Hagfræðingar gegn hagfræði

Í útleggingu hagfræðinnar á kostum myntbandalags og göllum við ýmsar ástæður segir, að því aðeins sé myntbandalag heppilegt, að gangur efnahags sé samstiga í einstökum hlutum bandalagsins. Þetta er stutt dæmum. Merkasta dæmið mundi nú vera evrusvæði Evrópusambandsins. Til þess var stofnað án tillits til þessa skilnings, og nú er þar mikill kyrkingur í sumum hlutum þess, en ekki alls staðar, og kyrkingurinn helst og magnast, þar sem gengi evrunnar er ekki lækkað í þágu atvinnulífs kreppulandanna. Hér verður rakið, hvernig áhrifaöfl hér á landi, sem mælt hafa með myntbandalagi af ýmsu tagi eða öðrum gjaldmiðli, hafa hunsað þessa meginforsendu kenningarinnar um myntbandalag.

Í haust hélt sá, sem nú er fjármálaráðherra, því fram, að ráð gæti verið að gera norsku krónuna að gjaldmiðli hér á landi. Ekki hefur verið sýnt, að efnahagur Íslands og Noregs hafi verið samstiga. Hins vegar eru fjármálaráðherrar landanna samstiga eins og er, að minnsta kosti á góðri stund.

Samband ungra sjálfstæðismanna leggur nú til, að Ísland hafi mynt Bandaríkja Ameríku (BA). Ekki hefur verið sýnt, að efnahagur Íslands og BA hafi verið samstiga. Hins vegar hafa ungir sjálfstæðismenn oft verið samstiga stjórn BA.

Alþýðusambandið vill hafa evru gjaldmiðil á Íslandi. Ekki hefur verið sýnt, að efnahagur Íslands og evrusvæðisins hafi verið samstiga. Þá mætti það að vera sérstakt athugunarefni Alþýðusambandsins, hvernig atvinnuástand verður, þegar efnahagur lítils hluta evrusvæðisins er ekki samstiga voldugri hlutum þess.

Það knýr vafalaust mest á, að slíkar hugmyndir eru settar fram, að Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð vilja annan gjaldmiðil. Félagsmenn þar búa við stöðug óþægindi af sveiflum, sem ýmist varða viðskiptasvæði landsins eða eru af innlendum toga.

Nú síðast (3. apríl) hefur Viðskiptaráð ákallað stjórnvöld að taka upp annan gjaldmiðil. Þar er bent á þau vandræði, sem fylgja gjaldeyrishöftum, sem voru hert í örþrifum. Lausnin má þá ekki vera sú að leiða efnahagslífið í aðra fjötra, þá fjötra, sem leiða af gjaldmiðli, sem sveigist að efnahagslífi, sem ekki er samstiga efnahag Íslands.

Merkilegt við þá afstöðu, sem hér hefur verið sagt frá, er, að þar eru samtök, sem haft hafa hagfræðinga í miklum metum, en nú snúast þau gegn hagfræðinni. Ég kalla á háskólahagfræðinga að láta það ekki ganga yfir hagfræðina, að hagfræðileg rök í örlagamáli séu hunsuð, eins og reyndin er hér. Það er skylda háskólahagfræðinga að halda fram hagfræðilegum rökum, þótt það geti verið óþægilegt að viðurkenna þau í hversdagsbasli fyrirtækja, eins og nú er. Hér hafa háskólahagfræðingar brugðist og tekið sjálfir þátt í umræðu um myntbandalag án þess að brýna fyrir mönnum meginforsendu slíks bandalags, að efnahagur einstakra hluta þess sé samstiga.

Björn S. Stefánsson