Er ESB ekki samstarf frjálsra og fullvalda ríkja?

Ef ríki Evrópusambandsins væru í raun frjáls og fullvalda er ljóst að stofnanir sambandsins, sem flestar eru sjálfstæðar gagnvart ríkjunum, væru því sem næst valdalausar. Það eru þær hins vegar ekki heldur hafa þær gríðarleg og vaxandi völd yfir málefnum ríkjanna. Leitun er í dag að málaflokkum innan ríkja Evrópusambandsins sem ekki lúta yfirráðum þessara stofnana að meira eða minna leyti. Þessi miklu völd voru áður hluti af fullveldi ríkjanna en eru það ekki lengur. Því fámennari sem ríki Evrópusambandsins eru því verr standa þau að vígi í þessum efnum vegna þeirrar reglu sambandsins að vægi einstakra ríkja þess, og þar með allir möguleikar þeirra á að hafa áhrif innan þess, fara fyrst og síðast eftir því hversu fjölmenn þau eru. Því fámennari, því minni möguleikar á áhrifum, því minna frjáls og fullvalda.