Hefði innganga í ESB og upptaka evru í för með sér lægra matvælaverð?

Hlutlausar rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi hafa bent til þess að hugsanlegt sé að verðlag á matvörum gæti lækkað um 10-15% við inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru sem getur vart talist mikil lækkun. Ástæðan er m.a. sú að nú þegar eru flestar innfluttar vörur frá ríkjum sambandsins án tolla vegna EES-samningsins sem Ísland er aðili að. Hvort innganga í Evrópusambandið hins vegar raunverulega skilaði einhverju í þessum efnum kæmi aðeins í ljós eftir að inn í sambandið væri komið enda ljóst að ekkert yrði minnst á verðlagsmál í hugsanlegum samningi um inngöngu Íslands í það. Þess má annars geta að víðast hvar í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem tekið hafa upp evru sem gjaldmiðil hefur verðlag hækkað en ekki lækkað. Í samræmi við það er evran t.a.m. uppnefnd “teuro” í Þýskalandi og Austurríki en þýska orðið “teuer” þýðir eitthvað sem er dýrt. Að lokum má geta þess að landbúnaðarvörur eru bara 5% af útgjöldum heimila og jafnvel 20% lækkun myndi því aðeins skila 1% lækkun útgjalda.