Evruríkið Grikkland óskar eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Samkvæmt fréttum fjölmiðla hafa stjórnvöld í Grikklandi nú óskað eftir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi landinu til aðstoðar í alvarlegum efnahagshremmingum þess. Grikkir verða þar með fyrsta ríki Evrópusambandsins sem notar evru sem gjaldmiðil sem leitar á náðir AGS en búist er við því að þeir verði ekki það eina. Áður höfðu þrjú ríki sambandsins í Austur-Evrópu leitað til sjóðsins.

Í öllum þessum tilfellum hefur AGS verið kallaður til að frumkvæði ESB og er ástæðan einfaldlega sú að sambandið hefur ekki treyst sér til þess að hjálpa þeim í efnahagserfiðleikum þeirra eitt síns liðs. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga þann áróður stuðningsmanna inngöngu Íslands í ESB að ef Ísland hefði verið í sambandinu hefði ekki þurft að leita til AGS.

Heimildir:
Greece formally requests EU-IMF aid (Euobserver.com 23/04/10)
Greek EU-IMF aid available in a few days: minister (Eubusiness.com 23/04/10)