Hættið þessu rugli

Nú hlýtur öllum – líka hinum hörðu ESB sinnum – að vera það orðið ljóst hversu mikið feigðarflan það var að ana af stað í viðræður við ESB án þess að hafa fengið til þess skýrt umboð þjóðarinnar. Því þó kosningar hafi verið ný afstaðnar þegar ákvörðunin var tekin og meirihluti Alþingis samþykkt aðildarumósknina, þá var það í raun gert með fölsunum gagnvart þjóðinni. 

 

Sá stjórnmálaflokkur sem í raun tryggði það að aðildarumsóknin var send, braut þar með trúnað sinn við kjósendur. VG hafði nefnilega háð kosningabaráttu sína á vagni eindreginnar andstöðu við aðildarumsókn. Þingmenn hans og frambjóðendur  fóru um allar grundir landsins og hvísluðu í eyru kjósenda og básúnuðu á torgum, að þeim einum væri treystandi þegar kæmi að staðfestu í andstöðu við ESB aðild.

Því miður ginu alltof margir við þeirri flugu. Þetta fólk hefur nú verið svikið í hinum pólitísku tryggðum og bíður nú færis til þess að launa lambið gráa.

Umsóknin og allt það bix er orðin að hreinum skrípaleik. Jafnvel hinir eindregnustu ESB sinnar fyrirverða sig. Erlendir sendimenn sem koma hingað til lands til þess að kynna sér málin, vita ekki hvað á þá stendur veðrið. Þeir fara héðan  og telja sig vita ennþá minna um þetta mál, en þeir álitu þegar þeir komu hingað.

Það er hins vegar ekki að undra þótt þetta ágæta fólk leggi kollhúfur , eftir að hafa farið á milli manna til þess að reyna að átta sig á hvað í ósköpunum sé eiginlega á ferðinni, þegar ESB málið er annars vegar. Þeir skilja það ekki, stjórnvöld vita það ekki og við hin horfum á í forundran og biðjum þess að menn hætti þessu rugli.

En það þarf svo sem engan að undra. Nú er rýnivinnan búin og komið að alvöru málsins. Nú er verið að byrja samningaviðræður. Hið yfirlýsta markmið er að ljúka þeim með samningi. En þá byrja vandræðin. Um hvað ætla menn að semja? Hvernig á að svara sendimönnum ESB? Það veit enginn. Ríkisstjórnin svarar út og suður og veit ekkert í sinn haus.  Þessum ósköpum verður að linna áður en meiri skaði er skeður.

 

Greinin birtist á bloggi Einars K. Guðfinnssonar 14.09.2011, og má finna hér.