Evruríki talin í verulegri hættu

Matsfyrirtækið Moodys segir að bankakerfi evruríkjanna séu í verulegri hættu efist menn um getu þeirra til þess að greiða skuldir sínar, en óttast er að efnahagserfiðleikar Grikkja kunni að breiðast út innan Evrópusambandsins. Sérstaklega eigi þetta við um Írland, Ítalíu, Portúgal og Spán en einnig Bretland sem ekki er með evru sem gjaldmiðil. Hins vegar er fjárlagahallinn í Bretlandi yfir 11% af vergri landsframleiðslu sem er svipuð staða og í Grikklandi.

Vaxandi áhyggjur af ástandi mála innan evrusvæðisins hafa aukið þrýsting á að Seðlabanki Evrópusambandsins upplýsi hvernig hann hafi í hyggju að styrkja evruna, en gengi hennar hefur lækkað talsvert að undanförnu. Þá hafa efnahagsvandræði Grikklands gert það að verkum að stjórnvöld í Póllandi hafa frestað upptöku evru þar í landi um óákveðinn tíma. Síðast var stefnt að því að taka upp evru 2015 en nú þykir alls óvíst hvenær af því kann að verða ef það verður einhvern tímann.

Heimildir:
Óttast að kreppan breiðist út (Rúv.is 06/05/10)
Pólverjar taka ekki upp evru strax (Rúv.is 06/05/10)