Fjárlög evruríkja þurfi fyrst samþykki Evrópusambandsins

Nái fyrirhuguð áform framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fram að ganga verða evruríki að bera fjárlög sín undir sambandið til samþykkis áður en þau eru lögð fyrir þjóðþing þeirra. Áformin eru ein afleiðing efnahagserfiðleikanna sem Grikkland hefur átt við að stríða á undanförnum mánuðum og stendur til að þau verði kynnt nánar í maímánuði. Búist er við að áformin verði mjög umdeild enda snerta þau mjög viðkvæm málefni.

Olli Rehn, kommissar efnahagsmála í framkvæmdastjórninni, sagði sl. fimmtudag að fyrstu mánuðir hvers árs ættu að fara í það að fá uppkast að fjárlögum hvers ríkis sem framkvæmdastjórnin og fjármálaráðherrar evrusvæðisins færu yfir og segðu álit sitt á áður en þau væru borin undir þjóðþing ríkjanna. Hugmyndin er að fyrst í stað ætti þetta fyrirkomulag eingöngu við um evruríkin en síðar meir öll ríki ESB.

Rehn skírskotaði til greinar 136 í Stjórnarskrá ESB (Lissabon-sáttmálans) sem heimild fyrir þessum áformum en þar segir að evruríkin geti samþykkt með auknum meirihluta (þ.e. ekki einróma samþykki allra) að grípa til aðgerða til þess að styrkja samræmingu og eftirlit með aðhaldi í fjárlagagerð. Í stuttu máli fela hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar í sér miðstýringu ESB á fjárlagagerð ríkja sinna.

Heimild:
Brussels pushes bid to police national budgets (Eubusiness.com 16/04/10)
EU to review national budgets under commission plans (Euobserver.com 15/04/10)