Framsal valds færist í aukana

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fékk í gær heimildir til þess að fara yfir drög að fjárlögum evruríkjanna og skoða hvort farið er eftir reglum sambandsins, en framkvæmdastjórnin hefur einnig heimildir til þess að fara fram á breytingar ef hún telur að fjárlög standist ekki þær reglur sem Evrópusambandið hefur sett.

Mánuðum saman hafa verið deilur innan sambandsins um hversu víðtækar heimildar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ættu að vera, en í gær náðist samkomulag við meirihluta þingmanna Evrópuþingsins. Tillögunum er ætlað að styrkja stöðu evrunnar með því að tryggja aga í ríkisfjármálum evruríkjanna og þar með koma í veg fyrir nýja skuldakreppu.

Framsal valds ekki aðal málið

Meirihluti Evrópuþingsins var ekki ósáttur við hin nýju völd framkvæmdastjórnarinnar, en það sem olli því að leita þurfti sátta við þingið var ósk þingsins um endurskipulagningu lána skuldugra evruríkja. En margir þingmenn höfðu talið að þörf væri að afskrifa stóran hluta af skuldum skuldugra ríkja til þess að bæta stöðu þeirra. Þessum hugmyndum var þó alfarið hafnað af Þjóðverjum.

Þrátt fyrir andstöðu þjóðverja eru talsverðar líkur á því að framkvæmdastjórnin muni leggja fram tillögu þess efnis að skuldir evruríkjanna verði endurskipulagðar, en þá í fyrsta lagi 2014.

Meira um þetta hér.