðum.

“Við getum ekki refsað landi með því að taka burtu framtíð þess. Bara á síðasta ári hafa laun og ellilífeyrir lækkað yfir 30%,” segir Anna Diamantopoulu, fyrrverandi nefndarmaður ESB. “Sem menntamálaráðherra hef ég lokað 2.500 skólum og 30 háskóladeildum… Í dag virka ekki stofnanir ESB… Öllu er stjórnað af tveimur stórum löndum, Þýskalandi og Frakklandi… Bæði evran og ESB eru sérstök tilraunaverkefni í sögu mannkyns. Mistakist þau verður áfallið óheyrilegt.”

Á Íslandi er blind hlýðni við kreppukrata Samfylkingarinnar mikilvægari en hagsmunir verkalýðsfélaganna. Sekt þeirra sem afneita raunveruleikanum er þó síst minni en þeirra sem skapa vandamálin. Vegurinn til helvítis er malbikaður ásetningi þeirra, sem hvorki vilja sjá, heyra né skilja staðreyndir mála.

Hversu miklar hörmungar á dauðastríð evrunnar að kosta, þar til leiðtogar ESB viðurkenna mistök sín?