Framkvæmda­stjórn ESB setur ríkis­stjórn Ungverjalands úrslitakosti

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB

Evrópusambandið hefur hafið málarekstur gegn Ungverjalandi vegna nýrra stjórnarskrárákvæða um dómskerfið, bankakerfið og persónuvernd. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar, kynnti þetta á blaðamannafundi þriðjudaginn 17. janúar.

Næsta skref er að senda Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, þrjú bréf þar sem honum er kynnt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Þess verður krafist að ríkisstjórnn afturkalli hin nýju ákvæði eða lagi þau að ESB-lögum.

„Við munum nota allt sem í okkar valdi stendur til að knýja Ungverja til að fara að reglum ESB,“ sagði Barroso.

Aðgerðirnar sem kynntar voru 17. janúar eru fyrsta skrefið í lögsókn sem kann að lokum að leiða til þess að Ungvejalandi verði stefnt fyrir ESB-dómstólinn fyrir brot á lýðræðislegum grundvallarreglum.

Venjulega fá ríki tvo mánuði til að svara áminningarbréfi framkvæmdastjórnarinnar. Líklegt er talið að Ungverjum verði aðeins gefinn tveggja vikna frestur.

Viktor Orbán ætlar að kynna ákvarðanir ríkisstjórnar sinnar og svara gagnrýni í ESB-þinginu miðvikudaginn 18. janúar.

„Við munum ekki leyfa alþjóðlegum vinstrisinnum að ráðast á Ungverjaland með lygum og órökstuddum dylgjum,“ sagði Peter Szijjarto, talsmaður Orbáns, í yfirlýsingu.

Orbán hefur sagt að hann sé fús að taka tillit til atriða í gagnrýni ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Að því er varðar nýju seðlabankalögin þá fellst ungverska ríkisstjórnin á sumar athugasemdirnar og ég sé ekkert að því að samþykkja þær. Um önnur atriði er mikill ágreiningur,“ sagði Orbán.

Þessi frétt var fyrst birt á Evrópuvaktinni