Grískt samkomulag, en hvað svo? Aukið atvinnuleysi og frekari niðurskurður?

Tómas Gunnarsson

Tómas Gunnarsson skrifar

Það er óneitanlega jákvætt að þessi niðurstaða hafi fengist. Það hefur að vísu ekki skort fréttir undanfarin ár að Grísk stjórnvöld ætli að grípa til róttækra ráðstafana í efnahagsmálum, en því miður hafa þau orðið til lítils.

Nú tekur eurosvæðið við boltanum og ræðir hvort að nógu langt sé gengið og hvort grikkir fái 130 milljarða euroa (sem margir eru farnir að segja að sé of lítið).  Stór spurning er hvað Seðlabanki eurosvæðisins ætlar að gera, en hann er talin eiga í það minnsta í kringum 40 milljarða euroa í Grískum skuldabréfum.  Við eigum einnig eftir að sjá til hvaða ráðstafana Evrópusambandið ætlar að grípa til að fylgja málum eftir.  Persónulega yrði ég ekki hissa þó að ein af þeim fyrstu væri að fresta fyrirhuguðum þingkosningum sem fyrirhugaðar eru í apríl. Ég leyfi mér að efast um að stjórnmálaforingjarnir, eða Evrópusambandið treysti sér í þær.

Tölurnar sem koma frá Grikklandi eru ekki uppörvandi. Í gær birtust tölur um hvernig tekjur Gríska ríkisins hafa skroppið saman, 1. milljarð euroa vantaði upp á áætlanir fyrir janúar. Framleiðsla í landinu dregst saman á ógnarhraða og atvinnuleysi eykst stöðugt. Atvinnuleysi í nóvember var 20.9% en hafði verið 18.2% í október. Atvinnuleysi í nóvember 2010 var 13.9%. Atvinnuleysi ungs fólks var 48% í nóvember. (Byggt á tölum héðan og héðan).

Erlend fyrirtæki geyma helst ekki fé í Grikklandi yfir nótt (það gildir reyndar um fleiri lönd á eurosvæðinu), heldur eru fjármunir umsvifalaust fluttir til Bretlands, Bandaríkjanna eða Þýskalands. (sjá hér)

En þegar tölur yfir atvinnuleysi er skoðaðar er vert að hafa í huga að atvinnuleysisbætur í Grikklandi eru aðeins greiddar í 1. ár. Vaxandi hópur Grikkja hefur fallið út úr almannatryggingakerfinu og á ekki rétt á heilbrigðisþjónustu.

Fyrir 10 árum settu Læknar án landamæra upp starfsstöðvar í Grikklandi til að hjálpa umkomulausum innflytjendum sem streymdu þar inn. Nú segja samtökin að æ fleiri Grikkir leiti til þeirra með grunn heilbrigðisþjónustu. Samtökin hafa nú hafið dreifingu matvæla rétt eins og þau gera í þriðja heims ríkjum. Borgaryfirvöld í Aþenu starfrækja “súpueldhús” við ráðhúsið. Heimilislausum hefur fjölgað um 25% á síðustu 2. árum.

Fyrir stuttu komu Grískir bændur færandi hendi til Aþenu og dreifðu ókeypis á meðal borgarbúa 50 tonnum af kartöflum og lauk. Biðraðirnar leystust upp og til slagsmála kom.  (Hér er byggt á grein í Franska blaðinu Liberation – enska þýðingu má finna hér)

En það er ljóst að euroið hefur ekki tryggt stöðugleika í Grikklandi.  Euroið hefur ekki tryggt kaupmátt Grikkja. Euroið hefur ekki tryggt verðmæti fasteigna í Grikklandi.  En gengi þess hefur auðvitað verið nokkuð stöðugt, sem hefur gert þeim sem eiga umtalsverða fjármuna að flytja þá óskerta frá Grikklandi. Euroið hefur ekki aukið aga í Grískum efnahag, hvorki í ríkisfjármálum eða kjarasamningum. Grikkland hefur glatað samkeppnishæfni sínu og atvinnuleysi eykst sem aldrei fyrr.

Sameiginlega hafa euroið og efnahagsleg óstjórn komið Grikkjum á vonarvöl.  Hin pólítíska mynt Evrópusambandsins gengur ekki upp samhliða efnahagslegum veruleika Grikkja.